Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 13:32:00 (1230)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
     Virðulegi forseti. Í ræðu minni í gær, stuttri ræðu sem ég flutti rétt fyrir kl. 4, taldi ég að hæstv. forsrh. hefði beðið um orðið en hann greip fram í og gat þess að hann hefði ekki beðið um orðið. Það verður þess vegna í upphafi umræðunnar hér í dag að óska eftir því að hæstv. forsrh. verði við þeirri ósk, sem komið hefur fram hjá tveimur stjórnarandstöðuflokkum í þessari umræðu, að hann geri grein fyrir því hvaða stuðning ríkisstjórn hans hefur við það frv. sem hér er til umræðu. Það er merkilegt að hæstv. forsrh. virðist ekki enn þá hafa haft kjark til þess eða getu til að koma hingað upp í ræðustólinn og gera þinginu grein fyrir því hvert sé bakland ríkisstjórnarinnar í þessu frv. Ég vil því ítreka þá ósk, sem bæði hefur verið sett fram af hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og mér að forsrh. --- til að greiða fyrir umræðum um þetta mál því að við höfum í sjálfu sér engan áhuga á því að tefja þær --- geri þingheimi strax þegar ég hef lokið máli mínu eða fljótlega í umræðunni í dag grein fyrir því hver er stuðningur stjórnarþingmanna við þetta frv. Nú heyri ég greinilega að hæstv. forsrh. hefur barið í borðið og beðið um orðið og er það vel.
    Ég sagði að við ætluðum ekki að tefja umræðu um þetta mál. Það er rétt. Við ætlum ekki að fylgja fordæmi Sjálfstfl. frá þremur fyrri þingum í umræðum um þetta mál. Ég sá það að ýmsir hv. þm. brostu í kampinn þegar ég kom með þennan bunka upp í ræðustólinn og héldu kannski að ég ætlaði að fara að lesa þetta allt saman hér, en það er ekki rétt. Ég ætla að hlífa hæstv. fjmrh. við því. Ég ætla að hlífa formanni þingflokks Sjálfstfl. við því. Ég ætla að hlífa frsm. nefndarinnar, hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, við því. Vegna þess að þetta sem ég er hér með eru ræður þingmanna Sjálfstfl. á móti þessum skatti meðan ég var fjmrh., þær einar og sér og ekkert annað. Það nálgast að vera tvö hefti í þingtíðindum sem Sjálfstfl. talaði á síðasta kjörtímabili gegn þessum skatti. Þetta eru mjög glæsilegar ræður og þar er nú ekki verið að skafa utan af hlutunum í þeim mikla bunka sem hér er. Og það er merkilegt að enn sem komið er skuli það bara vera einn þingmaður Sjálfstfl., hv. þm. Ingi Björn Albertsson, sem hér fékk lófatak á svölum þingsins í gær, sem enn þá hefur sömu sannfæringu og á síðasta kjörtímabili. Kannski ætti ég að gefa hæstv. fjmrh. þennan bunka.
    Ég ætla ekki að lesa þessar ræður, ég hafði þær bara með mér til þess að sýna magnið, af hve miklu er að taka, alveg endalaust ef menn vilja, eins og Sjálfstfl. gerði fyrir tveimur árum, ræddi þennan skatt dögum saman, hæstv. forsrh., hér í þinginu, dögum saman. Það var nú framlag Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu til að greiða fyrir þingstörfum að berjast svo hart gegn þessum skatti að hann lagði marga daga í þinginu undir umræður um málið. En þessi bunki hér er til afnota fyrir þá þingmenn Sjálfstfl. sem óska eftir honum alveg sérstaklega.
    Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, góður drengur, var á síðasta kjörtímabili í fararbroddi baráttunnar utan þings gegn þessum skatti. Hann var þá og er enn framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, samstarfsráðs verslunarinnar í landinu. Og þau voru mörg erindin sem Alþingi fékk og ég fékk sem fjmrh. þar sem Verslunarráðið fordæmi þennan skatt með margvíslegum rökum. Ég spurði að því í ræðustól í gær --- vegna þess að ég kynntist þeirri hlið á hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni og áttum við ágætt samstarf þegar ég var fjmrh. að hann vildi vera sjálfum sér samkvæmur og málefnalegur --- hvernig stæði á því að hann væri nú orðinn stuðningsmaður þessa skatts eða hvort hann væri orðinn það. Þingmaðurinn bað um orðið og er líklegast næstur á mælendaskrá og ætla ég ekki að verða til þess að tefja mikið að hann geti komið hér í stólinn. En hann birtist þjóðinni í gærkvöldi á sjónvarpsskerminum, í ellefufréttum sjónvarpsins. Fréttamaðurinn spurði hann um afstöðuna til þessa skatts. Hún kom nú ekki alveg strax heldur kom í upphafi smápistill um mig, sem var ágætur og allt gott um hann að segja, þar sem hann m.a. sagði eftirfarandi: ,,Ég er alveg viss um það að ef Ólafur Ragnar mundi nú hjálpa okkur við það að koma með tillögur, raunhæfar tillögur til þess að skera niður, þá mundi ekki standa á okkur að vera á móti þessum skatti.`` Það er nú það. Þeir eru byrjaðir að auglýsa eftir hjálp. Og sá sem þeir helst sjá til þess að hjálpa sér, það er ég. En mínútuna á undan er ég ávarpaður af þingmanninum Vilhjálmi Egilssyni sem ,,Ólafur Ragnar, vinur minn``. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er kannski líka kominn í þennan hóp þingmanna Sjálfstfl. sem segir það að ef ég sé reiðubúinn að koma og hjálpa þeim, þá væri kannski hægt að fella þennan skatt niður. Ég mun taka þetta til athugunar. Það er greinilegt að ríkisstjórnin þarf á hjálp að halda, hæstv. forsrh. Kannski þarf einhverja aðalleikara í ríkisstjórnarsamstarfið fyrst forsrh. er að eigin áliti bara í aukaleikarahlutverkinu.
    En fréttamaðurinn spurði hins vegar hv. þm. Vilhjálm Egilsson: ,,En munt þú sem þingmaður Sjálfstfl. styðja þennan skatt núna á verslunar- og skrifstofuhúsnæði eins og þetta liggur fyrir?`` Og þá sagði þingmaðurinn þessi gullvægu orð: ,,Ja, ég er nú að leita mér að þreki til þess.`` Hann er ekki búinn að finna það enn. Hann er að leita sér að þrekinu til að ganga gegn samviskunni, fylgja því sem hann hefur verið á móti, og bætir svo við að til þess að hann geti náð þessu þreki, og nú kemur tilvitnun orðrétt: ,,þá þurfa ýmis hagsmunamál verslunarinnar að ná fram að ganga.`` Stuðningurinn og þrekið er sem sagt skilyrt. Fyrst þurfa að koma ýmis hagsmunamál verslunarinnar og þau þurfa að ná fram að ganga eða með öðrum orðum hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði þjóðinni það í ellefufréttunum í gærkvöldi að hann treysti sér ekki til að greiða atkvæði um þennan skatt fyrr en botn væri kominn í það hvort ýmis hagsmunamál verslunarinnar næðu fram að ganga og nefnir svo sérstaklega í beinu framhaldi: að breyta virðisaukaskattslögunum þannig að hægt sé að stunda pappírslaus viðskipti, koma á fríverslunarsvæði, breyta lögunum um bókhald og svona ýmislegt fleira. En þetta þrennt er nefnt alveg skýrt í viðtalinu í fréttunum í gærkvöldi af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, að áður en hann fær þrek til að greiða atkvæði með þessum skatti, þá þarf í fyrsta lagi að koma hér upp fríverslunarsvæði, þá þarf í öðru lagi að breyta virðisaukaskattslögunum og þá þarf í þriðja lagi að breyta lögunum um bókhald. ( Gripið fram í: En vöxtunum?) Hann nefnir það ekki, hv. þm., nefnir ekki vextina. Hann nefnir hitt þrennt.
    Þar með er annar í viðbót af fulltrúum Sjálfstfl. í efh.- og viðskn. þessa þings fallinn. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson neitar að vera í þessu liði og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson tilkynnti þjóðinni það í gær að hann væri ekki enn kominn í það og þyrfti a.m.k. þrjá aðgöngumiða til þess að treysta sér í það lið. Þess vegna er það eðlilegt að menn spyrji hæstv. forsrh. hér í þingsalnum um þann stuðning sem sé fyrir þessu máli í þingflokki Sjálfstfl. Hvað eru það margir þingmenn Sjálfstfl. sem hafa heitið skilyrðislausum stuðningi við þetta frv., hæstv. forsrh.? Hvað eru þeir margir?
    Það ber svo að geta þess að samstarfsráð verslunarinnar, sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er framkvæmdastjóri fyrir, hefur með bréfi 7. nóv. 1991 til hv. þm. Matthíasar

Bjarnasonar og formanns efh.- og viðskn. þingsins, orðrétt, ,,skorað á þingmenn og ráðherra að fella skattinn niður við meðferð fjárlagafrv.`` Nú kemur spurningin hvort hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ætlar að verða við áskorun þeirra samtaka sem hann er framkvæmdastjóri fyrir og hann sagði þjóðinni í gær að hann væri ekki enn þá búinn að öðlast þrek til þess. Ég hef fulla samúð með því vegna þess að ég kynntist hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni þannig að hann væri drengur góður og vildi heldur fylgja því sem hann hefði fylgt áður.
    Virðulegi forseti. Ég verð að óska eftir því að hæstv. félmrh. verði viðstaddur umræðuna. ( Forseti: Hæstv. félmrh. kemur kl. 2.) Já, það er gott. Að vísu finnst mér vont að hæstv. félmrh. skuli ekki vera í salnum og ekki er það ætlun mín að tala endilega til kl. 2 til þess að geta átt orðastað við hæstv. félmrh. Ég vil hins vegar endurtaka það sem ég sagði í gær að hæstv. félmrh. setti líka fram skilyrði í haust, alveg eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Hæstv. félmrh. setti líka fram sín skilyrði í áheyrn alþjóðar í sjónvarpi eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Skilyrði hæstv. félmrh. voru á þann veg að hún mundi ekki styðja fjárlagafrv. nema fram gengju þær jöfnunaraðgerðir í skattamálum í þágu láglaunafólks sem forsrh. hefði lofað henni að hún fengi á sérstökum sáttafundi sem haldinn var á skrifstofu forsrh. með þeim utanrrh., félmrh. og forsrh. Og vegna þess að þetta er fyrsta tekjuöflunarmálið, það skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem hér er til umræðu, og senn líður að 2. umr. um fjárlagafrv., hún á samkvæmt starfsskrá þingsins að fara fram eftir mjög skamman tíma, rúma viku eða svo eða tæpar tvær vikur, ef ég man starfsskrá þingsins rétt, og það er mjög stuttur tími, þá er óhjákvæmilegt að áður en við göngum til atkvæða um þetta fyrsta skattafrv., fylgifrv. fjárlagafrv., þá lýsi hæstv. félmrh. því hér yfir hvað líði þessum jöfnunaraðgerðum í skattamálum í þágu láglaunafólks sem hún sagði að sér hefði verið lofað og þess vegna samþykkt að fjárlagafrv. yrði flutt. Ég vona að virðulegi forseti komi þessari ósk minni á framfæri við hæstv. félmrh. þegar hún kemur hér til fundar svo að ég þurfi ekki að endurtaka þær óskir mínar á nýjan leik.
    Virðulegi forseti. Ég ætla á þessu stigi ekki að segja mikið meira um þetta frv. En ég bendi hins vegar hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. á að ekki er nú stórbrotin siglingin þegar greinilegt er að þeir ætla að treysta á atkvæði stjórnarandstöðunnar til að koma fylgifrv. fjárlagafrv. í gegn vegna þess að uppreisnin í þeirra eigin liði er svo mikil að þeir þurfa á stjórnarandstöðunni að halda til að koma málum í gegn. Var þetta sterka stjórnin sem mynduð var í Viðey? Er þetta sterki formaðurinn í Sjálfstfl. sem felldi Þorstein Pálsson með þeim orðum að nú þyrfti sterkan formann og öfluga stjórn, mann sem kynni og gæti og agaði flokkinn á ný, endurreisti Sjálfstfl.? Ja, hvílík endurreisn, það hefur aldrei verið eins mikil uppreisn í þingliði Sjálfstfl. við afgreiðslu stjfrv. og nú, hæstv. forsrh., ef frá er talinn tími Gunnars Thoroddsens. Það er afrek, hæstv. forsrh., að vera búinn að kljúfa Sjálfstfl. svo rækilega á innan við hálfu ári að klofningurinn birtist hér í þingsalnum á hverjum degi.
    Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lýsti yfir þeirri ósk að ríkisstjórnin gæti leitað til mín með ráð og hjálp. Ég er alveg reiðubúinn að ræða það við hv. þm. Vilhjálm Egilsson en ég vona að hæstv. forsrh. fari ekki að gera eitt og hið sama.
    Virðulegi forseti. Við munum hlýða á orð forsrh. á eftir og þær tryggingar sem hann hefur. Við munum hlýða á Vilhjálm Egilsson og hæstv. félmrh. og í lok þeirra yfirlýsinga meta hvað næst skal gera í þessari einstöku stöðu sem er komin upp í þinginu.