Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 20:59:00 (1263)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Hér er þá aftur kominn til umræðu hinn gamli kunningi, frv. til laga um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Um þetta hefur spunnist nokkur umræða sem vonlegt er og var tilefnið m.a. að nefndarálit, ekki ýkja mikið að vöxtum en þeim mun athyglisverðara, neðri hlutinn á því, þ.e. undirskriftirnar, birtist hér í þinginu fyrir nokkrum dögum síðan á þskj. 132. Þar skrifa nefndarmenn í efh.- og viðskn. undir og allir með tölu með fyrirvara utan einn, varaþingmaður Alþfl., en þennan ágæta varaþingmann Alþfl. sáum við í sjónvarpsfréttunum í kvöld þar sem hann lýsti veðri og vindum fyrir landsmönnum, en hann er sá eini sem ekki hefur fyrirvara á afstöðu sinni til frv. Af eðlilegum ástæðum fýsti okkur stjórnarandstæðinga að fá upplýsingar um það hvað fyrirvarar hv. stjórnarliða merktu. Ekki verður sagt að það hafi skýrst að neinu ráði. Þó höfum við fengið þær skýringar að sökum hetjuskapar treysti þeir sér til þess allmargir að breyta frá fyrri afstöðu sem hefur yfirleitt lýst sér í hatrammri andstöðu við þetta mál hér á þingi undanfarna vetur --- en sem sagt, sökum hetjuskapar, þar sem hæstv. fjmrh. sýni fegurst fordæmi allra, ætli þeir sumir hverjir að skipta um skoðun og styðja málið.
    Andstaða eins hv. þm. stjórnarliðsins liggur fyrir, Inga Björns Albertssonar, í nál.

minni hluta á þskj. 139. Sá hv. þm., 5. þm. Reykv., heiðrar okkur ekki með nærveru sinni hér í kvöld, a.m.k. ekki enn sem komið er. ( Forseti: Jú, jú, hann er hér.) (Gripið fram í.) Það er upplýst að hann sé hér á vakki einhvers staðar og það gleður okkur stórlega. Hann flytur m.a. brtt. við skattinn á þskj. 140 og það er að sjálfsögðu enn eitt óvissuatriðið í þessu máli hver verða örlög þeirrar brtt. sem þar er flutt af einum stjórnarliða og hvort megi ætla að málið breyti um eðli við 2. umr. sökum þess samstöðuleysis eða sundrungar öllu heldur sem einkennir afstöðu stjórnarliða í málinu.
    Af öllum þessum ástæðum og fleirum sem óþarft er að endurtaka höfum við stjórnarandstæðingar óskað eftir því að staða málsins skýrist við þessa umræðu. Í raun og veru er ekki við það unandi að þetta fyrsta skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar gangi til atkvæða og nái fram að ganga í einhverri fullkominni óvissu um það hvernig það tengist tekjuöflunarstefnu ríkisstjórnarinnar, hver meiri hluti liggur að baki því meðal stjórnarliða. Þarf auðvitað ekki að útlista fyrir þingvönu fólki að tæplega er við því að búast að stjórnarandstaðan hefji atkvæðagreiðslur um tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar eigandi það jafnvel á hættu að þurfa að bera á ábyrgð þeirri stefnu vegna þess að ekki sé fyrir hendi þingmeirihluti meðal stjórnarliða. Við slíkar aðstæður mundu menn að sjálfsögðu krefjast þess að málin skýrist því væntanlega er það svo að stjórnarandstaðan ætlar ekki, og allra síst við þessar aðstæður, að fara að taka ábyrgð á stjórnarathöfnunum hverri á fætur annarri án þess að hafa þá möguleika á að semja um framgang mála og hafa áhrif á þá stefnu sem þar er verið að keyra fram. Slíkt getur auðvita ekki gerst að stjórnarandstaðan fari að hjálpa ríkisstjórninni í gegnum þingið með einstök mál sem hana kann að bresta meiri hluta fyrir án þess að þá komi til samræðna með ríkisstjórn og stjórnarandstöðu og málið fari í raun og veru í allt annan farveg.
    Þetta var það sem ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni og spurði hæstv. forsrh. nokkurs af þessu tilefni. Svörin voru eins og við var að búast og maður er farinn að venjast hjá hæstv. forsrh., satt best að segja engin, meira og minna út og suður, og því miður hafa málin þar af leiðandi ekkert skýrst í raun fyrir utan einhverjar almennar kokhraustar yfirlýsingar um það að þetta mál muni vera í öruggum farvegi o.s.frv.
    Enn síður kom náttúrlega nokkuð bitastætt fram um áform hæstv. ríkisstjórnar að öðru leyti í tekjuöflunarmálum ríkisins, og hefði þó verið tilefni til, m.a. vegna skrautlegs framlags einstakra hv. stjórnarliða í umræðurnar, að fá frekari upplýsingar um það, t.d. þegar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson upplýsir okkur um það að hann ætli í raun og veru að selja stuðning sinn við frv. með því að fá annað í staðinn til handa versluninni í landinu. Það er ekki að sjá annað en að einstakir þingmenn stjórnarliðsins séu fyrir opnum tjöldum komnir í hrossakaup um stuðning sinn við frumvörp ríkisstjórnarinnar. Það sé í lagi að leggja skatt á verslunina sem menn hafi að vísu alltaf verið á móti, ef menn fái þá eitthvað annað í staðinn henni til hagsbóta, þá væri atkvæði hv. þm. hugsanlega falt. Þetta var sem sagt það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. hafði til málanna að leggja svo að hann sé endursagður, með frjálslegum hætti.
    Þá er líka ástæða til að spyrja: Hvað er það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. á að fá í staðinn? Hvaða ráðstafanir eru það til handa versluninni? Ég hef t.d. áhuga á að vita hvort hagsmunir strjálbýlisverslunarinnar séu þar innan borðs. Ég barðist við það í síðustu ríkisstjórn, þeirri sem ég sat í, að kveikja skilning hæstv. þáv. viðskrh. á því að það væri orðið brýnt byggðamál að taka á málefnum strjálbýlisverslunarinnar og það mál komst svo langt hjá þeim vaska manni að hann setti það í nefnd. Síðan hef ég ekki af því heyrt. Er eitthvað á ferðinni þar? Er framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, sem heiðrar okkur með nærveru sinni af og til í líki hv. 5. þm. Norðurl. v., með eitthvað í pokahorninu þegar hann talar um málefni verslunarinnar eins og hann hefur gert í þessu sambandi? Það held ég að

væri ástæða til að fá skýrt hér. Auk þess er það, hæstv. forseti, galli að hafa ekki hæstv. viðskrh. með okkur úr því að málefni verslunarinnar hafa dregist inn í þetta með þessum faglega hætti sem málflutningur hv. 5. þm. Norðurl. v. gefur tilefni til. Hér er að sjálfsögðu um að ræða sérstaka skattlagningu á verslunar- og skrifstofuhúsnæði þannig að hæstv. viðskrh. ætti auðvitað að sjá sóma sinn í því að sitja undir umræðunni með hæstv. fjmrh. Og enn frekar ætti hann að gera það nú eftir að mál verslunarinnar hafa borist inn í þetta með nefndum hætti.
    Sömuleiðis er af þessum sökum ástæða til að ræða aftur og rifja upp þá brtt. sem er að finna á þskj. 156 frá hv. 5. þm. Vestf. og ég lýsti reyndar nokkuð afstöðu minni til í fyrri ræðu, en þar er í raun og veru á ferðinni sú hugsun sem er vel þekkt t.d. í nágrannalöndunum, að það sé óhjákvæmilegt að taka að einhverju leyti tillit til starfsskilyrða verslunarinnar og þjónustunnar þegar á hana eru lagðir skattar og með öðrum hætti tekið á starfsskilyrðum hennar. Það liggur í hlutarins eðli og er reyndar alþekkt gegnum ársreikninga fyrirtækja og afkomutölur að afkoma í verslun og ýmissi þjónustu í strjálbýlinu er mjög slök og hlýtur svo að vera í raun og veru þegar horft er til þess hvernig aðstæður allar eru þar. Á sama tíma eru í hópi þeirra sem greiða þennan skatt í stærstu þéttbýliskjörnum landsins mörg af mestu gróðafyrirtækjum landsins. Það er því auðvitað harla sérkennilegt þegar menn koma svo hér og væla og gráta undan því að þetta sé alveg einstaklega ósmekklegur og ógeðfelldur skattur, sömu snillingar og eru að leggja hér sérstaka skatta á námsmenn og sjúklinga og barnafjölskyldur. Þeir harma það að Eimskip skuli þurfa að borga skatta af skrifstofuhúsnæðinu sínu eða Hagkaup af Kringlunni sinni, telja þetta alveg einstaklega óréttlátt og mikið svínarí, að þessi gróðafyrirtæki, sem upp til hópa eru á þeim svæðum landsins þar sem hagur verslunar og þjónustu er hvað bestur, skuli vera skattlögð.
    Ég er hins vegar alveg tilbúinn til að skoða það að breyta formi þessa skatts og þá jafnvel í meira mæli en er að finna í brtt. hv. 5. þm. Vestf. Auðvitað eru ýmsar fleiri aðferðir hugsanlegar til þess að ná svipuðum tekjum af þessari starfsemi. Ég bendi á að þetta yrði í raun og veru í formi einhvers konar veltuskatts eða jafnvel tekjutengt með einhverjum hætti gagnvart versluninni þannig að reynt yrði með þeim hætti að ná til þeirra verslunar- og þjónustufyrirtækja sem betur mega sín og þannig hlífa strjálbýlisversluninni.
    Hæstv. fjmrh. hafði uppi efasemdir um það, enda lögfræðingur að mennt, að brtt. hv. þm. Kristins Gunnarssonar stæðist ákvæði stjórnarskrár um jafnræðisreglu gagnvart sköttum. Ég held að það sé ástæðulaus ótti hjá hæstv. fjmrh. En ef svo er að hún í þessu formi valdi þeim vandkvæðum eða áhyggjum í því sambandi er hægur leikur að breyta tillögunni þannig að um endurgreiðslu á skattinum að hluta til yrði að ræða til valinna aðila. Slíkar reglur eru vel þekktar í skattakerfinu og valda engum manni áhyggjum gagnvart ákvæðum stjórnarskrár þannig að þá væri það fyrst og fremst tæknileg vinna sem að þyrfti að framkvæma til að tryggja það með öllu að ákvæðin brytu ekki í bága við stjórnarskrá á nokkurn hátt. Ég saknaði þess í að hæstv. fjmrh. gæfi upp einhverja efnislega afstöðu til tillögunnar burt séð frá þessum lagatæknilegum eða stjórnarskrárbundnu atriðum sem hann lýsti áhyggjum af. ( Fjmrh.: Ég er á móti tillögunni.) Ertu ekki á móti skattinum líka, hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Ég er á móti tillögunni.) Nú, tillögunni já, mig minnti nefnilega að fjmrh. hefði líka verið á móti skattinum, en er það sennilega ekki núna.
    Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. og helst hv. 5. þm. Norðurl. v. upplýsi okkur eitthvað um það hvað er á ferðinni --- hvað líður kaupskap þeirra hæstv. fjmrh. og 5. þm. Norðurl. v. um stuðning hans við frv. Nú höfum við nýlega fengið bréf frá mjög virðulegum klúbbi hér í bænum með einhverjum alvirðulegasta bréfhaus sem maður hefur séð, bláhvítur víða og undir hann rita mikil stórmenni. Hvorki meira né minna en Bjarni Finnsson Kaupmannasamtökum Íslands, Jóhann J. Ólafsson Verslunarráði Íslands og Kristján Einarsson Félagi íslenskra stórkaupmanna. Þetta eru nú engir smákarlar og maður hefði einhvern tímann haldið að fyrrum framkvæmdastjóri Stjórnunarfélagsins og virðingarmaður í heldri manna röðum á þessu sviði í höfuðborginni, hæstv. fjmrh., 2. þm. Reykv., hefði tekið mark á svona mönnum. En það er ekki því að þessir menn leggjast eindregið gegn þessari skattlagningu á verslunina og tína þar ýmislegt til. Að hagur verslunarinnar sé ekki nógu góður, þetta rýri samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar gegn þeirri erlendu og þingmönnum og ráðherrum væri nær, eins og segir í bréfinu, með leyfi forseta, ,,að fella skattinn niður og einbeita sér frekar að því að draga saman umsvif hins opinbera``.
    Það má út af fyrir sig að líta á samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar gagnvart erlendri. Mér er þó mikið nær skapi að skoða þetta hvað snertir innbyrðis samkeppnisstöðu verslunarfyrirtækjanna í landinu og eins og ég hef þegar lýst tel ég sjálfsagt mál, ef hæstv. ríkisstjórn hefur á því einhvern áhuga, að láta efh.- og viðskn. stjórna því milli umræðna í þinginu að útfærðar yrðu breyttar tillögur um innheimtuform þessa skatts sem kæmi réttlátar og sanngjarnar niður gagnvart verslun og þjónustu í landinu eftir því hvernig afkoma er. Það væri mjög að skapi okkar alþýðubandalagsmanna sem jafnaðarmanna, eins og nú er sagt, að reynt yrði að ( Gripið fram í: Þér verður hált á þessu.) forseti, það er ókyrrð í salnum. --- ( Gripið fram í: Jæja, áfram gakk.) Þetta er nú allt í góðu lagi, ég er bara að bíða eftir því að salurinn róist. En við erum sem sagt meira en til í að skoða það að haga innheimtu skattsins þannig að hann væri tekinn meira í takt við afkomu og hagi þeirra sem hann eiga að greiða.
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að spyrja áður en ég lýk máli mínu í von um að fá svör, hvort hæstv. ríkisstjórn sé ákveðin í því að láta þetta mál ganga til atkvæða að lokinni þessari umræðu, þ.e. á þessum fundi eða hinum næsta, eða hvort menn eru tilbúnir til að staldra við í þessu máli, m.a. í ljósi þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram í umræðunni, bæði frá ýmsum stjórnarandstæðingum og eins frá hv. stjórnarsinnum, eins og hv. 5. þm. Reykv., sem flytja brtt. við málið. Þessar brtt. voru ekki kunnar þegar efh.- og viðskn. fjallaði um málið á fundum sínum. Þær hafa komið fram síðar eða undir umræðunni, þó að vísu skylt sé að taka fram að hv. 5. þm. Reykv. fór ekki á nokkurn hátt dult með afstöðu sína í efh.- og viðskn. og má enginn misskilja mig svo. En mér finnst að mörgu leyti vera breytt staða í málinu og með tilliti til að nú eru frv. rædd í einni málstofu þingsins og þar af leiðandi einungis um þrjár umræður að ræða tel ég eðlilegt að þegar slíkir hlutir gerast að gert yrði hlé á 2. umr. um málið og efh.- og viðskn. fengi það til sín og gæti skoðað það í ljósi þeirra brtt. sem fram eru komnar. Út af fyrir sig eru kannski ekki mörg fordæmi fyrir því hvernig eðlilegast er að vinna við slíkar aðstæður því þetta mun vera eitt af fyrstu málum sem kemur frá nefnd við hið nýja skipulag þingsins. En ég leyfi mér að beina þeim tilmælum til virðulegs forseta að það verði íhugað þegar svona ber til, að mál er við 2. umr. og er þá einungis ein eftir ef henni lýkur, að eðlilegra væri að brtt. og ný sjónarmið, sem upp hafa komið í máli, gengju til nefndar á því stigi og síðan kæmi málið aftur fyrir og 2. umr. yrði lokið. Og ef ekki næðist samkomulag yrði tekist á um þau mismunandi sjónarmið sem uppi væru í málinu í formi brtt. Ef hæstv. forseti hefur á þessu aðra skoðun og telur eðlilegra að ljúka umræðunni og ganga svo til atkvæða um þessar brtt. án þess að þingnefnd hafi átt kost á því að ræða þær þá hefði ég líka gjarnan viljað heyra rökstuðning fyrir því hvort það hefur verið rætt í tengslum við setningu þingskapalaganna eða í forsrn. að þetta skuli vera vinnutilhögunin við slíkar aðstæður. Það gegnir augljóslega allt öðru máli um slíka hluti nú þegar þingið starfar í einni málstofu og ein og sama þingnefndin lýkur vinnu um frv. Síðari deild og síðari þingnefnd er ekki til staðar til að yfirfara brtt. og umræður í hinni fyrri og af þessu leiðir að menn þurfa væntanlega að skapa sér nýjar vinnureglur um slíka hluti.
    Ég vil sem sagt undirstrika það að lokum varðandi efni frv. að ég tel mjög æskilegt að menn séu tilbúnir til að setjast niður og skoða það á nýjan leik. Ég er alls ekki frá því að við hv. þm. næðum allir saman um að breyta þessu máli þannig að sæmileg samstaða gæti skapast um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu og kannski ekki síður milli strjálbýlis og þéttbýlis, því í raun er það svo að við þingmenn, sem þekkjum til mála í strjálbýlinu, getum ekki annað en viðurkennt að það er býsna erfitt að forsvara það að leggja þennan skatt á þau verslunar- og þjónustufyrirtæki úti á landsbyggðinni sem lepja dauðann úr skel og hafa jafnvel orðið gjaldþrota unnvörpum á undanförnum árum eins og mörg kaupfélög og verslunar- og þjónustufyrirtæki á landsbyggðinni.
    En væntanlega fæ ég svör við þessu, bæði því sem ég hef beint til hæstv. forseta, hæstv. fjmrh. og e.t.v. kemur svo 5. þm. Norðurl. v. og getur upplýst okkur um kaupskap sinn við hæstv. fjmrh., fyrir hvað hann var falur í þessu máli.
    En ég hafði vænst þess að hæstv. félmrh. yrði að sjálfsögðu viðstödd umræðuna þegar hún héldi áfram vegna þeirra ummæla sem hún lét falla í þessu efni í dag og hlýt þess vegna að spyrja hæstv. forseta hvað sé til tíðinda af nærveru hæstv. félmrh. --- Er hæstv. félmrh. ekki í húsinu? ( Forseti: Hæstv. félmrh. mun ekki vera kominn í húsið miðað við töfluskjá forseta, en forseti er að láta athuga hvort hennar sé ekki að vænta hér.) ( Gripið fram í: Það er von á henni hálf tíu.) Klukkan er hálf tíu þannig að ég fer þá að beina máli mínu til hæstv. félmrh. úr því að hún er væntanleg.
    Ég sé mig knúinn til að segja nokkur orð af því tilefni sem gafst vegna íblöndunar hennar hér í umræður í dag sem var satt best að segja allsérkennileg að mínu mati. Þó er nú óþægilegra að hæstv. félmrh. sé ekki mættur til leiksins. ( Gripið fram í: Er hún líka í jafnaðarmannaflokknum?) Nú er ekki ljóst hvort hæstv. félmrh. fellst á slíkar skilgreiningar en í öllu falli er hún í Alþfl. og hvorki meira né minna en varaformaður hans. Annars verð ég að segja það, hæstv. forseti, meðan við hinkrum við og sjáum til með hæstv. félmrh. að mér kom nokkuð á óvart málflutningur hæstv. ráðherra hér í dag svona almennt talað og ætla ekki að undanskilja hæstv. fjmrh. því satt best að segja fór mest lítið fyrir því að reynt væri að veita svör og upplýsingar í málflutningi ráðherra. Það virðist ekki tíðkast nú orðið samanber t.d. frammistöðu hæstv. forsrh. í byggðaumræðum í dag. Sá stíll er uppi að menn nýta sér rétt sinn sem ráðherrar til að hlaupa inn í umræður aftur og aftur og fyrst og fremst til að skattyrðast, bera þingmenn ásökunum vegna þeirra fyrri starfa e.t.v. sem ráðherra eða starfa að byggðarmálum eða einhverju öðru slíku. Ég hef ekki kynnst því áður á þingferli, sem nú er kominn á níunda ár, að ráðherrar beittu stöðu sinni í þinginu með þessum hætti. Það er auðvitað nokkuð vandmeðfarið að hafa nánast aðstöðu til að skjóta sér inn í umræður eins og mönnum hentar og þess þá heldur ber mönnum frekar en hitt að nýta þann rétt sinn skynsamlega og þá fyrst og fremst auðvitað til þess sem hann er ætlaður, að veita svör og upplýsingar um það sem um er beðið. Ég hef aldrei skilið þann rétt sem ráðherrar hafa í þessu sambandi sem svo að hann væri til að veita þeim yfirburði í pólitískum áflogum eða skylmingum hér í þinginu. Þvert á móti væri ætlast til hins gagnstæða, að hæstv. ráðherrarnir nýttu rétt sinn fyrst og fremst til þess, sem hann er að mínu mati ætlaður, að gefa upplýsingar og veita svör í umræðum jafnóðum og leitað er eftir slíku til að þær geti haldið áfram með eðlilegum hætti. En í dag fengum við sýnishorn um hið gagnstæða og hæstv. fjrmh., sem er þó gjarnan með dagfarsprúðari hæstv. ráðherrum í þessum efnum, missti sig svolítið út í þetta þó hann að sjálfsögðu kæmist ekki í hálfkvisti við hæstv. forsrh.
    En, virðulegur forseti, vegna þess að mér er mikið í mun að greiða fyrir framgangi mála og hraða þingstörfum með öllum tiltækum ráðum ætla ég að flytja ræðu mína yfir

hæstv. félmrh. þó að hæstv. ráðherra sé ekki mættur. ( Forseti: Hæstv. félmrh. mun vera kominn í húsið og er þess að vænta að hann birtist í salnum.) Þá vænkast mjög vor hagur og get ég þá senn lokið máli mínu ef hæstv. félmrh. heiðrar okkur með nærveru sinni, því ég ætla satt best að segja fyrst og fremst að eiga við hæstv. félmrh. nokkur mjög vinsamleg orð og það stafar auðvitað af því að mér er mjög hlýtt til hæstv. félmrh. þó að kærleikar með okkur séu kannski ekki jafnmiklir og virðast vera orðnir með hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. því það kom berlega í ljós í umræðunni í dag að þeim hefur orðið vel til vina í ríkisstjórninni. En sem sagt, hæstv. félmrh. hóf hér það sem mér fannst allsérkennileg umræða af litlu tilefni og fór út í það sem hlýtur að kallast ,,pólitísk samanburðarfræði`` og lagði þar mælistiku yfir fjmrh., fyrrv. og núv., ekki til að mæla lengd þeirra heldur getu þeirra til þess að skaffa henni, hæstv. ráðherranum, fé í ýmsa sjóði og taldi að sá hefði verstur verið viðskiptis sem við vorum bæði samtíða í ríkisstjórn, þáv. hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson.
    Nú ætla ég ekki að fara efnislega út í þessa samanburðarfræði og dettur það ekki í hug, svo vitlaust sem það er. En hitt undrar mig ef hæstv. félmrh. telur það skynsamlegan málflutning að draga inn í umræðu af þessu tagi mat á velvilja eða málefnabundinni afstöðu manna sem stýrt hafa fjrmn. fyrr eða síðar. Jafnljóst og hæstv. félmrh. hlýtur að vera hversu breytilegar aðstæður eru uppi á hverjum tíma, sömuleiðis ætti hæstv. félmrh. að vera það jafnljóst að það getur verið breytilegt milli ára hvernig fagráðherrar, og þá í samráði við fjmrh. hvers tíma, kjósa að leggja áherslur í fjárveitingum. Síðan tók hæstv. félmrh. það ráð þegar hv. 8. þm. Reykn. benti henni á þessa augljósu staðreynd að misskilja 8. þm. Reykn. og bera honum þungar sakir á brýn.
    Mig furðar þetta þeim mun meir ef hæstv. félmrh. er að reyna að segja okkur að hún telji þá ríkisstjórn sem nú situr betri í félags- og velferðarmálum en þá sem fyrir var. Ég átti satt best að segja ekki von á að heyra hæstv. félmrh. reyna að halda slíkri fásinnu fram af því að ég þykist vita að félmrh. á ekki allt of sæla daga í þessari ríkisstjórn og ég trúi því ekki nema hæstv. félmrh. valdi mér þeim stórkostlegu vonbrigðum að koma hér upp og lýsa því yfir að hæstv. félmrh. sé ánægður með það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera á fjölmörgum sviðum og lýtur að félags- og velferðarmálum.
    Ég trúi því t.d. ekki að hæstv. félmrh. sé ánægður með ýmislegt sem gert hefur verið og til stendur að gera í heilbrigðiskerfinu. Ég trúi því ekki. Þá hef ég illa þekkt þá manneskju ef svo er. Ég trúi því ekki að hæstv. félmrh. sé ánægður með margt það sem fjárlagafrv. boðar gagnvart skólamálum, gagnvart málefnum barna og barnafjölskyldna og svo gæti ég áfram talið. Ég hafði ekki hugsað mér og hef ekki hugsað mér að fara að særa hæstv. félmrh. upp í umræðum hér á Alþingi á þessum vetri út af þessum hlutum sem fæstir eru á hennar verkefnasviði í ríkisstjórninni. Ég tel nær að beina geira mínum að hæstv. fjmrh. og þá þeim fagráðherrum öðrum eins og hæstv. heilbrrh. sem væntanlega eru þarna fyrst og fremst ábyrgir. Hitt verð ég að segja að ef hæstv. félmrh. býður til slíkra hluta með ásökunum af því tagi sem hún hafði hér uppi í garð fyrri ríkisstjórnar og hv. 8. þm. Reykn., þá áskil ég mér auðvitað allan rétt í þessum efnum. En þau heilræði ætla ég að leyfa mér að gefa og vona að þau teljist ekki stærilæti af minni hálfu að vara hæstv. félmrh. við áður en hún heldur lengra inn á þessa braut. Ég held að það verði ekki neinum til framdráttar og ekki hæstv. félmrh. frekar en öðrum að fjalla um samstarfið í fyrri ríkisstjórn með þeim hætti sem hæstv. félmrh. gaf aðeins tóninn til fyrr í dag. Það er umræða sem ég tel að sé að skemmta skrattanum og vil síst sjá hæstv. félmrh. lenda úti í því feni.
    Auðvitað á hæstv. félmrh. ekki sæla daga í þessari íhalds- og afturhaldsstjórn sem hefur sýnt klærnar í meira mæli en nokkur stjórn um langt árabil t.d. gagnvart því sæmilega jafnréttissinnaða velferðarkerfi sem hér hefur verið byggt upp í landinu og margt má auðvitað um segja. Eitt gott má þó um það segja en það er að í 40--50 ár hefur ríkt um það þokkaleg pólitísk samstaða að mönnum skuli ekki mismunað með tilliti til efnahags gagnvart undirstöðuþáttum þjónustu í velferðarkerfinu. Því miður er það svo og kannski veldur það því að hæstv. félmrh. er jafnórótt og raun ber vitni og grípur þess vegna til þess að slá frá sér í blindni, eins og stundum gerist, að þessar staðreyndir þjaka hæstv. ráðherra.
    Hæstv. félmrh. taldi enn fremur að ýmsir þingmenn, þar á meðal held ég hv. 8. þm. Reykn. og fleiri, hefðu ekki mikil efni á því að tala um heilindi og ættu helst ekki að taka sér það orð í munn. Ég ætla ekki að bera hæstv. félmrh. það á brýn að hún sé ekki hreinskiptin í framkomu og sæmilega heil í sínum hlutum. Það eru frekar aðrir hlutir sem mér gæti orðið á óvart að saka hana um eins og að vera stundum dálítið ósveigjanleg í samvinnu en meira mun ég nú ekki hafa það. En hæstv. félmrh. er, held ég, sæmilega hreinskiptin og þess vegna veit ég að ríkisstjórnarmyndunin sl. vor hlýtur að hafa verið henni á móti skapi. Ef þingmenn Alþfl. vilja umræður um hreinskiptni held ég að væri rétt að kalla til sögunnar hv. þm. Alþfl. á Norðurl. e. og Austfjörðum og spyrja þá út í málflutning þeirra á sl. vori sem kjósendur þar máttu hlusta á. Kjósendur heyrðu og trúðu að þeir væru einlægir stuðningsmenn þess að haldið yrði áfram vinstra samstarfi í landinu eftir kosningar. Er það sú hreinskiptni sem Alþfl. telur ástæðu til að hrósa sér af? Ég efa ekki að þessir hv. þingmenn mæltu þarna af heilum hug um að þeir vildu halda áfram slíku samstarfi. Telja þeir það sem síðan gerðist og þá framkomu sem kjósendur þeirra urðu vitni að eitthvað til þess að hrósa sér af? Kjósendur voru algerlega sviknir og látnir halda að þeir væru með atkvæði sínu að leggja lóðir á vogarskálar vinstra samstarfs og vinstri ríkisstjórnar í landinu.
    Nei, virðulegi forseti. Ég mun ekki undir þessu dagskrármáli fara lengra út í þessa sálma. En úr því að talsmenn Alþfl. í umræðunni tóku upp með þessum heilagleika spurninguna um hreinskiptni og heiðarleika í stjórnmálum, þá held ég að ég hafi ekki farið lengra út af línunni heldur en þeir.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. svari spurningum mínum fjótlega um það hvort hann sé tilbúinn til að hugleiða að þessari umræðu verði ekki lokið í ljósi þeirra breytingartillagna og sjónarmiða sem hér hafa komið fram. Að umræðan fái að halda áfram fram eftir kvöldinu og mælendaskrá verði nokkurn veginn tæmd en síðan fái fjh.- og viðskn. tíma til að koma saman og líta yfir málið og skoða þær tillögur sem hafa verið fluttar og skili síðan áliti sínu á nýjan leik til þingsins sem þá geti lokið afgreiðslu málsins, 2. og 3. umr. Enn fremur óska ég eftir því að hæstv. forseti sem verkstjórinn hér á þingi lýsi afstöðu sinni til þeirra sjónarmiða varðandi málsmeðferð sem ég hef hér reifað.