Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 16:01:00 (1249)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér er ljúft að staðfesta það að hæstv. félmrh. starfaði ávallt í þeim anda að málefni fatlaðra fengju forgang. Ég hef aldrei sakað hana um annað. Ég var eingöngu að lýsa því að sá forgangur mældist í þeim upphæðum sem hún sjálf las upp hér áðan en lýsti um leið þannig að það væri ég sem hefði ákveðið þær. Forgangsröð málsins birtist í þeim fjármunum sem félmrh. ákvað að setja í Framkvæmdasjóð fatlaðra í samvinnu við aðra ráðherra þegar hún gegndi þessu embætti í tíð síðustu ríkisstjórnar. En mér er ljúft að votta það að hæstv. félmrh. hefur ávallt eins og við fleiri verið skelegg í baráttunni fyrir málefni fatlaðra.
    Hins vegar varðandi kröfuna um niðurskurð á framlögum í Lánasjóð ísl. námsmanna þá var lýsing hæstv. félmrh. á þeirri atburðarás dálítið brosleg fyrir okkur sem sátum í síðustu ríkisstjórn. Sérstaklega fyrir mig og hæstv. fyrrv. forsrh., sem situr hér í salnum, því það var ekki svo sjaldan sem við hlustuðum á þá kröfu hæstv. félmrh. að ef hún ætti að vera til viðtals um einhverjar breytingar á framlagi í Byggingarsjóðinn þá yrði að skera niður Lánasjóð ísl. námsmanna.