Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 14:24:00 (1240)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Vegna þeirrar stefnu sem þessi umræða hefur tekið sýnist mér nauðsynlegt að bæta nokkru við það sem ég sagði í gær. Í þeim umræðum um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem fram fór hér á hinu háa Alþingi í gær, rakti ég fyrirvara okkar þingkvenna Kvennalistans við þetta mál og nefndi að stuðningur við þennan skatt byggðist á því að ríkisstjórnin hefði meiri hluta fyrir þessu máli og að ríkissjóður mætti ekki við tekjutapi við núverandi aðstæður. Til að þessar röksemdir okkar standist verður auðvitað að liggja fyrir hvort stjórnarflokkarnir hafa styrk til að koma málinu í gegn sem koma mun í ljós í atkvæðagreiðslunni sem verður í lok þessarar umræðu og þó enn frekar hvernig annarri tekjuöflun ríkissjóðs verður háttað.
    Eftir umræðurnar sem hér áttu sér stað í gær kannaði ég nánar hvernig að þessum málum hefur verið staðið á undanförnum árum og komst að því að þegar skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur verið til umræðu á þingi ár eftir ár, hafa önnur tekjuöflunarfrv. ríkisstjórna verið komin fram.
    Kvennalistinn hefur stutt þennan skatt gegnum árin, eins og áður hefur komið fram, en sá stuðningur hefur byggst á því að jafnan hefur legið fyrir hvernig annarri tekjuöflun ríkisins yrði háttað. Þá hafa þingkonur Kvennalistans litið svo á að þessi skattur væri skárri en ýmsar álögur á heimilin í landinu.
    Nú bregður hins vegar svo við, þegar verið er að afgreiða þetta mál til 3. umr., að ekkert liggur fyrir um frekari tekjuöflun ríkisins annað en það sem fram kemur í fjárlagafrv. Við hljótum því að bíða þess að önnur frv. komi fram. Það er nefnilega laukrétt sem fram kom í mál hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar í gær, að það er hvorki sanngjarnt né rétt að ætlast til þess að þingmenn taki endanlega afstöðu til þessa máls, þótt um gamlan kunningja sé að ræða, meðan fátt eitt er vitað um tekjuöflunar- og skattastefnu ríkisstjórnarinnar í heild. Afstaða okkar til þessa skatts hlýtur að ráðast af því hvernig dæmið lítur út heild.
    Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að von væri á öðrum tekjuöflunarfrv. í næstu viku og ég segi enn og aftur: Eftir þeim verður að bíða. Ég fer þess því eindregið á leit, hæstv. forseti, að þessu máli verði frestað þar til þau tekjuöflunarfrv. sem væntanleg koma fram og þingmenn sjá hvernig allt tekjudæmið lítur út. Verði ekki orðið við þessari beiðni get ég engu lofað um stuðning þingkvenna Kvennalistans við þennan skatt.