Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 14:42:00 (1221)

     Frsm. minni hl. efh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson) :
     Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 139 um frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Nefndarálitið er svohljóðandi:
    ,,Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var fyrst lagður á 1979 sem tímabundin tekjuöflun. Hann hefur síðan verið framlengdur árlega. Álagningarhlutfallið var í upphafi 1,4% af fasteignaverði verslunar- og skrifstofuhúsnæðis. Árið 1984 var skatturinn 1,1% af fasteignaverðinu og hélst svo til ársins 1989 en þá var hann hækkaður í 2,2%. Árið 1990 var hlutfallið lækkað í 1,5% og enn er ráðgert að viðhalda þessum tímabundna skatti með óbreyttu skatthlutfalli.
    Ljóst er að fyrirtæki í verslun og þjónustu eiga nú við mikla örðugleika að etja, ekki síst á landsbyggðinni. Þessi skattur, sem mismunar fyrirtækjum og atvinnugreinum og er þess vegna afar óréttlátur, lendir fyrst og fremst á þeim fyrirtækjum sem verst standa um þessar mundir.
    Minni hlutinn mun flytja brtt. á sérstöku þskj. þess efnis að álagningarhlutfallið verði 0,5% sem annað af tveimur skrefum til þess að leggja þennan ,,vonda skatt`` niður. Verði sú brtt. felld leggur minni hlutinn til að frv. verði fellt.`` Þannig hljóðar, hæstv. forseti, álit minni hlutans.

    Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég hef tekið þátt í umræðum um það síðan ég kom á þing og hef alla tíð verið á móti þessari skattlagningu. Ég hef flutt brtt. og ávallt lagt til að skatturinn verði í fyrsta lagi lækkaður sem fyrstu skref í áttina að því að fella niður og ef þau skref næðu ekki fram að ganga yrði frv. fellt og skatturinn félli niður.
    Ég get engan veginn kyngt þessari skoðun minni og stefnu. Þó ég sé núna kominn hinum megin við borðið frá því sem ég var á síðasta þingi er þetta enn mín skoðun og ég mun ekki kyngja henni. Þetta er mín skoðun og verður það áfram.
    Það þarf ekki að hafa mörg orð um þennan skatt, menn vita að hann mismunar atvinnugreinum, hann er ranglátur, eins og kom fram hér áðan, og sem betur fer er ég enn þá heilsuhraustur, þó að síðasti ræðumaður telji sig kannski ekki vera það, en ég hygg hann sé það nú samt, alla vega í svona bardaga. Ég er alla vega nógu heilsuhraustur til að standa fastur á móti þessum skatti.
    Það vita allir sem vilja vita að t.d. í Reykjavík stendur ónotað skrifstofu- og verslunarhúsnæði upp á þúsundir fermetra. Það sama er uppi á teningnum úti um landsbyggðina. Engu að síður þarf að greiða af þessu húsnæði, sem engan arð ber, fullan skatt. Þó ekki væri nema þetta atriði lagað væri það skref í rétta átt.
    Ég spyr þá landsbyggðarþingmenn sem hér hafa eytt löngum tímum og löngum ræðum í byggðamál og atvinnumál, hvað þeir ætli að gera til að styrkja landsbyggðarverslunina. Hvað ætla þeir að gera? Það verður gaman að fylgjast með því hér á eftir þegar atkvæðagreiðslan fer fram hvort þeir, sem þykjast vera landsbyggðarþingmenn, meini eitthvað í raun og veru. Það kemur í ljós á eftir.
    Hæstv. forseti. Eins og ég sagði hef ég lagt fram brtt. sem gerir ráð fyrir því að skatthlutfallið fari úr 1,5% niður í 0,5% sem fyrra skref af tveimur í áttina til þess að leggja þennan skatt niður. Verði sú brtt. ekki samþykkt leggur minni hluti til að frv. verði fellt.