Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 14:03:00 (1215)

     Árni Johnsen :
     Virðulegi forseti. Guð gefi þeim styrk sem sárt eiga að binda vegna hörmulegs sjóslyss í Grindavík sl. föstudagskvöld. Í stuttu máli má segja um þyrlumálið að það er þjóðarsátt um að kaupa þyrlu og það hefur legið fyrir lengi. Þjóðin deilir um margt en hún er sammála um að það eigi að kaupa þyrlu og það er unnið á þeim nótum að mínu mati. Það er ljóst að það þarf að kaupa fullkomnari þyrlu en er nú fyrir hendi og það er vilji til þess. Með þeirri þyrlu sem var keypt á miðjum síðasta áratug urðu tímamót í þyrlurekstri hvað varðar viðhald og allan aðbúnað og hefur sú þyrla sannað gildi sitt og bjargað tugum mannslífa. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa innt af hendi stórkostlegt starf sem jafnframt hefur undirstrikað mikilvægi þessa máls. En menn vilja betri tæki og þau eru til og þá eigum við að stuðla að því að fá þau sem fyrst.
    Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að þeir, sem eiga að stýra þessum tækjum, vita best við hvað er að etja og þeim skal treyst til að velja kostinn. Það hafa flugmenn Landhelgisgæslunnar gert með því að mæla með Super Puma. Ég ætla ekki að fara út í tæknileg atriði en á margan hátt hefur sú þyrla besta möguleika til að sinna þeim verkum sem þarf á Íslandi, þ.e. að geta farið í allflestum veðrum hvert á land sem er og hvenær sem er.
    Það er eðlilegt í sambandi við þyrlukaup að ræða styrkingu Landhelgisgæslunnar í heild, uppbyggingu hennar og verkefni. Það hefur legið í láginni. Það er ljóst að verksvið Landhelgisgæslunnar hefur á margan hátt verið í lausu lofti síðan landhelgisstríðinu lauk. Eitt af þeim atriðum er það hlutverk sem stór og öflug þyrla á að sinna. Í því sambandi er eðlilegt að ræða við varnarliðið, eins og gert hefur verið, um samstarf Landhelgisgæslu og varnarliðs um nýtingu á þeim flota sem er til staðar í landinu og væntanlegur er í náinni framtíð af hálfu Íslendinga. Það er líka eðlilegt að ræða þann möguleika, eins og ætlað er, að íslenskir aðilar yfirtaki að hluta eða öllu leyti þá þjónustu sem er á Keflavíkurflugvelli á vegum varnarliðsins.
    Virðulegi forseti. Það eru líkur fyrir yfirlýsingu frá hæstv. dómsmrh. og sjútvrh. um að gengið verði frá þyrlukaupum á næstu mánuðum og ég fagna henni. Ég veit ekki betur en nú í vikulokin hafi verið von á tilboðum frá Frakklandi til að mynda í þá þyrlu sem ég nefndi þó svo annað komi til greina. Þannig er gangur málsins í markvissum farvegi og það þarf að vinna eins hratt eins og kostur er. Á þeim tíma, sem leyfir þangað til gengið verður formlega til undirskriftar um kaup á þyrlu, þarf jafnframt að vinna ákveðna forvinnu. Það má huga að því þegar það liggur ljóst fyrir hver þyrlutegundin verður að senda flugmenn til þjálfunar. Einnig þarf að undirbúa marga þætti og jafnframt er möguleiki á því að leigja þyrlu ef stefnt er að því að fá fyrst og fremst keypta nýja þyrlu, en það tekur eitt og hálft til tvö ár að fá slíkt tæki afgreitt. Ég hef rætt við marga um þessi mál. Sá síðasti, sem ég talaði við, virðulegi forseti, áður en ég kom inn í þingsalinn, var Reynir Traustason, formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Bylgjunnar á Vestfjörðum. Hann eins og allir aðrir undirstrikar mikilvægi þess að unnið sé hratt og ákveðið og málið afgreitt.