Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 15:38:00 (1245)

     Jón Kristjánsson :

     Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er merkilegt að þetta er eina tekjuöflunarfrv. sem fram er komið og svo langt er liðið á þingtímann fyrir jól að það eru tæpar þrjár vikur eftir og hver vikan líður hratt. Það er því eðlilegt að við í stjórnarandstöðunni spyrjum hver sé skattastefna ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið inntak þessarar umræðu. Menn hafa krafist þess að fá að vita hver sú heildstæða stefna sé. Það er skemmst frá því að segja að fátt hefur verið um svör. Hér hafa þrír hæstv. ráðherrar tekið til máls í dag og það er náttúrlega ekki hægt að bjóða þingheimi upp á það að ræða hæstv. forsrh., þegar hann er krafinn um skattastefnu ríkisstjórnarinnar, fjalli um landsfund Alþb. Það er náttúrlega ekki hægt að sitja undir þessu. Frá landsfundi Alþb. á að segja í fréttum. Það er hlutverk fréttastofu útvarps og sjónvarps að segja frá honum, með allri virðingu fyrir þeim flokki. En svör hæstv. forsrh. hér á Alþingi þegar hann er krafinn sagna um stefnu ríkisstjórnarinnar eru ekki vettvangur til að ræða um landsfund Alþb.
    En það er fleira merkilegt í þessari umræðu. Hér er fjallað um álagningu skatts á eina atvinnugrein í landinu. Ég hef fylgt þessari álagningu hingað til, samþykkt hana í gegnum tíðina og vegna þess að ég hef talið að hún gæti kannski dregið úr því fjárfestingarkapphlaupi sem er í þessari atvinnugrein. Hún hefur að vísu ekki dregið úr því, en hér ber nú vel í veiði að hafa framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands til að ræða um þessi mál og það er því eðlilegt að til hans sé beint spurningum varðandi þennan skatt, enda hefur hann, hv. 5. þm. Norðurl. v., tekið þátt í þessari umræðu. Hann hefur að vísu tilkynnt það að hann eigi erfitt með að samþykkja þennan skatt og sagt að það verði að vera háð nokkrum skilyrðum. Og hver skyldu þau skilyrði vera? Hver skyldu vera aðalvandamálin í þessari atvinnugrein? Jú, það eru nótur í þríriti og geymsla fyrir rúllur úr búðarkössum. Þetta eru aðalvandamálin í versluninni. Ég er kunnugur landsbyggðarverslun en við eigum þar við stærri vandamál að etja en þau hvort nótur eru í tvíriti eða þríriti. Mér finnst þetta dálítið einkennilegt. Ég átti von á því að framkvæmdastjóri Verslunarráðsins mundi krefjast þess að aðstöðugjald væri fellt niður af versluninni í landinu. Hann mundi bætast í hóp þeirra sem ætla að styðja hæstv. félmrh. í því að fella niður aðstöðugjaldið. ( VE: Það stendur ekkert á því.) Það stendur ekkert á því. Það var verðmæt yfirlýsing. Takið eftir. Þar er framkvæmdastjóri Verslunarráðsins búinn að lýsa því yfir að hann muni bætast í hóp þeirra sem berjast fyrir því að fella niður aðstöðugjaldið.
    En það er ekki allt sem sýnist í þessu og hv. stjórnarliðar hafa verið efins enda kom það fram hjá hæstv. fjmrh. áðan að ríkisstjórnin hefur ekkert ákveðið og fer undan í flæmingi í þessum efnum. Það hefur m.a. verið rakið af síðasta ræðumanni. Síðasta fimmtudag voru þessi mál til umræðu hér á Alþingi, niðurfelling aðstöðugjalds, og einn af stjórnarliðum sem var í vafa, vafalaust um vilja sinnar eigin ríkisstjórnar í þessum efnum, spurði hæstv. félmrh.: ,,Er þess að vænta að félmrh. leggi fram stjfrv. um niðurfellingu aðstöðugjalds?`` Hæstv. félmrh. svaraði þessu en af því að ég ætla ekki að tefja þingstörf þá mun ég ekki lesa svar hæstv. félmrh. að öðru leyti en því að hún sagði, með leyfi forseta: ,,Virðulegi forseti. Með vísun til þess sem ég hef rakið svara ég fyrirspurninni játandi.`` --- Fyrirspurnin snerist um hvort þess yrði að vænta að lagt yrði fram stjfrv. um niðurfellingu aðstöðugjalds.
    Hv. 8. þm. Reykn. skaut sér inn í þessa umræðu og taldi hæstv. félmrh. ekki öfundsverðan af því hlutverki að reyna að knýja fram innan núv. ríkisstjórnar ákvörðun um þetta. En fyrirspyrjandi, hv. 5. þm. Reykn., Árni R. Árnason, var harla feginn og sagði: ,,Ég þakka hæstv. félmrh. svör við fyrirspurninni og þarf ekki að ítreka hver þau voru, efnislega jákvæð.`` Þessi hv. þm. virðist draga andann léttar.
    En eins og kom fram hér áðan þá verst hæstv. ríkisstjórn allra frétta í þessum efnum. Það virðist eiga að draga ákvörðun í þessu máli á langinn. Hve lengi? Það hefur ekkert komið fram um það. Hér hefur þó komið fram í frammíkalli frá hv. 5. þm. Norðurl. v., sem er framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, að hann vill berjast fyrir þessu og ég vona að hv. þm. staðfesti þetta úr ræðustól í þessari umræðu.
    Ég veit að hæstv. félmrh. hefur fyrir löngu séð hvers lags óréttlæti er falið í aðstöðugjaldinu fyrir sveitarfélögin í landinu. Þess vegna er hæstv. félmrh. að berjast fyrir þessu máli. Spurningin er: Ætlar ríkisstjórnin að fara inn í Evrópskt efnahagssvæði með þetta aðstöðugjald? Eiga hagsmunir Reykjavíkurborgar að ganga fyrir þjóðarhagsmunum að þessu leyti? Er það tilfellið? Ég vona að svör fáist. Ég vil tala skýrt í þessu efni af því að þessi tekjustofn er ótéttlátur, hann þekkist hvergi í nágrannalöndunum og hann mismunar byggðarlögum. Það óréttlæti eykst hröðum skrefum eftir því sem samgöngur batna í landinu og þjónusta færist saman. Af því leiðir að staðir sem mesta þjónustu hafa innan sinna marka eru ofan á og raka til sín í skjóli vaxandi viðskipta. Óhjákvæmilegt er að ræða þetta mál þegar rætt er um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Auðvitað verða menn að ræða þessi mál í samhengi. Og það er ekki boðlegt að hæstv. ráðherrar komi hér í ræðusól og tali eins og véfrétt um þessi efni. Ég undanskil þó hæstv. félmrh. Hann hefur talað skýrt, hann vill fella þetta gjald niður en hæstv. fjmrh. hefur varist allra frétta en verið þó málefnalegur í sinni umræðu. En hæstv. forsrh. talar um landsfund Alþb. þegar þessi mál ber á góma.