Kaup á björgunarþyrlu

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 14:08:00 (1216)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Það er eiginlega ekki hægt annað en harma það í tvennum skilningi að af þessari umræðu skuli þurfa að verða, annars vegar vegna þeirra dapurlegu atburða sem hún tengist en hins vegar vegna þess að að mínu mati væri tíma manna betur varið til þess að halda fund forustumanna allra flokka og ná þar saman um ákvörðun í þessu máli. Ég leyfi mér að skora á forustumenn stjórnmálaflokkanna og þá ekki síst þá sem í ríkisstjórninni eru að hlutast til um slíkan fund. Ég held að síðan færi betur á því að sem fæst orð væru sögð en unnt væri að tilkynna þjóðinni og þá ekki síst sjómannastéttinni um ákvörðun í þessu máli sem algjör samstaða væri um á Alþingi.
    Mig langar til að láta sjónarmið mitt koma fram, sem ég teldi æskilegt að haft væri í huga, og það er mat mjög margra, að til þess að vel væri að þessum málum búið þyrftu í raun að vera hér í rekstri ekki ein heldur tvær öflugar björgunarþyrlur. Vegna landfræðilegra aðstæðna háttar oft þannig til að eitt tæki á einu landshorni skapar ekki það öryggi sem æskilegast væri fyrir allt landið og miðin umhverfis. Þess vegna á að mínu mati að hafa þann möguleika í huga að e.t.v. fáist meira öryggi fyrir lítið hærri upphæð með því að kaupa t.d. tvær nýlegar og nægilega öflugar björgunarþyrlur. Það skapar möguleika á því að a.m.k. yfir hluta ársins, yfir vetrartímann, gætu þær verið staðsettar á tveimur landshornum.
    Ég ítreka þá ósk mína til forustumanna stjórnmálaflokkanna allra að þeir tali sig saman og láti á það reyna á næstu dögum hvort ekki sé unnt að ná um þetta mál algjörri pólitískri samstöðu þannig að ekki þurfi að koma til frekari orðaskipta eða orðahnippinga hér á Alþingi né annars staðar fyrr en ákvörðun liggur fyrir.