Barnalög

32. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 14:29:00 (1201)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hér er flutt frv. til barnalaga og þar eru stigin viss skref í þá átt að dómstólum er ætlað meira hlutverk en áður og úrskurðarréttur ekki jafnsterkur og verið hefur í íslenskri lagagerð. Ég fagna því að við höldum áfram að vinna að þrískiptingu valdsins, jafnt í þessum lögum sem öðrum, að réttur manna til að það séu dómarar sem kveði upp úr fari vaxandi en ekki að það séu handhafar framkvæmdarvaldsins sem ráði með úrskurðum lífi manna.
    Ég staldra líka við þann milliveg sem hér er farinn og tel að það sé rétt hjá hv. 9. þm. Reykn. að varðandi það að ætla að fela tveimur aðilum forsjá yfir barni sé rétt að fara hægt. Hér er það tekið fram að það þurfi að vera um samkomulag að ræða. Í reynd er verið að fela þremur aðilum forsjá yfir barninu og e.t.v. fjórum með þessu fyrirkomulagi, ef líta ber svo á að hjón hafi forsjá yfir barni sem einu sinni var undir forsjá annars þess aðila sem til hjónabandsins stofnaði og það gerist þá jafnt hvort það er kona eða karl sem giftast á nýjan leik, þá séu orðnir fjórir aðilar sem eigi um það að véla hver verði framgangsmáti mála hjá viðkomandi barni.
    Auðvitað er gott að segja að það eigi að vera sátt og samlyndi og menn eigi að láta sér semja. Hitt er þó staðreynd að því aðeins kemur til skilnaðar að ekki hefur verið um sátt og samlyndi að ræða. Biblían boðar að enginn geti þjónað tveimur herrum, hvað þá að barn geti þjónað óskum fjögurra aðila og virðist mér að barnið sé sett í mestan vanda ef menn vilja mjög halda þessu til streitu.
    Ég tek hins vegar undir það, eins og hér er lagt til, að ef þetta er sameiginleg ósk að þannig skuli að málum staðið en á engan hátt til þess þvingað þá get ég fallist á að það verði reynt en vil jafnframt taka undir það sem kom fram hjá 9. þm. Reykn. að í reynd hygg ég að víða sé um þetta verulegur friður milli foreldra þó að skilnaður hafi átt sér stað vegna þess að þetta atriði hefur kannski verið aldrei ástæðuvaldur að skilnaði.
    Ég held aftur á móti að það sé nokkurt umhugsunarefni hvort við eigum að vera með tvenns konar lög, annars vegar frv. til barnalaga og hins vegar lög um vernd barna og unglinga, vegna þess að í þessu frv. að barnalögum er rætt um skyldur foreldranna til þess að sinna sínum börnum. Svo búa foreldrar við það öryggisleysi að nefnd úti í bæ getur einfaldlega ákveðið að hag barnanna sé betur komið fyrir með því að svipta foreldrana réttinum til þess að uppfylla sínar skyldur.
    Mér finnst að við Íslendingar höfum eiginlega varla gáð að okkur í þessum efnum. Það má lengi um það deila hvað kærleikurinn vegur mikið í uppeldi og hvað umhirðan vegur stórt. Það er hægt að fullnægja öllum líkamlegum þörfum barns á stofnunum eða af óskyldum aðila þannig að á yfirborðinu verður ekkert séð eða gert sem ekki fullnægir hinum líkamlegu þörfum. En engu að síður getur barn verið betur komið hjá foreldrum sem vissulega mættu gera mun betur í þeim efnum en eiga aftur á móti til þrátt fyrir allt þá hjartahlýju sem gerir það að verkum að barninu líður betur á sálinni þar heldur en á hinum nýja stað. Þær fráfærur, sem verið er að framkvæma í þessu samfélagi, oft á börnum foreldra sem eru að dómi uppalenda og sérfræðinga undirmálsmanneskjur í samfélaginu, tel ég mjög varhugaverðar og nánast óréttlætanlegar. Ég tel að það eigi miklu fremur að beita þeim aðferðum að veita slíkum foreldrum stuðning inn á sitt heimili. Við skulum hugleiða hvort hið kalda sérfræðingavald leysir alltaf úr mannlegum viðfangsefnum á þann hátt sem best getur orðið.
    Ég held þess vegna að þessi lög, annars vegar frv. til barnalaga og hins vegar frv. til laga um vernd barna og unglinga, skarist í reynd mjög mikið og ég tek undir það sem

kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv. að þetta kallar á endurskoðun laga um vernd barna og unglinga.
    Ég hef aftur á móti lýst því að ég tel að þetta frv. sé til bóta miðað við núverandi ástand, en ég ítreka það engu að síður, sem ég sagði hér áðan, að miðað við þá stefnubreytingu, sem orðið hefur hér á landi um aðgreiningu dómsvalds og framkvæmdarvalds frekar en áður var, held ég að við þurfum að stíga þessi skref alls staðar í okkar réttarkerfi og ekkert síður á þessu sviði en öðrum. Menn hafa vissulega haldið því fram að það þurfi að gæta trúnaðar og það er rétt en trúnaður má aldrei birtast á þann veg í samfélaginu að vegna þess að það eigi að gjalda trúnaðar sé ekki hægt að koma við eðlilegri málsvörn aðila til að verja sinn rétt í því tilfelli að mega hafa sitt barn.
    Ég hef þann tíma sem ég hef verið á Alþingi fengið þó nokkuð mikið af upphringingum manna í þessu samfélagi, manna sem hafa orðið fyrir því að þeir hafa lotið í lægra haldi og ekki fengið yfirráð yfir barni sem þeir vildu hafa yfirráð yfir. Ég hygg að stundum megi segja sem svo að þeim finnist að sami aðilinn hafi í reynd úrskurðað og einnig útbúið þau sönnunargögn fyrir sjálfan sig sem urðu til þess að úrskurður féll á ákveðinn veg.
    Mér finnst að líka sé mjög til bóta, sem hér er sett fram, að það er hætt að greina á milli þess hvort börn séu óskilgetin eða ekki og það hugtak sé sett til hliðar. Ég vil líka taka undir það, sem kom fram í máli 14. þm. Reykv., að ég tel það alveg fráleitan hlut að sú mismunun sé til staðar að konur sem eru ógiftar eigi ekki rétt á því að eignast barn með gervifrjóvgun. Ég tel að um mikla skekkju í rökrænni hugsun sé að ræða að halda því fram að kona, sem leitar eftir því undir slíkum kringumstæðum, sé á einhvern hátt ófærari um að gegna foreldrahlutverki. Þó að vissulega megi halda því fram að barn eigi rétt á föður þá er heldur ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að slíkt barn gæti ekki átt rétt á föður seinna meir. Það getur gerst að aðstæður konunnar breytist og alveg eins má slá því föstu að gift kona sem eignast barn eigi eftir að skilja. Þannig að þarna eru menn í blindgötum að mínu viti og í miklum misskilningi.
    Ég stóð upp fyrst og fremst til að fagna því að þetta frv. er komið fram sem við erum hér með. Ég tel að það sé til bóta og vænti þess að samstaða verði um að það verði að lögum á þessu þingi.