Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 13:49:00 (1209)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Enn á ný ræðum við um björgunarþyrlu hér á Alþingi, að þessu sinni beinlínis vegna sorglegra atburða. Við samhryggjumst öll aðstandendum sjómannanna sem fórust við Grindavík.
    Á fundi, sem haldinn var í Grindavík í gærkvöldi, var farið yfir öll þau efnisatriði sem nauðsynlegt er og ég held að flestir hafi viðurkennt að þar hafi komið fram upplýsingar sem benda til að nú megi ekki lengur bíða með að fylgja eftir ákvörðun Alþingis frá í vor og að það verði að leggja allar ónothæfar útfærslur til hliðar. Það er skýrt í mínum huga að samstarfið við varnarliðið býður ekki upp á fullnægjandi lausn nema sem viðbót við nauðsynlega öryggisgæslu og þær tvær íslensku þyrlur sem við þurfum að hafa til taks. Alþingi hefur lýst yfir vilja sínum og hann ber að virða. Samstarf við varnarliðið væri því aðeins nothæfur kostur að það byði upp á jafngott eða betra öryggiskerfi en ný og öflug þyrla sem samþykkt hefur verið að kaupa. Sú er hins vegar ekki raunin. Þyrlur varnarliðsins miðast við hernaðarþarfir, ekki björgunarstörf í sjávarháska. Þess vegna þarf ekki að ræða þá leið neitt frekar í bili og ekki að láta þær umræður tefja nauðsynlegt mál. Það væri gott ef mögulegt væri að fjármagna þyrlukaup í viðráðanlegum áföngum en þegar verið er að ræða um verðmæti, sem ekki má meta til fjár, líf og limi fólks, verður að hugsa stærra.
    Það frv. sem boðað hefur verið að lagt verði fram er ítrekun á vilja Alþingis og staðfesting. Vonandi duga allar þessar áskoranir til að gengið verði til verka. Ég vonast til að hæstv. dómsmrh. sé mér sammála í þeirri skoðun að þetta mál þoli ekki bið.