Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 16:24:00 (1251)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Þessar umræður eru búnar að standa býsna lengi. Það eru komin út tvö hefti þingtíðinda með ræðum úr þessum umræðum og ég ætla því ekki að lengja þessa umræðu mikið. Mig langar samt að koma að fáeinum atriðum sem hafa verið hér í umræðunni og kannski fyrst að því sem hæstv. forsrh. var að segja áðan.
    Ég var satt að segja búinn að bíða nokkuð spenntur eftir að heyra forsrh. segja okkur hvaða boðskap hann mundi hafa eða hvaða lærdóm hann hefði dregið af þeim ræðum sem hann hefði hlýtt á hér og var búinn að lýsa áður sem mjög áhugaverðum og góðum umræðum. Þess vegna, eins og ég sagði áðan, beið ég spenntur eftir því að heyra hvað forsrh. segði um þetta og hvað hann hefði lært af öllum þessum umræðum. Það fannst mér vera furðulítið. Hann endurtók aftur á móti þær setningar sem við höfum heyrt svo oft í þessari umræðu að byggðastefnan hefði brugðist o.s.frv. sem við kunnum nú orðið alveg. En ég beið og ég hugsaði alltaf með mér: Nú hlýtur það að fara að koma, en þá hélt hann áfram að lýsa því hvað aðrir hefðu sagt í umræðunni og enn kom ekki neitt um hvað hann teldi að ætti að gera í byggðamálum. Og sannast sagna er það ákaflega lítið sem hefur komið fram frá þeim mönnum sem hafa komið hér með þessar klisjur um það að byggðastefnan hafi brugðist æ ofan í æ, talandi um óráðsíu, sukk og annað því um líkt. Það sem hefur komið fram, sem kalla mætti tillögur, er annars vegar að það eru einhverjar óljósar hugmyndir um vaxtarsvæði, það eigi að gefa fólki tækifæri að flytjast á einhver vaxtarsvæði og svo aftur að það eigi að flytja Byggðastofnun til Akureyrar. Ég ætla að koma að því fyrst.
    Út af fyrir sig get ég vel fallist á þá hugmynd að höfuðstöðvar Byggðastofnunar verði á Akureyri. Hins vegar tel ég að það að flytja Byggðastofnun út á land ætti að gerast með þeim hætti að við setjum ekki upp neitt vandamál þess vegna. Byggðastofnun hefur verið að færa starfsemi sína út á land og ég tel að það sé rétt stefna. Ég álít að í kjölfar þróunar sem e.t.v. verður hjá Byggðastofnun sé hægt að flytja höfuðstöðvarnar. Ég held að það sé ekki góð hugmynd að flytja Byggðastofnun til Akureyrar í einu lagi núna, a.m.k. ekki fyrr en menn eru búnir að komast að þeirri niðurstöðu að Byggðastofnun eigi akkúrat að vera eins og hún er og eigi ekki að vaxa meira á öðrum stöðum á landinu. Ég hef ekkert á móti Akureyri og get vel, eins og ég sagði áðan, hugsað mér að höfuðstöðvar Byggðastofnunar verði á Akureyri, en ég tel að það eigi að vinna skipulega að því að flytja út á land og þess vegna megi endapunkturinn á þeirri áætlun vera að höfuðstöðvarnar fari til Akureyrar.
    Þeir, sem hafa verið að hrópa á torgum og gatnamótum um óráðsíu og sóun, handahófskenndar fyrirgreiðslur og annað slíkt í sambandi við byggðastefnu á undanförnum árum, hafa komið í ræðustól og talað eins og þeir vildu gera miklu betur. Þess vegna hlustaði ég svona grannt eftir því hvað hæstv. forsrh. mundi segja í umræðunni því að af þeim orðum, sem menn hafa viðhaft, má ráða að menn vilji gera betur. En það hefur ekki komið fram með hvaða hætti eigi að gera svona miklu betur. Ég held því miður að þeir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, a.m.k. sumir hverjir, hafi opinberað í umræðunni allt aðrar hugrenningar heldur en það að þeir vilji gera betur.
    Ég ætla að vitna í ræðu hv. 3. þm. Reykv. í þessari umræðu. Mér þykir slæmt að hann skuli ekki vera hér mættur en ég ætla nú samt að vitna í hans orð vegna þess að ég tel að hann tali fyrir munn þeirra sem hafa verið með þessar áherslur. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Umræðurnar um Byggðastofnun og byggðastefnu einkennast mjög af því að sumir þingmenn virðast telja að tilfærsla á fjármunum úr vasa skattgreiðenda til landsbyggðarinnar`` --- úr vasa skattgreiðenda til landsbyggðarinnar, mér finnst ekki verið tekið til orða með þeim hætti að maður geti skilið að þetta sé í vinsemd sagt --- ,,fyrir milligöngu stjórnmálamanna og opinberra sjóða eigi ekki aðeins rétt á sér heldur sé beinlínis forsenda þess að byggð þróist með eðlilegum hætti hér í landinu. Aðrir telja að sú tilfærsla á fjármunum skili ekki þeim árangri sem að er stefnt og þess vegna eigi að finna nýjar leiðir. Ég skipa mér í síðari flokkinn. Mér finnst að ekki hafi tekist sem skyldi t.d. við ráðstöfun á þeim 12 milljörðum kr. sem fluttar hafa verið frá skattgreiðendum til landsbyggðarinnar í gegnum Byggðasjóð og Byggðastofnun síðan árið 1972.``
    Á öðrum stað í ræðu sinni segir hv. 3. þm. Reykv., og hann er að tala um Byggðastofnun:
    ,,Er ekki að efa að stofnunin hefur hæfu starfsfólki á að skipa. Nefndarmönnum var t.d. greint frá góðum árangri af svonefndum átaksverkefnum sem felast í því að aðstoða heimamenn í einstökum byggðum við að koma á fót nýrri atvinnustarfsemi eða efla þá sem fyrir er. Viðleitni til þess að ýta þannig undir framkvæmdavilja er lofsverð. Hún fellur einnig í góðan jarðveg hjá þeim sem átta sig á því að kröfugerð á hendur öðrum skilar síður árangri en tilraunir til að leysa vandann sjálfur.`` --- Kröfugerð á hendur öðrum. Hverjir eru þessir aðrir?
    Mér finnst að þegar menn tala með þessum hætti séu þeir að tala eins og tvær þjóðir búi í landinu. Þó það vilji svo til að landinu sé skipt upp í kjördæmi þá þýðir það ekki að hér búi tvær þjóðir. Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta, bæði hér á Reykjavíkursvæðinu og úti um allt land. Mér finnst það ömurlegt að hafa tekið þátt í umræðum jafnvel við hv. þm. hér á þinginu þar sem þeir tala um fjárveitingar til hafna og annað slíkt, til vegamála og annað slíkt, eins og það sé einhvers konar gustukaverk við landsbyggðina á viðkomandi svæðum. Þetta hefur maður nú upplifað og ég er á því mjög undrandi. Ég hélt satt að segja að þessi skilningur væri kannski bundinn við einhverja ákveðna hópa, af því að maður hefur orðið var við hann, en ekki að hann næði alla leið hingað inn á þingið.
    Hæstv. ríkisstjórn sem nú situr vakti náttúrlega ákaflega mikla athygli fólks á sínum tíma þegar hún fæddist í Viðey. Í framhaldi af þeirri fæðingu fóru menn að velta mikið fyrir sér hvers konar afstöðu þessi ríkisstjórn mundi nú hafa til byggðamálanna í landinu. Sumir höfðu af þessu miklar áhyggjur og þar á meðal ég. Það er vegna samsetningar ríkisstjórnarinnar, sem ég ætla nú ekkert að fara út í að lýsa hér, enda þekkja hv. þm. það vel allt saman, en mér létti dálítið þegar fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar, sem hefði mátt segja að væri jákvætt til handa landsbyggðinni, kom fram. Það voru niðurgreiðslur á raforku til húsahitunar. Þá held ég að margir hafi kannski látið sér detta í hug að í kjölfarið mætti búast við fleiri aðgerðum af þessum toga.
    Síðan hafa farið fram miklar umræður um orð hæstv. forsrh. og hér hafa menn komið í ræðustól og talað um það að orð hans hafi verið slitin úr samhengi og rangtúlkuð og allt að því lögð við hégóma. En ég held að forsrh. hafi talað vel fyrir sig sjálfur í þessum umræðum og skýrt alveg út fyrir mönnum hvað hann á við með sínum orðum. Hann getur haft sínar skoðanir og ég virði þær. En eitt langar mig til þess að segja við hæstv. forsrh.: Mér finnst það lýsa furðulegu skilningsleysi á hlutverki forsrh. þessa lands, sem nýstiginn er út úr herbergi borgarstjórans í Reykjavík, að sitja áfram sem fyrsti borgarfulltrúi höfuðborgarinnar á þeim tímum sem átökin um byggðina í landinu eru eins og þau eru. Það hljóta að verða margvíslegir hagsmunaárekstrar í brjósti manns sem stendur með annan fótinn í borgarstjórn Reykjavíkur og hinn sem forsrh. landsins, yfirmaður allra byggðamála. Það er ekki vegna þess að ég telji að það sé heppilegt að slík átök séu heldur langar mig til að spyrja: Hvernig getur hæstv. forsrh. fjallað með alveg skýrri hugsun, og með lágmarkshlutleysi um mál eins og það að leggja af aðstöðugjaldið? Þegar sveitarfélögin allt í kringum landið hafa sett sig í stellingar í sambandi við það mál, að fá nú loksins leiðréttingu á þeim mismun sem er á tekjum sveitarfélaganna, þá stendur forsrh. landsins í þeim sporum að vera bæði í borgarstjórninni í Reykjavík og forsrh. landsins, yfirmaður allra byggðamála og eins og hv. þm. Egill Jónsson lýsti svo vel: Valdamesti maður byggðamála á Íslandi fyrr og síðar. Þetta tel ég að lýsi skilningsleysi á þeirri stöðu sem hæstv. forsrh. er í.
    Ég hef líka verið að bíða eftir því að heyra frá ríkisstjórninni um það til hvaða aðgerða hún ætlar að grípa í sambandi við byggðamálin á þessum vetri. Mér finnst satt að segja ótrúlegt að ekki skuli vera komnar fram fleiri fyrirætlanir um það að reyna að laga eitthvað til í byggðamálunum á sama tíma sem yfirlýsingar liggja fyrir um að það verði ekkert hægt að gera til að rétta hlut fyrirtækjanna í landinu nema einhvers konar almennar aðgerðir, þegar við vitum að undirstöðuatvinnuvegirnir standa frammi fyrir gjaldþroti víða um landið. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að tími sértæku aðgerðanna sé liðinn og það má í táknrænum skilningi segja að uppboðshaldarinn sé fulltrúi stjórnvalda á Íslandi á þeim stöðum þar sem atvinnulífið er að hrynja.
    Við hefðum viljað fá að heyra eitthvað um þessa hluti. Mér finnst miklu frekar hægt að segja að ríkisstjórnin hafi hreinlega sofið á verðinum. Hún hafi sem sagt sofið á verðinum gagnvart þeim hlutum sem hún hefði þó getað gert og menn hafa verið að bíða eftir. Hún hefur t.d. látið það gerast sem ég efast ekki um að hún hefði getað haft áhrif á, að rafmagnsverð í landinu hækki stórlega á árinu. Þeir aðilar sem þar um fjalla eiga mjög sterk ítök í stjórn Landsvirkjunar og hefðu getað haft áhrif á raforkuverðið. Ég ætla ekkert að fara að þylja það mál, allir þingmenn hér inni þekkja hvernig það hefur gengið fyrir sig.
    Ég hefði viljað sjá hér í þinginu koma fram tillögur í sjávarútvegsmálum og byggðamálum núna á þessu hausti frá hendi ríkisstjórnarinnar þar sem væri tekið á vandamálum atvinnulífsins úti um landið.
    Ég tel að það ætti t.d. að draga markvisst úr því eða ef þurfa þykir, að banna flutning veiðiheimilda á milli byggðarlaga á meðan verið er að endurskoða fiskveiðistefnuna til að koma í veg fyrir að byggðarlög leggist hreinlega af. Mér finnst að það þurfi að lýsa því yfir að það eigi ekki að breyta út frá fiskveiðistefnunni eins og hún er núna, alla vega þangað til menn eru búnir að endurskoða hana. Þess vegna tel ég að það þurfi að lýsa því yfir að tvöföldun línuaflans verði áfram í gildi á meðan. Og það þurfi líka að lýsa því yfir að það verði ekki farið að krukka í sóknarmarkskerfi litlu bátanna undir sex tonnum, vegna þess að það eru mörg byggðarlög allt í kringum landið sem munu verða fyrir miklu áfalli ef það verður gert sem nú stendur til samkvæmt lögunum að úthluta kvóta á litlu bátana árið 1993. Þá verður grundvellinum undan útgerð fjölmargra lítilla báta kippt í burtu og þar með eru sum byggðarlög búin að vera í þeim skilningi að gera út litla báta.
    Ég tel líka að það eigi að skoða alvarlega, ekki bara að setja reglur um það, hvernig frystiskip eigi að vera í laginu og hvað eigi að vera um borð í þeim, heldur eigi hreinlega að koma í veg fyrir að frysting aflans flytjist út á sjó á meðan verið er að endurskoða þessa fiskveiðistefnu og menn megi draga andann og komast að einhverri niðurstöðu um hvort þetta sé svona afskaplega hagstætt fyrir þjóðarbúið. Þó það sé hagstætt fyrir viðkomandi útgerðir að gera út með þessum hætti þá þarf það ekki að vera hagstætt fyrir þjóðarbúið og við vitum að það tapast fjölmörg atvinnutækifæri vegna þessa.
    Ég hef líka áhuga á að fá að vita hvort það eigi ekki sem allra fyrst að setja reglur um gæðakröfur í sjávarútvegi. Við höfum lagt fram þáltill. um það. Og eins hvort það

eigi ekki að setja reglur um fiskmarkaðina.
    Mér finnst það hafa komið mjög vel fram í þessum umræðum að við þurfum á því að halda að þingmenn og landsmenn allir taki þátt í mikilli umræðu um byggðamálin og sú umræða þarf að leiða okkur að þeim niðurstöðum að við getum orðið sammála um það að við séum ein þjóð sem býr í einu landi og að landsbyggðarfólk sé ekki neinir þurfalingar á þeim sem búa á þéttbýlissvæðunum, því þannig er það ekki. Ég get líka viðurkennt að stundum kemur fram óeðlileg afstaða til Reykjavíkursvæðisins utan af landsbyggðinni. Við þurfum líka að vinna gegn svoleiðis hlutum.
    Hæstv. forsrh. var að kvarta undan því að hann hefði orðið fyrir alls kyns árásum. Ég tel nú að hann hafi orðið fyrir hvössustu árásunum frá sínum eigin stuðningsmönnum eða öllu heldur sínum eigin flokksmönnum. Ég hef hér fyrir framan mig síðu úr Morgunblaðinu sem ég vil vitna í, með leyfi hæstv. forseta. Þar er fyrirsögn á viðtali við hv. þm. Egil Jónsson: ,,Ég gef ekki mikið fyrir þessa hvítu bók, segir Egill Jónsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.`` --- Og hann segir að það verði ekki látið líðast ,,að ríkisstjórnin standi að einhverri grisjunarstefnu í landinu``. Hann kallar þetta grisjunarstefnu. Stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum kallar hann grisjunarstefnu. Það þýðir lítið að skamma stjórnarandstöðuna fyrir að taka mikið upp í sig þegar þeir taka mest upp í sig sem ættu að standa næst hæstv. forsrh.
    Nei, ég tel að sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hafi því miður komið á slíku óvissuástandi gagnvart byggðinni í landinu að hún verði að sýna það með því að leggja fram tillögur og hugmyndir sem hægt er að skoða ef hún ætlar sér að breyta andrúmsloftinu í landinu gagnvart ríkisstjórninni og að fólk fari aftur að trúa því að hægt sé að búa úti um landið, þá þarf hún að leggja fram hugmyndir og breyta afstöðu fólks til sín með þeim hætti. En ég á eftir að sjá þær hugmyndir og þá getum við tekið þátt í umræðum um þær á eftir.