Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 15:13:00 (1224)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það er fullt tilefni til að ræða þetta frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði bara út frá nál. einu saman og framsöguræðu formanns nefndarinnar og framsöguræðu hæstv. fjmrh. Ég minnist þess satt að segja ekki að hafa heyrt í mínu stjórnmálastarfi menn mæla fyrir málum með þeim hætti sem hér hefur verið gert; með því að byrja á að segja að þeir séu á móti málinu og leggi síðan til að það verði samþykkt. Þetta er dálítið kúnstugt og hlýtur að vekja upp þær spurningar hjá þeim sem fylgjast með málflutningi af þessu tagi hvað mikið er að marka slíka stjórnmálamenn. Hvort gagnrýni þeirra og andstaða við málið á fyrri tíma hafi verið byggð á því sjónarmiði að vera á móti þáv. ríkisstjórn frekar en pólitískri sannfæringu. Það er útilokað fyrir menn sem vilja láta taka sig alvarlega að skipta um skoðun með jafnfátæklegum rökum og fram hafa verið borin af hálfu flutningsmanns og formanns nefndarinnar.
    Ég dreg þá ályktun af því sem þeir hafa sagt um málið að þeir hafi í raun og veru ekki haft rökin fyrir því að vera á móti málinu áður fyrr þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og það beri að líta á málflutning þeirra í því ljósi.
    Ég vil draga fram sjónarmið varðandi þetta frv. sem ég gerði ekki grein fyrir við 1. umr. málsins og þau sjónarmið koma fram í brtt. sem ég hef flutt við þetta frv. Það sem er athyglivert við skattstofninn er að hann er fasteignamatið, hann er eignarskattur, en hins vegar er hann afmarkaður við tiltekna starfsemi þannig að ekki er beint samhengi á milli skattstofnsins og starfseminnar sem í raun er verið að leggja skattinn á. Þar sem við vitum að skattstofninn, fasteignamatið, er að verulegu leyti samræmdur um allt land þá bera menn jafnþungar byrðar vitandi það að getan til að standa undir þeim er mjög breytileg eftir því hvar verslunin er staðsett, á hvaða markaðssvæði hún er og hversu mikil velta fer í gegnum viðkomandi verslun.
    Ég bendi líka á annað atriði sem er umhugsunarefni og hv. þm. Egill Jónsson benti á í umræðu um byggðamál, en það er offjárfestingin í þessari atvinnugrein. Fram kemur í ræðu hv. þm. að í Reykjavík einni séu til sölu um 200.000 m 2 af viðskipta- og iðnaðarhúsnæði, eða um 20 hektarar. Þetta er býsna mikið sem menn hafa fjárfest í húsnæði sem þeir hafa ekki not fyrir. Það hlýtur að vera verkefni stjórnvalda á hverjum tíma að reyna að beina fjárfestingunni þangað sem hennar er mest þörf og reyna að koma í veg fyrir mikla fjárfestingu þar sem hennar er ekki þörf. Hér er margra milljarða fjárfesting í húsnæði sem greinilega er ekki þörf fyrir. Ég er hér með bók sem við fengum senda á sínum tíma, Fjárfesting 1945--1989. Þar kemur t.d. fram að í árslok 1989 var fullgert húsnæði, verslunar-, skrifstofu- og gistihús 4,8 milljónir m 3 , sem er 20% meira en samanlagt húsnæði fisk- og frystihúsa og síldar- og fiskimjölsverksmiðja. Það mætti bæta við vinnslu búsafurða eða landbúnaðinn og þá erum við komin með nokkurn veginn jafnar stærðir samanlagt í landbúnaði og sjávarútvegi annars vegar og verslunar-, skrifstofu- og gistihúsnæði hins vegar. Ég tel, eins og ég hef áður gert grein fyrir, að offjárfestingin sé ekki fyrst og fremst í sjávarútvegi, eins og hefur verið rekinn mikill og harður áróður fyrir, heldur í atvinnugreinum eins og verslun og í skrifstofuhúsnæði. Við sjáum ef við skoðum beinar tölur í sömu bók á bls. 129 að fjárfesting í verslunar-, skrifstofu- og gistihúsnæði er tæpir 66 milljarðar kr. en í fiskveiðum 49 milljarðar kr. Við erum því með um 17 milljörðum meiri fjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði og gistihúsnæði heldur en í fiskveiðum.
    Þetta dreg ég fram til að sýna mönnum tölurnar, þær upphæðir sem búið er að binda í þessari atvinnugrein. Auðvitað eiga menn að velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að breyta þessu og reyna að stýra fjárfestingunni. Ég tel að ein leiðin sem við getum notað sem hagstjórnartæki sé skattlagning, eins og þessi skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæðinu. Það má færa fyrir því rök að til þess að þessi skattur virki sem raunverlegt hagstjórnartæki þyrfti hann að vera hærri en hann hefur verið á undanförnum árum og jafnvel verulega hærri. Ég legg áherslu á að menn reyni að líta á þennan skatt líka í því ljósi.
    Ég legg fram tvö meginsjónarmið fyrir þessari brtt. Annars vegar er það hagstjórnartæki; að hækka skattinn á stóru þéttbýlissvæðunum, þar sem verslunin er mest og fjárfestingin mest, í því skyni að að draga þar úr og líka til að ná fram tekjum til að lækka þennan skatt á dreifbýlisverslunina sem stendur ekki vel, a.m.k. ekki að sögn forsvarsmanna hennar. Vissulega eru dæmi fyrir því erlendis að menn gangi svo langt að styrkja dreifbýlisverslun til að halda uppi viðunandi þjónustu í dreifðum byggðum. Þessi sjónarmið tel ég eigi fullan rétt á sér og tel nauðsynlegt að hv. nefnd taki þau til skoðunar að lokinni 2. umr. og fjalli um þau. Ég vil, til þess að gefa nefndinni færi á að fjalla um þessi sjónarmið, draga til baka til 3. umr. þessa brtt. mína.