Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 17:24:00 (1253)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði þegar hann ræddi um skýrslu Byggðastofnunar að Framsfl. væri að draga athyglina frá stefnu flokksins í byggðamálum. Mátti skilja hann svo að það væri af því að við værum að ræða þessi mál hér og létum þau okkur einhverju skipta. Það er hins vegar mikill misskilningur hjá þingmanninum að Framsfl. hafi verið að því. Framsfl. þarf ekki að biðjast afsökunar. Þarf engan að biðja afsökunar á þætti sínum að byggðamálum hin síðari ár. Ef einhver þarf að biðjast afsökunar eru það þingmenn Sjálfstfl. sem lofuðu kjósendum sínum því fyrir réttum sjö mánuðum að gera sérstakt átak í byggðamálum. Það eru þessir menn sem skulda skýringar. Þeir þurfa nú að fara heim í héruð og segja því fólki sem greiddi þeim atkvæði í þeirri góðu trú að þeir ætluðu að verða hér málsvarar byggðastefnu að því miður hafi þeim snúist hugur. Því ég held að fáir menn hafi gengið jafnvasklega fram á jafnstuttum tíma í að skera niður framkvæmdir og hugmyndir sem uppi hafa verið og menn hafa verið að leggja drög að til að efla byggð í þessu landi heldur en þingmenn og stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar. Því miður, segi ég.
    Þeir byrjuðu á því að skera niður framlagið til Byggðastofnunar um hvorki meira né minna en 20%. Næst gengu þeir að Framleiðnisjóði landbúnaðarins, sem átti að vera sá annar sjóður til að koma til og efla atvinnulíf og byggja upp í hinum dreifðu byggðum vegna samdráttar í hefðbundnum búskap. Framleiðnisjóðurinn er skorinn niður um hvorki meira né minna en 340 millj. kr. Vegagerðin er skorin niður um 20% og það hlýtur óhjákvæmilega að koma m.a. við vegagerð á Vesturlandi og sérstaklega á Snæfellsnesi, og var nú ekki vanþörf á að halda hlutnum þar. Vegaframkvæmdir eru skornar niður um 20%. Heildarframkvæmdafé til hafna á næsta ári eru 220 millj. kr. Nú það er lagður á þungaskattur, sem þýðir hvað? Getur ekki þýtt annað en en hærra vöruverð hjá okkur sem úti á landi búum. Og það nýjasta er að hugmyndir eru komnar upp um að fella niður verðjöfnunargjald á bensíni. Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins á að fénýta og taka hann til þarfa fyrir ríkissjóð sjálfan. Það á að fella niður það meginviðfangsefni Hagræðingarsjóðs, sem menn töldu sem voru hér að tala um byggðamál þegar þessi sjóður var til umræðu, að geta gripið inn í ef hin veikustu byggðarlög lentu í vandræðum vegna þess að þau t.d. misstu skip úr sínu byggðarlagi eða eitthvað álíka. Nú er allur sá möguleiki tekinn burtu einnig. ( Gripið fram í: Byggðastofnun á að sjá um það.) Já, sjálfsagt er ætlast til að Byggðastofnun sjái um það. Þessu til viðbótar er rétt að segja frá því að ríkið sjálft hefur aldrei ætlað sér jafnstóran hlut af þjóðarkökunni og einmitt nú.
    Hv. 1. þm. Vesturl. sagði einnig að hinir frægu sjóðir, eins og hann orðaði það, sem fyrrv. ríkisstjórn hefði sett upp, hefðu skaðað umræðuna. Ef einhver hefur skaðað umræðuna og valdið tjóni, alvarlegu tjóni á mörgum byggðarlögum í dag á landsbyggðinni þá er það sú neikvæða umræða sem nú hefur verið uppi. Því miður er það svo. Ég efast um að þeir menn sem hafa stofnað til þessarar umræðu geri sér grein fyrir því hvaða áhrif slík umræða hefur þó ekki væri nema fasteignaverð á slíkum stöðum. Ég efast um að menn geri sér grein fyrir því.
    Hvaða sjóður er þetta nú sem hv. þm. sagði að hefði skaðað svo umræðuna um byggðamál? Mig minnir að hv. þm. Halldór Blöndal, núv. hæstv. samgrh., hafi fundið upp að kalla þetta aumingjasjóð eða sjóð Stefáns Valgeirssonar, venjulega var hann kallaður það sá sjóður sem hv. 1. þm. Vesturl. er hér að vitna til. Ég er með blað fyrir framan mig sem er gefið út 15. sept. 1988 og ef ég glugga aðeins í það þá stendur þar, með leyfi, virðulegi forseti: Eiginfjárstaða fyrirtækja. Og svo kemur: Stofnaður verður sjóður sem hafi það að markmiði að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Sjóðurinn skal vera sérstök deild við Byggðastofnun sem annast rekstur hans. --- Þetta er frá Þjóðhagsstofnun og hér er nafnið Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra.
    Það er nefnilega það. Þessi sjóður sem sjálfstæðismenn hafa verið að djöflast á undanfarið varð til í þingflokksherbergi Sjálfstfl. Þar varð þessi sjóður til. Þótt ekki hafi allt tekist sem þessi sjóður hefur komið að, því miður, þá megum við ekki vera svo ósanngjarnir að segja að þar hafi allt mistekist. Ég ætla ekki að lesa upp fyrirtæki en ég gæti gert það og sýnt fram á með tölum hvað aðstoð þessa sjóðs hefur þýtt fyrir fjölmörg fyrirtæki og gjörbreytt rekstrarstöðu þeirra svo að mörgum mundi bregða í brún ef þeir sæju hvað tókst raunverulega að gera.
    Hv. 3. þm. Reykv. fór býsna mikinn í þessari umræðu og skrifaði svo í blöðin nokkurn veginn það sama og hann sagði hér. Hann sagði að í 20 ár hefði verið fylgt rangri stefnu í byggðamálum --- það er það 20 ára tímabil sem menn kenna við Framsfl. --- og á þessum árum hafi 12,1 milljarður verið fluttur frá skattborgurum til landsbyggðarinnar. Þetta eru rétt um 600 millj. kr. á hverju ári eða sem svarar til 0,5% af útgjaldalið fjárlaga sem hér er verið að tala um.
    Auðvitað veit þessi hv. þm. sem hér talaði, því miður er hann ekki hér í dag, að langstærsti hluti þessa fjármagns fór til þess að byggja upp togaraflota landsmanna og hraðfrystiiðnaðinn í landinu. Það er kjarni málsins. Fróðlegt væri að taka saman hvað það var raunverulega stór hluti af þessu fjármagni sem fór til þess að endurbyggja togaraflotann frá grunni og hraðfrystiiðnaðinn í landinu. Var nauðsynlegt að byggja upp og fjárfesta í þessum togaraflota og frystiiðnaðinum? Svo sannarlega var það nauðsynlegt. Þegar samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. lét af völdum, ég held það hafi verið 14. júlí 1971, eftir að hafa setið samfleytt í 12 ár, hafði nánast ekkert verið gert til að byggja upp togaraflotann og hraðfrystiiðnaðinn í landinu. Og það sem verra var, þessi ríkisstjórn hafði engin áform uppi um það að færa út fiskveiðilögsögu okkar Íslendinga. Hún var ekki einu sinni með áform um það. Hvernig ætluðu þessir menn, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur hér verið að lofsyngja, að lifa í þessu landi? Fróðlegt hefði verið að eiga orðastað við hv. 3. þm., Björn Bjarnason, um það mál. ( ÓÞÞ: Hefur hann frí í dag?) Hann er sjálfsagt á erlendri grund, a.m.k. sést hann ekki hér í þingsalnum fremur en aðrir þingmenn Sjálfstfl.
     Þegar samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hrökklaðist loksins frá völdum varð nánast fjöldaatvinnuleysi á Íslandi og atvinnuvegir þjóðarinnar höfðu verið látnir drabbast niður. Við þær aðstæður tók Framsfl. við forustu þjóðmála og almennri uppbyggingu í landinu.

    Hæstv. forsrh. talar, þó ekki of langt mál. Það verður nú að segja honum til hróss að hann situr hér í þinginu og gefur sér tíma til þess að vera hér og hlýða á mál manna. Það er meira en hægt er að segja um aðra hæstv. ráðherra. Hæstv. forsrh. hefur kallað þessi ár, þetta 20 ára tímabil, ,,fátæktarstefnu Framsóknarflokksins`` oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það væri ömurlegt ef satt væri. En hvað sagði hæstv. forsrh., þessi sami hæstv. forsrh., þegar hann flutti okkur stefnuræðu sína 10. okt.? Rétt áður hafði hann talað um það og er enn að tala um að áður en hann komst til valda, hafi ríkt fátæktarstefna. Upphafsorð stefnuræðu forsrh. eru þannig, með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Við Íslendingar búum við betri kjör en flestar aðrar þjóðir.`` ( Gripið fram í: Eftir 20 ára valdaferil.) Fátæktarstefnuna. Og hann segir meira: ,,Við höfum brotist frá fátækt til bjargálna og stöndumst nú samanburð við þær þjóðir sem fremstar standa.`` --- Er þetta eftir fátæktarstefnu Framsfl.? Ég held að slegið hafi út í fyrir forsrh.
    Í þingliði Sjálfstfl. finnast hins vegar nokkrir aðilar sem ofbýður þetta tal ákveðinna þingmanna Sjálfstfl. og átta sig á því að þeir vildu gjarnan sjálfir Lilju kveðið hafa. Þeir eru ekki á því að gefa forsrh. það eftir að Framsfl. eigi þetta tímabil allt. Þeir eru aldeilis ekki á því og telja að Sjálfstfl. hafi vissulega komið þar að málum og auðvitað er það rétt. Framsfl. var ekki einn við völd þetta tímabil. Hann starfaði með fleiri en einum og fleiri en tveimur flokkum og margir komu að. Framsfl. var óslitið við völd þetta tímabil, það er rétt. Og Framsfl. þarf ekki að biðjast afsökunar á því.
    Hæstv. forsrh. sagði einnig að hann saknaði þess að hann sæi ekki neinar ritaðar tillögur frá þessum flokkum um byggðamál. Vissulega er það svo með mig líka, ég sakna þess að nokkru leyti, en ég undanskil þó einn flokk, þ.e. Framsfl. Hæstv. forsrh. hlýtur að hafa lesið þær tillögur sem þingflokkur Framsfl. hefur þegar lagt fram, bæði sem frv. og þáltill. um byggðamál. Framsfl. er eini flokkurinn sem hefur lagt fram á þessu þingi skýrar, ákveðnar og fastmótaðar tillögur í byggðamálum. Við höfum fylgt eftir þeim tillögum í byggðamálum sem voru unnar í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og sett þær í búning og komið þeim hér inn í Alþingi. Það er meira en hægt er að segja um ríkisstjórnarflokkana. Við vitum ekki, venjulegir þingmenn, og það sama segja mér menn úr þingliði stjórnarflokkanna, hvert þessi ríkisstjórn stefnir í byggðamálum. Ég er alveg viss um að það er rétt. Það stendur á hæstv. forsrh. og núv. ríkisstjórn að koma með tillögur í byggðamálum. Framfl. hefur lagt fram sínar tillögur í byggðamálum og mun gera það áfram, fylgja eftir þeim tillögum sem fyrrv. ríkisstjórn lét vinna.
    Menn hafa talað um að byggðastefnan hafi brugðist. Vissulega er rétt að það hefur ekki allt tekist sem menn vildu. En margt hefur líka tekist. Sá sem talaði á undan mér, hv. þm. Jóhannes Geir, minntist á eitt byggðarlag. Ég gæti nefnt fleiri byggðarlög sem vegna aðgerða Byggðastofnunar hafa gjörbreytt um svip. Þar var atvinnuleysi og eymd. Núna er þar blómlegt atvinnulíf sem betur fer. Okkur hefur vissulega ekki tekist að gera þetta alls staðar en það hefur tekist á nokkrum stöðum.
    Vafalaust verður breyting á byggð á Íslandi, ég get tekið undir það með hæstv. forsrh., ég er ekki sleginn þeirri blindu að ég sjái það ekki. Aldrei hefur annað hvarflað að mér og ég hef margsinnis tekið það fram. Það er óhjákvæmilegt að mikil breyting mun verða á byggð á Íslandi. Við eigum auðvitað að viðurkenna það og við eigum að vinna eftir því og þá mun okkur best takast. Þá munum við geta beitt réttum mótefnum.
Oft vilja menn vera vitrir eftir á, það er óskaplega einfalt. Ef ég má fara aftur í tímann og vitna í Dagblaðið, gott ef það á ekki afmæli í dag. Oft hefur Byggðastofnun fengið kveðjur frá því blaði, en í leiðara árið 1983 var yfirskriftin eitt sinn: ,,Vormenn að verki.`` ,,Ein efnilegasta atvinnugrein á Íslandi er fiskeldi,`` --- voru upphafsorð leiðarans. Og lokaorð þessarar forustugreinar, virðulegi forseti, voru þannig:

    Fjöldi Íslendinga sem hefur dugnað, hugvit og þekkingu, hefur gengið fram fyrir skjöldu í fiskeldi. Það starf er nú smám saman að bera árangur í vel þegnum gjaldeyristekjum á erfiðum tíma. Þar eru vormenn okkar að verki. --- Þetta var 1983. ( Gripið fram í: Í hvaða blaði var þetta?) Þetta var í Dagblaðinu.
    Í júnímánuði 1991 er enn skrifuð forustugrein í þetta blað og er fyrirsögn hennar: ,,Rústir fiskeldis.`` Fyrsta línan er svona: ,,Gjaldþrot fiskeldisstöðvanna kemur ekki á óvart.`` --- Lokasetningin í forustugreininni er þannig: ,,En það er kominn tími til að horfið sé frá þeirri stefnu að skattfé almennings sé notað í ábyrgðarlaus spilavíti.``
    Það eru margir, því miður, margir fleiri en ritstjórar Dagblaðsins sem hafa fallið í þessa gryfju. Við gætum skoðað fleiri tilvitnanir úr þessu sama blaði, Dagblaðinu, af því að menn eru að tala um hvernig allt hafi farið úrskeiðis. Hér er forustugrein sem ber yfirskriftina ,,Stöðvum steinullina``. Þar segir m.a., virðulegi forseti: ,,Hin makalausa verksmiðja núverandi ríkisstjórnar á að framleiða úrelta vöru sem hvarvetna er á hröðu undanhaldi í byggingariðnaði.`` --- Og lokaorðin í þessum leiðara eru þannig: ,,6.000 tonna verksmiðja fyrir 610 tonna markað er vitlausasta iðnaðarævintýri Íslandssögunnar, vonlausari en Kröfluvirkjun. Þetta gæludýr verður að stöðva.`` En hvernig var svo skrifað á síðasta ári? 48 millj. kr. hagnaður var á þessu fyrirtæki á fimmta fyrsta heila starfsári fyrirtækisins. Framleiðslan á árinu var 6.163 tonn. Það þyrfti að tala betur við þessa falsspámenn og því miður hafa þeir villt mörgum sýn.
    Við gætum rætt ítarlegar um þessi fyrirtæki og miklu fleiri þó ég nefni bara þessi því að ég hef haldið þessum greinum til haga. Við gætum skoðað fiskeldið betur. Við gætum líka skoðað loðdýraræktina þar sem þeir sem hafa farið út í þá atvinnugrein hafa nánast verið gerðir ærulausir. Hvaða fréttir berast okkur í dag af þeirri atvinnugrein? Verð skinnanna var komið niður í 1.100 kr., en í dag er það komið upp í 3.000 kr. og stefnir upp í 5.000 kr. Íslenskir bændur eiga heiður skilið hvernig þeir brugðust við þessari grein. Þeir voru undurfljótir að ná tækni í nýju greininni. Þeir fengu litla tilsögn, eignuðust góðan stofn, ósýktan og frjósaman stofn. Þeir framleiddu góð skinn. En því miður hallaði undan þegar verðið féll og margt annað fór úrskeiðis í greininni. Ógæfa þeirra sem fóru í þesssa atvinnugrein var auðvitað sú að menn lentu í að byggja upp þegar verðið var hátt, þeir lentu í djúpri niðursveiflu og hægri uppsveiflu. Það var aðalvandamálið. En ég held að allir sem skoða þetta af einhverri sanngirni viðurkenni að loðdýrarækt á Íslandi á framtíð fyrir sér. En menn hafa velt sér upp úr því að þetta hafi verið hin vitlausustu ævintýr.
    Ég gæti nefnt fleiri greinar. Ég held nefnilega að menn þurfi að átta sig á því að það er mjög ósanngjarnt ef menn halda að einhver nýr atvinnurekstur fari að skila hagnaði á fyrstu starfsárum sínum. Það er alveg fáránlegt að nokkur maður skuli láta sér detta það í hug. Ég gæti ímyndað mér að eðlilegt væri að nefna svona fjögur til fimm ár þar til nýr atvinnurekstur skili hagnaði.
    Hæstv. forsrh. vék einnig í máli sínu að byggðaáætlun og þeim reglugerðardrögum sem eru til meðferðar inni í Byggðastofnun og ég ætla ekki að ræða. Ég ætla ekki að ræða um þá reglugerð. Hún er í skoðun og ég sagði þegar ég talaði hér um daginn að ég vonast til þess að menn nái að semja góða reglugerð því að svo sannarlega þarf stofnunin á því að halda. En það er nokkur munur á því að hæstv. forsrh. vék að því að hér á síðasta þingi hefðu verið samþykkt lög um byggðaáætlanir. Það er hárrétt. Það voru samþykkt lög um byggðaáætlanir, mjög merkileg lög að mínu mati og ég fagna því sérstaklega að nú skuli eiga að fara að vinna að byggðaáætlunum. Og ég legg ríka áherslu á það hversu nauðsynlegt það er að við getum virkjað heimamenn einnig í því starfi. Mér fannst forsrh. vilja gera lítið úr því að í þeim reglugerðardrögum, sem nú liggja fyrir, átti að vera

óheimilt að lána út fé fyrr en byggðaáætlanirnar lægju fyrir. Það er munurinn. Það finnst mér tæknilega nánast ómögulegt vegna þess að það tekur mjög langan tíma að vinna upp og gera byggðaáætlanir. Þær verða sem sagt að vera mjög vel unnar og það tekur óhjákvæmilega mikinn tíma.
    En eins og ég segi ætla ég ekki að fara í eitthvert orðaskak um þessi drög að reglugerð. Ég vona að mönnum takist þar að koma með heillega smíð út úr því máli.
    Ég vil einnig víkja að því sem hæstv. forsrh. sagði að menn hefðu verið að hnjóða í höfuðborgina og menn hefðu talað illa og af fjandskap til höfuðborgarinnar. Ég vil segja það að hann getur ekki verið að tala þar til mín. Ég tala ekki illa til höfuðborgarinnar og hef ekki ástæðu til þess. Og svona eiga menn ekki að tala og allra síst má forsrh. tala í þessum dúr. Auðvitað getur okkur eitthvað greint á. Það er mannlegt og eðlilegt. En mér finnst ég vera búinn að sitja nokkuð stíft yfir umræðunum um byggðamál og ég kannast ekki við það að menn hafi verið með einhvern fjandskap út í höfuðborg okkar. Hún er ekki bara höfuðborg forsrh. Hún er höfuðborg okkar. Okkur er heldur ekkert sama um Reykjavík þannig að það er engum greiði gerður með því að vera alltaf að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu. Það er engum greiði gerður með slíkum málflutningi.
    Úr því að ég er farinn að snúa mér að ræðu hæstv. forsrh. þá saknaði ég þess að hann svaraði ekki þeim spurningum sem ég beindi til hans þegar ég ræddi um þessi mál síðast. Og það er alvarlegt og ég segi það og ég meina það, hæstv. forsrh., að ég uni því ekki að liggja undir slíkum áburði eins og þú viðhafðir á flokksráðsfundi Sjálfstfl. Þess vegna bað ég þig um að skýra orð þín hér úr þessum stól þar sem þú segir ( Forseti: Ávarpa forsrh. með réttum hætti.) Hæstv. forsrh., það er best að ég lesi þessi orð:
    ,,Margir stjórnmálamenn hafa haft tilhneigingu til þess þegar þeir hafa kosið að úthluta fé, jafnvel með ólögmætum hætti`` og ég endurtek, ,,jafnvel með ólögmætum hætti að vitna til byggðastefnu í því sambandi. Ekki síst er þetta árátta framsóknarmanna.``
    Hvað er forsrh. hér að segja? Er hann með aðdróttanir í garð þeirra sem sitja í Byggðastofnun? Er hann eingöngu að tala um framsóknarmenn sem sitja í Byggðastofnun? Er hann að tala til fyrrv. stjórnarmanna í Byggðastofnun sem núna sitja við hlið hans sem ráðherrar? Hverjir eru það sem hafa verið að lána fé eða úthluta fé með ólögmætum hætti?
    Ég spurði einnig hæstv. forsrh. hvort hann gæti ekki verið mér sammála um það að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. skulduðu Alþingi skýrslu um afskipti sín af Hraðfrystihúsi Stokkseyrar. Hæstv. forsrh. svaraði því ekki heldur. Ég bíð eftir þessum svörum. Hér er vegið að mönnum og við eigum rétt á því og kröfu að forsrh. skýri mál sitt.
    Þessi umræða hefur nokkuð dregist á langinn og það er ekki að furða. Ég hef trú á því að hún eigi eftir að dragast verulega lengi ef svo heldur fram sem horfir, ef ríkisstjórnin tekur sig ekki á. Ég hefði gjarnan viljað segja nokkur orð við hv. 5. þm. Norðurl. v. en hann er því miður ekki í salnum fremur en aðrir sjálfstæðismenn. Ég ætlaði meira að segja að sleppa að ræða þann þátt úr ræðu hans sem var gjaldþrotakafli vegna þess að mér er vel við hv. þm. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað spjalla við hann um fiskvinnsluna, sem hann vék að, og hvaða aðgerðir menn væru með til þess að bjarga henni frá 9--10% tapi. Og ég ætlaði einnig að spyrja hv. 5. þm. Norðurl. v. og framkvæmdastjóra Verslunarráðs hvaða áhrif hann teldi það hugsanlega hafa á þann straum fólks sem nú leitar á erlenda grund til þess að eiga viðskipti meðan verslunin þarf að búa við 30--35% vexti á vöruvíxlum. Það væri fróðlegt að fá hv. þm. til að leiða okkur í sannleikann um það og hvert mat hans er á þeim þætti.
    Egill Jónsson vék að því að nýir þingmenn Sjálfstfl. hefðu sannað það í umræðunni að þeir væru góðir fulltrúar byggðastefnu Sjálfstfl. Það er rétt að sumir þeirra, ekki

voru þeir nú of margir, töluðu þokkalega í málinu. Einn bar þó af. En ég þarf ekki frekari rökstuðning við í því máli hver hugurinn er. Það skiptir nefnilega ekki svo miklu máli hvernig þeir tala í þessum ræðustól. Verk þessara manna skipta miklu meira máli og það lýsir sér best í frv. til fjárlaga sem liggur fyrir framan okkur.
    Ég vil segja það í sambandi við byggðamálin að það hefur alla tíð verið vilji landsbyggðarinnar að byggja upp myndarlega og fallega höfuðborg. Og ég mótmæli því að það sé einhver öfund eða tortryggni þar úti í. Ég held að allir Íslendingar hafi viljað standa að því að byggja upp myndarlega höfuðborg. En nú er höfuðborgin komin vel á legg og þess vegna er ekki óeðlilegt að við leitum eftir skilningi höfuðborgarinnar og höfuðborgarbúa á að nú sé nauðsyn á því að efla aðra staði utan höfuðborgarsvæðisins. Á því þurfa íbúar höfuðborgarsvæðisins að hafa skilning.
    Það er engin spurning, virðulegi forseti, að það hafa orðið vatnaskil í íslenskri pólitík og það hafa orðið vatnaskil á sama tíma í byggðamálum. Og sönnunargagnið er hér, virðulegi forseti, skýrsla Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu Byggðastofnunar og Framkvæmdasjóðs Íslands, en svo segir í smágrein sem ég er með úr Morgunblaðinu sjálfu og er þá verið að vitna í Halldór V. Sigurðsson. Hann leggur áherslu á að á þessum tíma hafi orðið stjórnarskipti. Það er kjarni málsins. Það urðu stjórnarskipti í landinu og mikil breyting og því urðu svo snögg vatnaskil.