Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 15:35:00 (1228)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. ( EgJ: Þetta er málþóf.) Þingheimi til upplýsingar þá er það ekki mín hugmynd að fara hér í málþóf, enda ættu þeir sem viðhafa slík orð að kynna sér fyrri umræður um þetta mál þar sem talað var í marga klukkutíma. En það er orðið svo hér á hv. Alþingi að þingmenn verða að hafa heimild til að stíga í ræðustól án þess að stuðningsmenn ríkisstjórnar séu ávallt að láta í það skína að með því sé verið að ástunda málþóf. (Gripið fram í.) Það gleður mig að heyra að hv. þingflokksformaður Alþfl. skuli upplýsa það, en hann virðist hafa fremur slæmt samband við núv. ríkisstjórn því að það flytur enginn jafnmargar fyrirspurnir og hann hér á Alþingi. Hingað til hefur það verið svo mér vitanlega að þingflokksformenn fá viðtöl við ráðherra ef þeir vilja fá upplýsingar frá þeim. En svo virðist vera að þingflokksformaður Alþfl. fái ekki lengur viðtöl við núv. ríkisstjórn heldur flytur hann fyrirspurnir hér á Alþingi og flytur síðan sérstakar tillögur í efnahagsmálum í blöðum. Ekki er þetta nú mjög traustvekjandi fyrir núverandi stjórnarsamstarf, en það er að sjálfsögðu þingflokksformanns Alþfl. að skipuleggja það fyrir sitt leyti og ekki ætla ég að ráðleggja honum neitt í því. En þetta vekur óneitanlega athygli.
    Ég kom hingað upp fyrst og fremst til að lýsa þeirri afstöðu minni í þessu máli að ég get efnislega stutt það að þessi skattur verði framlengdur um eitt ár. Ég ítreka það sem ég sagði við hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls að það er engin leið að taka endanlega afstöðu til málsins nema fá a.m.k. einhverjar upplýsingar um heildarskattastefnu ríkisstjórnarinnar. Það er nefnilega þannig að það að samþykkja einn skatt verður oft til þess að menn komast hjá því að samþykkja annan. Skattamálin eru samtengd með einum eða öðrum hætti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að í þessum málum eru ekki aðeins góðir kostir og menn þurfa stundum að sætta sig við það, eins og núv. hæstv. fjmrh., að samþykkja skatt sem hann hefur alla tíð barist á móti, væntanlega vegna þess að hann er svo mikið á móti því að taka upp einhvern annan. Ég veit ekki hvaða skattur það er sem hæstv. fjmrh. getur ekki hugsað sér að taka upp í staðinn fyrir þennan skatt, hann getur e.t.v. upplýst það. En við báðum um það við 1. umr. málsins að fá frekari upplýsingar um það hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í skattamálum.
    Í fjárlagafrv. kemur t.d. fram að það stendur til að hækka tekjuskattinn. Þar er upplýst að sérstaklega eigi að hækka tekjuskatt á tekjuhærri fjölskyldum sem eigi mörg börn. Það hefur ekkert frekar verið upplýst um þetta tekjuskattsfrv. Þar kemur líka fram að það geti staðið til að draga úr frádrætti vegna húsnæðisbóta sem ég held að heiti svo nú, hét áður vaxtabætur, og það komi líka til álita að draga úr frádrætti í sambandi við sjómannaafslátt. Ekkert frv. um þessi efni hefur séð dagsins ljós hér á hv. Alþingi.
    Við höfum jafnframt spurst fyrir um það hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í sambandi við aðstöðugjöld. Við höfum heyrt hæstv. félmrh. lýsa því yfir að aðstöðugjaldið verði fellt niður og báðir stjórnarflokkarnir styðji það. Ég heyrði ekki betur en hæstv. félmrh. upplýsti þessa afstöðu Sjálfstfl. og Alþfl. á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Síðan kom hæstv. fjmrh. og sagði að það væri engin niðurstaða í þessu máli. Hæstv. forsrh. hélt einnig ræðu um þetta mál og af henni mátti ráða að það væri langt í frá að hann gæti stutt að aðstöðugjaldið yrði fellt niður og lagði hann áherslu á tengingu atvinnulífsins við sveitarfélögin. Undir það get ég í sjálfu sér tekið en það kemur þessu máli ekki sérstaklega við.
    Það er alveg ljóst í mínum huga að það er mikilvægara en allt annað í sambandi við skattamál fyrirtækja að aðstöðugjaldið verði fellt niður. Það er mál nr. 1, 2 og 3. Þessi skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þó hann sé mjög gallaður og ég tek undir mjög margt af því sem hæstv. núv. fjmrh. hefur sagt í því máli, er þó sýnu skárri en aðstöðugjaldið. Þess vegna er mjög líklegt að ef við fengjum nú upplýsingar um það með hvaða hætti núv. ríkisstjórn hyggst koma skattamálum í höfn fyrir jólin, þá gætum við mörg hver sem hér sitjum og erum í stjórnarandstöðu stutt þetta mál. En það er engin leið að gera það á þessari stundu án þess að hafa frekari upplýsingar um málið. Þess vegna hlýt ég að greiða atkvæði á móti miðað við það að ég hef engar upplýsingar fengið af hálfu hæstv. fjmrh. um skattastefnu ríkisstjórnarinnar að öðru leyti. Var það þó skýrt tekið fram við 1. umr. að ég gæti ekki stutt þetta mál nema fá frekari upplýsingar í því.
    Ég veit ekki hvað hæstv. ríkisstjórn vill gera í þessu máli en best væri í sjálfu sér að fresta þessari umræðu og láta hana halda áfram þegar skattafrv. liggja öll fyrir. Það mundi greiða fyrir málum að hafa það sem mest í samfloti því að samspil skattanna er svo mikið. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að ríkisútgjöldin og staða ríkissjóðs verður ekki tryggð nema með skattheimtu í einu eða öðru formi. Ég vil stuðla að því að það geti náð fram að ganga með skikkanlegum hætti en ég er ekki tilbúinn að styðja hér einstakt mál sem þar að auki eru deilur um án þess að frekar liggi fyrir um skattastefnu núv. ríkisstjórnar. Því lýsi ég því yfir að ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv.