Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 13:41:00 (1206)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Sú umræða sem hér fer fram á sér stað í framhaldi af hörmulegu sjóslysi við Grindavík. Ég vil byrja á því að votta þeim sem þar misstu ástvini sína samúð. Ég geri mér grein fyrir því að enginn getur sett sig í spor þeirra sem misst hafa ástvini sína í svo hörmulegu slysi en þykist vita hitt að öll íslenska þjóðin vill deila harmi með þeim sem í hlut eiga. Það er ekki óeðlilegt að spurt sé um framkvæmd þeirra ákvarðana í björgunarmálum sem Alþingi hefur tekið í tilefni af svo hörmulegum atburði.

    Eins og hér hefur komið fram í máli hv. málshefjanda tók Alþingi um það ákvörðun á sl. vori að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að kaupum á fullkomnari björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Á þann veg hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls að í fyrsta lagi var í tíð fyrri ríkisstjórnar ákveðin í lánsfjárlögum heimild til þess að semja um slík kaup og taka 100 millj. kr. að láni í því skyni. Síðan voru sendir sérfræðingar á erlendan vettvang til þess að kanna hvaða kostir varðandi þyrlukaup væru fyrir hendi. Að lokinni þeirri skyndikönnun var ljóst, að áliti þeirra sem í ferðina fóru, að frekari athugana þyrfti við áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Því var það eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstjórnar að skipa nefnd til þess, eins og segir í erindisbréfi, að undirbúa þá ákvörðun sem Alþingi hafði falið ríkisstjórninni að taka. Formaður þeirrar nefndar var Björn Bjarnason. Í nefndinni áttu einnig sæti þeir sem fyrri ríkisstjórn valdi til að gera þá skyndikönnun sem fram fór á erlendum vettvangi.
    Nefndin hefur skilað áliti. Niðurstaða nefndarinnar er sú að leggja enn til að unnið verði hratt að því að útvega Landhelgisgæslunni öflugri þyrlukost með nýrri þyrlu en hún hefur í dag og í annan stað að kanna möguleika á samstarfi við bandaríska aðila og hefja formlegar viðræður í því efni vegna þess að slíkt hugsanlegt samstarf geti haft áhrif á það hvers konar þyrla verður fyrir valinu þegar þar að kemur. Þær viðræður hefjast nú á miðvikudaginn. Ég hef hafið þær viðræður við bandaríska sendiherrann og ég vænti þess að niðurstöður í þessu máli geti legið fyrir á fyrri hluta næsta árs þannig að áfram verði unnið að þessu máli í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið.