Losun salernistanka húsbíla

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:33:00 (1194)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 136 til hæstv. umhvrh. um losun salernistanka húsbíla. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hyggst umhvrh. grípa til einhverra aðgerða í framhaldi af fregnum af ófremdarástandi sem ríkir víða á hálendi og við ferðamannastaði vegna losunar salernistanka húsbíla?``
    Ástæða þess að ég legg fram þessa fsp. er fréttaflutningur frá sl. sumri um ástand víða á landinu í þessum efnum. Einnig er mér kunnugt um að landverðir eru ekki ánægðir með hvernig þessum málum er háttað og segja að nokkuð sé um að þessi úrgangur sé ekki losaður í viðkomandi losunarbúnað, þrátt fyrir það að slík aðstaða sé fyrir hendi á tjaldstæðum, heldur úti á víðavangi.
    Húsbílum fjölgar stöðugt hér á landi, bæði íslenskum og erlendum, auk þess sem mikið af erlendum hópum sem ferðast um landið fara alls ekki inn á tjaldstæði og það er augljóst að einhvers staðar gerir þetta fólk stykkin sín. Það eru engin viðurlög við því að losa salernisúrgang á víðavangi. Ég geri ráð fyrir að þetta mál falli undir heilbrigðisnefndir á hverju svæði og heilbrigðiseftirlit en þar sem hér er um umhverfisvandamál að ræða, þá langar mig til þess að forvitnast eftir viðhorfum hæstv. umhvrh. til þessara mála og heyra hvort hann hyggst grípa til aðgerða.