Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 18:35:00 (1260)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram umræða um byggðamál af og til um nokkurt skeið eftir að hæstv. forsrh. lagði fram skýrslu um Byggðastofnun.
    Samkvæmt lögum um Byggðastofnun er henni ætlað að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri þróun í byggðamálum almennt. Þannig á hún að gegna lykilhlutverki og hefur gert það. Byggðamál eru ekkert einkamál landsbyggðarinnar heldur mál þjóðarinnar allrar því að meginhluti gjaldeyristekna verður til úti á landi. Því er mikilvægt að menn líti á málin í heild sinni en tali ekki um Stór-Reykjavíkursvæðið og landsbyggðina sem óskyld mál.
    Það hefur aldrei verið erfiðara að átta sig á stöðunni en einmitt nú. Hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ekki enn þá markað stefnu í grundvallarmálum um það hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Þar vantar mikið á. Hver er stefnan almennt í skattamálum? Verður aðstöðugjaldið fellt niður og annar tekjustofn tekinn í staðinn? Hæstv. félmrh. segir já. Hæstv. fjmrh. segir nei. Aðstöðugjöld eru yfirleitt mun lægri úti á landsbyggðinni en hér á Reykjavíkursvæðinu, eins og sést í nýútkominni árbók sveitarfélaganna. Það er gamall og nýr sannleikur. Þar sést að aðstöðugjöld eru hér 23.110 kr. á íbúa á sama tíma og þau eru 7.000 kr. á íbúa á Akranesi svo dæmi sé tekið. Þetta er ekki beinlínis jafnvægi í byggð landsins.
    Ég ætla ekki að fara nánar út í hið raunverulega óréttlæti sem fylgir aðstöðugjöldum almennt. Það skiptir miklu máli hver verður framtíð þessa skatts þegar talað er um byggðamál. Þessi mál eru alls ekki á hreinu. Það er ekki síður mikilvægt að hafa á hreinu hver stefnan er í landbúnaðarmálum. Það er erfitt að átta sig á því þó maður lesi fram og til baka hina hvítu bók enda tala fulltrúar ríkisstjórnarinnar út og suður almennt um landbúnaðarmál.
    Hver er stefnan í sjávarútvegsmálum? Fær Alþfl. og hluti sjálfstæðismanna að ráða ferðinni þar? Verða tekin upp veiðileyfagjöld? Verður gamla skrapdagakerfið tekið upp aftur, eða sóknarstýring eins og það heitir núna á betra máli, eins og hluti sjálfstæðismanna hefur talað um? Eða fær stefna hæstv. sjútvrh. að ráða ferðinni? Þetta er alls ekki ljóst. En þetta er eitt af þeim mörgu atriðum sem skiptir höfuðmáli að hafa á hreinu þegar byggðamál eru rædd almennt. Þetta stefnuleysi hefur valdið slíkum ugg og óróa hjá landsbyggðarmönnum að fólk hrópar á festu og skýr og afdráttarlaus svör. Við þurfum að skipuleggja framtíðina. Ég sagði framtíðina. Þjóðin hefur fyrir löngu fengið nægju sína af fortíðarvandaröfli hæstv. ríkisstjórnar og einhverju rausi um rusl undir teppi. Við krefjumst framtíðar fyrir blómlegar byggðir landsins.
    Það var afar athyglisvert að hlusta á hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. tala til sveitarstjórnarmanna á nýliðnu þingi um fjármál sveitarfélaga. Þar voru menn að krefja um skýr svör í atvinnumálum almennt og það kom fram enn einu sinni að ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera. Þeir segja svona og svona út og suður að guð hjálpi þeim sem hjálpa sér sjálfir og það er ágætt svo langt sem það nær, en þegar búið er að kippa grundvellinum undan atvinnuvegunum verður eitthvað að koma til. Grundvöllurinn er ekki til staðar. Háir vextir annars vegar og aðgerðarleysi hins vegar lama undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og það þýðir ekki að stimpla atvinnurekendur almennt sem einhverja aula sem bíða aðeins eftir opinberri náðargjöf eins og skilja mátti auðveldlega af ræðu hæstv. fjmrh. á annars ágætri ráðstefnu sem ég vitnaði til í upphafi. Hér hefur aldeilis verið duglega talað um sjóðasukkið svokallaða og ekkert vantað á þá umræðu og er þá verið að tala um Atvinnutryggingarsjóð. Skyldu vera meiri vanskil í þeim sjóði en hjá öðrum lánastofnunum sem lána almennt til undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar? Hefur það verið skoðað? Ef það hefur ekki verið skoðað þá held ég að það sé verðugt verkefni að skoða það. Ég held að það sé nauðsynlegt að gerð verði úttekt á því. Menn tala um það út og suður að einmitt Atvinnutryggingarsjóður hafi m.a. komið óorði á Byggðastofnun. Ég hef ekki heyrt að aðrir lánasjóðir hafi komið óorði á landsbyggðina þótt þeir hafi lánað til undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar. Við vitum það öll að Atvinnutryggingarsjóður bjargaði því sem bjargað varð á erfiðleikaárunum eftir 1988 og gjörbreytti stöðu margra fyrirtækja. Hann leysti ekki vandann alfarið og menn geta ekki ætlast til þess. En menn geta reiknað út hvað það hefði kostað þjóðfélagið ef ekkert hefði komið til. Halda svo menn í þessu vaxtaokri sem við búum við í dag að það sé ekkert mál fyrir atvinnureksturinn að standa í skilum? Halda menn að loðnubrestur og erfið sala á síld hafi ekkert þar að segja? Hæstv. sjútvrh. hefur bent réttilega á að það þurfi að framlengja lán í Atvinnutryggingarsjóði og varla er það heimsendir þó það sé gert. Ég býst við að flestar aðrar lánastofnanir geri slíkt á erfiðleikatímum og það sé daglegur viðburður hjá lánastofnunum almennt að gera það.
    En fyrst og síðast skortir stefnu. Það skortir rétta stefnu í vaxtamálum og það verður að lækka verðbólgu. Það erum við þó sammála um. Hún verður að fara niður á við. Ef það verður rekstrargrundvöllur fyrir undirstöðuatvinnuvegina þarf forsrh. ekkert að hafa áhyggjur af því að stofna þennan hreppaflutningasjóð sem hann ræddi um um daginn og taldi vera nýjung og væri allt í lagi að ræða það. Ég hélt satt að segja að hann hefði kannski haft ljóð eftir Einar Benediktsson í huga þegar honum datt það í hug, sem er eitthvað á þá leið: ,,Að fortíð skal hyggja þá frumlegt skal byggja.`` En það var ekki það sem hann hafði í huga. Hann hélt hann væri að byggja eitthvað nýtt. Ég endurtek það að ef sá margumtalaði rekstrargrundvöllur er til staðar er hvergi betra að búa en úti á landsbyggðinni. Og hvergi er auðveldara að búa en þar. En okkur vantar þennan rekstrargrundvöll fyrir fyrirtækin til að það sé rekstrargrundvöllur fyrir heimilin á þessum stöðum. Það er svo gott að búa einmitt úti á landsbyggðinni því að þar þurfum við ekki að vera í bílaröðum og eyða dýrmætum tíma í að leita að bílastæðum heldur getum við verið frjáls með börnin okkar og þau eru í beinum tengslum við atvinnulífið. Þegar ég tala um börnin þá eru þau sá merkilegasti hagvöxtur sem við búum við, það er vöxtur og framtíð unga fólksins í landinu. Þar er hinn raunverulegi fjársjóður falinn og mest um vert að ekki fari ögn til spillis af þeim sjóði. Það er sá hagvöxtur sem erfitt er að ná upp ef eitthvað fer úrskeiðis.
    Skólamál almennt eru mikið landsbyggðarmál. Það er því mikið áhyggjuefni að margar merkar skólastofnanir vítt og breitt um landið eiga að lognast út af. Reykholt í

Borgarfirði er ein þeirra stofnana sem ekki er ætluð króna í fjárlögum 1992. Stofnunin virðist gleymd og grafin. Reykholt er meira en venjulegur skóli og á sér merka sögu eins og menn þekkja og hefur alla burði til að hýsa hvers konar skólahald. Veitt hefur verið á undanförnum árum milljónatugum til að byggja upp staðinn. Nú vantar þennan stað verkefni, eins og svo marga aðra skóla úti á landi þar sem húsnæði er ónýtt. Margir skólanna eru byggðir á jarðvarmasvæði sem gefur ýmsa möguleika. Frumkvæðið verður auðvitað að koma frá heimamönnum sjálfum. En þá verða að koma til jákvæð viðhorf ráðamanna.
    Flutningur stofnana hins opinbera er ofarlega í hugum margra og fýsilegur valkostur. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. forsrh. hverju við eigum von á í þeim efnum. Eru einhverjir flutningar á opinberum nýjum störfum í deiglunni og þá hvaða störf og hvert? Í því tilefni langar mig að segja frá því að ekki er langt síðan Byggðastofnun auglýsti eftir aðilum sem hefðu áhuga á því að nýta sér fjarvinnslu. Í bréfi Byggðastofnunar, sem var auglýst, kom fram skýr vilji stjórnvalda og að þeir litu jákvætt á tilfærslu verkefna út á land til fjarvinnslu. Það er skemmst frá því að segja að þessum auglýsingum var afar vel tekið og hér er heil bók sem ég er með með nöfnum yfir þá aðila sem hafa áhuga á að nýta sér fjarvinnslu sem atvinnutækifæri og eru með tæki til þess og menntun.
    Í því bæjarfélagi sem ég þekki best til ætluðum við að nýta okkur þessa möguleika og sendum bréf til nokkurra aðila sem ég mun telja upp. Þeir sem fengu bréf eða boð um það að fara þess á leit við stofnanir að nýta sér fjarvinnsluna voru eftirtaldir: Það var fjmrn., félmrn., dóms- og kirkjumrn., forsrn., Hagstofa Íslands, iðnrn., heilbr.- og trmrn., menntmrn., landbrn., samgrn., sjútvrn., umhvrn., viðskrn., utanrrn., skrifstofa Alþingis, ríkisskattstjóri, skattstjórinn í Reykjavík, Fasteignamat ríkisins, borgarfógetinn í Reykjavík. Þessir aðilar voru beðnir að gefa svör fyrir 20. nóv. Nú hafa þegar borist átta svör og þau eru öll neikvæð. Engin þessara stofnana hefur áhuga á að nýta sér fjarvinnslu.
    Þetta segir kannski sína sögu um að það er hægara um að tala en í að komast og það er greinilega ekki hlaupið að því að færa verkefni. Auðvitað eru mörg störf sem hægt er að flytja yfir á landsbyggðina ef vilji er fyrir hendi. En það þarf viljann og það þarf jákvætt hugarfar. Ef ég nefni bara eitt dæmi, af hverju er Rannsóknastofnun landbúnaðarins ekki á Hvanneyri? Það er stofnun sem manni sýnist vera borðliggjandi að gæti verið þar. Og það er margt fleira sem virðist eiga svo miklu betur heima úti á landsbyggðinni en þar sem það er staðsett. En það vantar sem sé þennan jákvæða tón, bæði frá landsbyggðamönnum og landsfeðrunum. Og það hefur komið mikill órói í byggðamálaumræðuna með óábyrgu tali og oft þekkingarleysi í umræðu.
    Menn hafa horft mjög björtum augum til Evrópska efnahagssvæðisins, sérstaklega hvað sjávarútveginn varðar og telja að það muni bjarga mjög miklu á landsbyggðinni. Ég held að það séu nú ýmsir hortittir sem eftir er að ganga yfir og yfirstíga áður en við getum sagt að það muni bjarga miklu á landbyggðinni. Auðvitað viðurkennum við það og virðum að þarna eru viss tollfríðindi sem við munum fá og ég hugsa að síldin vigti þar kannski þyngst. En það kemur líka annað í staðinn og málefni sem eftir eiga að ganga í gegn. Menn verða að viðurkenna það og muna að í sjávarútvegi eiga olíufélög og tryggingafélög stóran hluta og það eru þeir aðilar sem hafa verið að kaupa hlutafé á hinum opinbera markaði og hafa hlutabréfakaup þeirra einmitt bjargað mörgum fyrirtækjum. Ef við göngum í Evrópska efnahagssvæðið mega þessir aðilar ekki eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi og mega ekki kaupa hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi. Og hvað gerist þá? Það er spurning sem er algerlega ósvarað. Ég er hrædd um að það væri stór biti að kyngja ef hlutabréfamarkaðurinn lokaðist algerlega fyrir landsbyggðinni en með þessu sýnist mér að hann geri það. Lögfræðingar hafa skoðað þetta fyrir olíufélög almennt og auðvitað geta þau áfram keypt í fyrirtækjunum en ef þau gera það missir fyrirtækið

heimild til fiskveiðiréttinda þannig að þar með er það búið. Þetta er auðvitað stórmál fyrir landsbyggðina og nauðsynlegt að verði brotið til mergjar eins fljótt og auðið er.
    Ég hef ekki hugsað mér að lengja þetta meira. Klukkan er orðin sjö en ég vona að umræðunni verði haldið áfram og knúið verði á um það að skýr stefna í atvinnumálum verði birt innan tíðar. Það þolir enga bið.