Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 14:15:00 (1239)

     Vilhjálmur Egilsson :
     Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um orð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, vinar míns og fyrrv. fjmrh., hlý orð í minn garð og okkar samstarfs meðan hann var fjmrh. En það er vissulega rétt og alveg skylt að geta þess að hann átti þá marga góða spretti í ýmsum málum þótt hins vegar félagar hans í ríkisstjórninni færðu honum sópinn til þess að sópa vandamálunum undir teppið, kannski einum of oft í stað þess að beita hæfileikum hans til þess að skera niður ríkisútgjöldin. Því miður sitjum við nú uppi með þá staðreynd í dag. Mér þykir líka vænt um það hvað hann hefur tekið mikið mark á mér sem framkvæmdastjóra Verslunarráðsins í gegnum tíðina og sérstaklega hvað hann hefur tekið eftir skoðunum mínum á þessum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði í gegnum okkar samstarf.
    Ég held að við getum verið alveg sammála um það, við hv. þm. Ólafur Ragnar, að þessi skattur er afspyrnuslæmur, hann hækkar vöruverð í landinu. Þótt verslunin greiði skattinn þá neyðist hún til að velta honum út í vöruverðið og þetta rýrir samkeppnishæfni verslunarinnar gagnvart erlendri verslun og er þess vegna hinn mesti óþurftarskattur. Hins vegar sitjum við uppi með það að búið var að sópa svo mörgum vandamálum undir teppið í tíð hv. þm. sem fjmrh. að Sjálfstfl. treysti sér ekki til þess að lofa því að lækka skatta

eftir kosningar. Er þetta líklega í fyrsta sinn sem ég man eftir í þeim flokki að menn fari í kosningabaráttu án þess að þora að lofa því að lækka skatta, en venjulega hefur það nú verið á stefnuskránni og menn reynt að framkvæma það í hvert skipti sem þeir hafa haft aðstöðu til. Þess vegna er nú úr vöndu að ráða þegar um svo erfiðan skatt er að ræða og eins líka þegar staðan er svona erfið í ríkisfjármálunum. Undir þetta þarf maður að beygja sig því engum væri gerður greiði með því að auka stórlega halla á ríkissjóði. Þess vegna er sá þingmaður sem hér talar nú í þeirri aðstöðu að þurfa að safna þreki til að greiða atkvæði með þessum skatti.
    Mér þótti líka afar vænt um það að hv. þm. hálft í hvoru bauð fram aðstoð til þess að benda á leiðir til að lækka ríkisútgjöldin og hjálpa okkur í því. Ég er viss um það að ef hv. þm. lætur verða af því að hjálpa okkur við það og bendir á leiðir til þess að lækka útgjöldin með raunhæfum hætti og finnur upp einhverjar leiðir sem hann kom ekki auga á þegar hann var sjálfur fjmrh., þá reikna ég með því að ekki standi á því að hlusta á þær tillögur og ræða um þennan skatt í því samhengi.
    En til þess að safna þreki til að standa með skattinum, sem ég hef sagt að ég ætli að gera, þá hjálpar að sjálfsögðu til ef ýmis framfaramál sem snerta viðskipti og atvinnulíf í landinu nást fram. Mörg af þeim málum sem þar er um að ræða voru mál sem störf voru jafnvel hafin að í tíð hv. þm. sem fjmrh. Þar vil ég nefna að hæstv. núv. fjmrh. setti nýlega reglugerð um frísvæði, en það er eitt af þeim málum sem ég held að skipti afar miklu máli fyrir verslun í landinu og gefur henni möguleika á því að verða útflutningsgrein eins og nauðsynlegt er fyrir okkur. Í annan stað hefur hæstv. núv. fjmrh. lýst því yfir að hann hyggist taka upp tollkrít í tengslum við pappírslausar tollskýrslur. Ég er viss um að það er mál sem hv. þm. hafði í huga þegar hann var fjmrh. og rætt var við hann. Enn fremur þarf að taka til hendinni við virðisaukaskattslögin og bókhaldslögin til þess að gera ráð fyrir pappírslausum viðskiptum með skjalaskiptum milli tölva. Hæstv. núv. fjmrh. hefur sýnt mikinn áhuga á því máli, ekki síðri áhuga en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sýndi þegar hann var fjmrh.
    Ég á nú eftir að ræða betur við hæstv. núv. fjmrh. um tvö mál sem ég tel að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi látið plata inn á sig af embættismönnum þegar hann var fjmrh. Annað málið er það að gerð var sú krafa í tengslum við virðisaukaskattinn að búðarkassastrimlar yrðu geymdir í sjö ár. Ef þessum haugum væri safnað saman á einn stað þyrfti eins og eina íþróttahöll til að geyma þessi ósköp. Það er reyndar mikil spurning af hverju þetta var gert og ég hef aldrei fengið almennilega skýringu á því.
    Hitt málið, sem ég þyrfti líka að taka upp í góðu tómi, er að í reglugerð sem hv. þm. setti sem fjmrh. krafðist hann þess að sölunótur vegna virðisaukaskatts væru í þríriti. Þessi krafa hefur í sjálfu sér engin tengsl við þarfir fyrirtækjanna eða skattsins vegna þess að það er hægt að fletta upp bókhaldi og fara yfir alla hluti alveg óháð því hvort sölunótur eru í þríriti. Það eina sem hugsanlegt er að þetta skili er það að þegar þeir sem hafa eftirlit með skattinum mæta á staðinn þá geta þeir flett upp sölunótum uppröðuðum alveg sérstaklega fyrir þá. Öll fyrirtæki í landinu hafa því af þessu stórkostlegan kostnað sem ekki bara fylgir því að hafa nóturnar í þríriti heldur er allt geymsluplássið sem fylgir þessu sjálfsagt upp á eina til tvær Þjóðarbókhlöður á ári sem atvinnulífið í landinu þarf að reisa bara til þess að geta hýst öll þessi afrit. Þannig er margur kostnaðurinn sem þarna kemur inn í.
    En þessi mál eru flest á góðri leið hjá hæstv. núv. fjmrh. og eitt þeirra meira að segja komið í höfn, þannig að ég held að hæstv. núv. fjmrh. verði ekki skotaskuld úr því að uppfylla þessi skilyrði sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var að tala um að ég hefði sett, enda er hæstv. ráðherra búinn að því að hluta.

    Ég vil síðan endurtaka það að þessi skattur er hinn versti skattur. Líklega ekki margir skattar sem eru jafnvondir vegna þess að hann mismunar atvinnugreinum gróflega. Hann kemur afar ójafnt og tilviljanakennt niður en fyrst og fremst hækkar hann vöruverðið og gerir verslunina óhæfari til þess að keppa við verslun annars staðar. Ég fagna því alveg sérstaklega að fá í hóp bandamanna gegn þessum skatti hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson og hlakka til þess í framtíðinni að geta unnið með honum að því að afnema skattinn á raunhæfan hátt þó að því miður geti víst ekki orðið af því við þessi áramót.