Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 13:44:00 (1207)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Það er leitt að þurfa að ræða þetta mál í skugga þess hörmulega slyss sem varð og tek ég undir góðar óskir til þeirra sem fyrir þessu urðu og votta þeim mína samúð. Í raun og veru þurfum við ekki að hafa langt mál um þessi þyrlukaup. Þau voru rædd ítarlega á síðsta þingi, þau voru rædd í þeirri ríkisstjórn sem þá sat. Ég leit reyndar svo á að þeirri umræðu væri þar með lokið og teningunum kastað og ákveðið að kaupa viðbótarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Til þess var veitt heimild og sömuleiðis heimild til lántöku 100 millj. kr.
    Ég ætla ekki að gera lítið úr samstarfi við varnarliðið. Það hefur oft reynst gott og bjargað mörgum mannslífum. En þessi mál verða aldrei í góðu lagi nema við höfum í eigin hendi nauðsynleg björgunartæki. Óháð því hvort þetta samstarf verður þá verðum við að tryggja í eigin hendi fullkomin björgunartæki. Ég vil því eindregið leggja til, og lýsi stuðningi okkar framsóknarmanna við það, að heimildin sem er í 6. gr. fjárlaga verði án tafar notuð og sömuleiðis heimild til lántöku. Ég vil gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann sé ekki reiðubúinn að lýsa því hér yfir að svo verði gert.
    Það kom mér nokkuð á óvart sem kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. að um eins konar skyndiathugun hefði verið að ræða á þyrlukosti. Ég hafði skilið það svo að sú nefnd sem var skipuð í marsmánuði hefði komist að niðurstöðu um þá þyrlu sem hentaði okkur best. Sömuleiðis kom það mér á óvart að fulltrúar í þeirri nefnd hefðu verið í þeirri síðari. Ég hef a.m.k. skilið það svo að sérfróðir menn frá Landhelgisgæslunni hefðu verið þar sem sérfræðingar en ekki þátttakendur í nefndinni. Ég vil gjarnan fá þetta upplýst nánar og beini spurningu minni til hæstv. fjmrh.