Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 14:38:00 (1220)

     Frsm. meiri hl. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
     Virðulegi forseti. Þetta frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur verið lagt fram allt frá árinu 1979 og hefur þessi skattur verið endurnýjaður á hverju ári með samþykkt Alþingis. Lítið hefur farið fyrir hrifningu margra þingmanna á liðnum árum á þessum skatti, en hins vegar hafa aðrir verið mjög ánægðir með skattinn og hefur jafnvel fundist hann í lægra lagi. Hér liggur fyrir nefndarálit frá sjö nefndarmönnum í efh.- og viðskn. Alþingis þar sem lagt er til að frv. verði samþykkt. Þegar kemur að undirskrift nefndarmanna eru þær mjög skrautlegar því að allir nefndarmenn nema einn skrifa undir með fyrirvara. Einn nefndarmanna, sem er varaþingmaður, skrifar undir nál. fyrirvaralaust.
    Auðvitað fer ekki á milli mála að fulltrúar þeirra flokka sem hafa með mikilli ánægju stutt þennan skatt á liðnum árum skrifa undir með fyrirvara og þeir koma vafalaust til með að gera grein fyrir honum en ég ætla að tala nokkuð um minn fyrirvara og á hverju hann byggist. Ég vil taka fram að einn nefndarmanna, Halldór Ásgrímsson, var fjarverandi við afgreiðslu málsins og einn nefndarmaður, Ingi Björn Albertsson, skilar sérstöku nál. á þskj. 139 og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni afstöðu.
    Afskaplega erfitt er fyrir menn sem hafa verið mótfallnir skattinum og talið hann ranglátan að snúa svo við blaðinu núna. En menn eru misjafnlega heilsuhraustir eins og gerist og gengur. Ungur og vaskur maður sem búinn er að berjast gegn þessum skatti árum saman, eins og hæstv. fjmrh., hefur haft þrek til þess að leggja þetta frv. fram. Og af því að ég hef fremur góðar taugar til hans og hann hefur ekki verið mjög lengi í embætti fjmrh., eða frá vordögum til þess að þetta frv. var lagt fram fyrr á þessu hausti, þá hefur hann ekki haft tíma til að snúa hlutunum að öllu leyti við. Því mun ég greiða atkvæði með frv. að þessu sinni og ég treysti því að þessi skapnaður sjáist aldrei oftar frá hendi núv. fjmrh. Og svo verð ég víst að segja að lokum að meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.