Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:31:00 (1193)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Ég hélt ég hefði tekið það fram en mér hefur sennilega láðst að vekja máls á því en samkvæmt þeirri vegáætlun, sem nú liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir árið 1993. Það er gert ráð fyrir því að framkvæmdaþunginn lendi á öðru vegáætlunartímabili. Við erum hér að tala um framkvæmdir sem, ef leið 1 verður valin, nema 870 millj. kr. en á árinu 1993 er einungis gert ráð fyrir 28 millj. kr., en þar er augljóslega ekki um framkvæmdirnar sjálfar að ræða heldur undirbúning, og á árinu 1994 er talað um 66 millj. kr. En verkið í heild sinni mun kosta um 870 millj. kr. og ekki liggur fyrir samþykkt vegáætlun eða langtímaáætlun frá Alþingi um það hvernig fjárveitingum verði veitt til brúar yfir Gilsfjörð á öðru vegáætlunartímabili þannig að það liggur á þessari stundu ekkert fyrir um það af hálfu Alþingis hvort verkið hefjist á árinu 1993. Ég held að þetta sé alveg augljóst og vona að hv. þm. taki þessari ábendingu.