Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 21:44:02 (1267)

     Frsm. minni hl. (Ingi Björn Albertsson) :
     Hæstv. forseti. Ég hef sagt það sem ég þarf að segja í þessu máli en alltaf má bæta einhverju við. Í fyrri ræðu minni lýsti ég skoðunum mínum í gegnum tíðina á þessum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og lét þar koma skýrt fram að ég hef alla tíð verið á móti skattinum. Ég hef flutt brtt. við hann og ávallt greitt atkvæði á móti honum. Sú afstaða mín er óbreytt.
    Hins vegar virðist vera svo hjá mörgum og flestum flokkum, ég ætla ekki að segja öllum, að það sé merki um kjark og dug að standa á þingi, hér í þessu ræðupúlti í stjórnarandstöðu, mæla kröftuglega á móti málum, koma síðan árið eftir, vera þá hinum megin við borðið og mæla þá með því máli sem áður var mælt á móti. Mér er tjáð að það sé merki um kjark og dug að svíkja stefnur. Sé svo, þá er ég kjarklaus og duglaus og ég skammast mín ekki fyrir það í þessu máli.
    Ég hef rakið það hvernig þessi skattur mismunar bæði atvinnugreinum og byggðum og hversu ranglátur hann er og hefði vissulega verið freistandi að hafa hér við höndina bæði fyrri ræður mínar og eins annarra sem mæltu á móti þessum skatti á síðustu árum.
    Einnig kom fram í fyrri ræðu minni að á Reykjavíkursvæðinu sérstaklega eru þúsundir fermetra af ónotuðu skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þetta húsnæði ber fullan skatt þrátt fyrir það að enginn arður komi af því. Þetta er að sjálfsögðu mjög ranglátt og ber að leiðrétta.

    Ég fór einnig yfir þátt landsbyggðarverslunarinnar og lýsti eftir skoðunum landsbyggðarþingmanna á þessum skatti. Þeir hafa verið í röðum að ræða byggðamál, atvinnumál og kjaramál landsbyggðarinnar með geislabaug yfir höfði en ætla alveg hiklaust að greiða atkvæði með þessum skatti, með þeim skatti sem mun íþyngja landsbyggðarverslun og hefur gert alla tíð.
    Hvert fer skatturinn? Hann fer að sjálfsögðu beint út í verðlagið. Hvað þýðir það þegar skatturinn fer beint út í verðlagið? Það þýðir að vöruverð hækkar og tæplega er það landsbyggðarverslun til framdráttar. Ég held að landsbyggðarþingmenn, og ég var það sjálfur á síðasta kjörtímabili, viti vel að landsbyggðarverslunin berst í bökkum og ef þeir vita það ekki ættu þeir að skreppa út í kjördæmin og kíkja inn í verslanirnar. Þessir menn ætla hins vegar að greiða þessum skatti atkvæði sitt.
    Einn hv. þm., hv. 5. þm. Vestf., hefur flutt brtt. á þskj. 156 þar sem gert er ráð fyrir að sérstakur eignarskattur skuli nema 2,25% af skattstofni skv. 3. gr. í sveitarfélögum með 10 þús. íbúa og fleiri en 0,75% annars staðar. Hann er haldinn nákvæmlega sama veikleika og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Þeir eru báðir með kringlótt augu. Þeir sjá ekkert nema Kringluna þegar þeir tala um skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Kringlan er þeirra sjóndeildarhringur. Og öll verslun og allt skrifstofuhúsnæði í landinu skal dæmt eftir Kringlunni. Þetta eru kringlóttu augun þessara tveggja hv. þm. Ég held að þeir mættu gjarnan labba hér um bæinn og kíkja í litlu hverfaverslanirnar, kíkja á einyrkjana, kíkja á skrifstofukompurnar sem eru víðast hvar og ræða við það fólk um réttlæti þessa skatts og fara þangað með Kringluaugun sín. Svo virðist vera að til þess að réttlæta skattinn þá verði að miða við glæsibyggingu. Ef við tækjum Kringluna í burtu og byggðum hreysi væri sennilega kominn grundvöllur fyrir því að taka hann af.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um bruðl í verslun. Vel má vera að eitthvað sé til í því og gjarnan er vitnað til Kringlunnar. En ég get sagt hv. þm. að ekki eru allar verslanir í Kringlunni reknar með hagnaði. Þar verða eigendaskipti mjög ört. Hins vegar ef bruðl er í verslun fá eigendur sem fyrir því að standa að bera ábyrgð á því sjálfir. Þeir leita ekki í opinbera sjóði eins og ýmsar aðrar atvinnugreinar gera. Þar mega menn fara á hausinn og verða gjaldþrota. Þá er þessum heilögu mönnum með geislabauginn yfir höfðinu nákvæmlega sama. Eingöngu vegna þess að það er þetta ljóta orð, verslun.
    Síðan kemur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og leggur fram brtt. Hvað vill hann gera? Hann vill hækka skattinn á Reykjavíkursvæðinu upp í 2,25%. Hann vill íþyngja enn meir, hann vill hækka vöruverðið enn meir og ætli hann sé að hugsa um hag neytenda þá? Ætli hann sé að hugsa um kjaramálin, að lægra matvöruverð til að mynda sé besta kjarabót sem völ er á? Ætli hann sé að hugsa um hálfa þjóðina sem býr á þessu svæði? Nei, aldeilis ekki. Hann er með kringlóttu augun, hann er að horfa á Kringluna og ekkert annað og það er kominn tími til að menn víkki aðeins sjóndeildarhringinn. ( Gripið fram í: Hvernig eiga augu að vera í laginu?) Eins og hv. þm. Alþb. eru núna, með hendur hvora við sitt auga og draga augun út, þá eru þeir helst eins og Kínverjar.
    En hvað vill hv. þm. meira? Hann vill hjálpa landsbyggðarversluninni. Hann vill lækka skattstofninn niður í 0,75% í byggðarlögum sem hafa færri en 10 þús. íbúa. Af hverju stígur hann þá ekki skrefið með mér niður í 0,5%? (Gripið fram í.) Þá reis upp þingmaður, Jóhannes Geir háttvirtur, og var bara býsna ánægður með þessa tillögu nema (Gripið fram í.) næsta byggðarlag var Akureyri og þar voru íbúar fleiri en 10 þús. Það var ekki alveg nógu gott. Þá var höggvið einum of nærri. ( SJS: KEA er þar.) KEA er þar. Þessir menn vilja ekkert hjálpa landsbyggðarversluninni og því fólki sem hefur atvinnu af henni eins og mun koma hér mjög glöggt í ljós þegar atkvæðagreiðslan fer fram. Síðan eru menn að tala um það að jólaverslun flytjist úr landi og eru að básúna það. Af hverju vilja

menn þá ekki leggja því lið að skatturinn verði lagður niður og stuðla að lækkuðu vöruverði? Því ekki? Ég skora á þessa menn að svara.
    Hv. þm. Jóhannes Geir sagði það sem hann sagðist ekki ætla að segja. Það sem er mjög sniðugt til þess að planta einhverri hugmynd að segja eitthvað en ætla ekki að segja það. Hann sagðist ekki trúa því að brtt. mín og afstaða mín í þessu máli væri sýndarmennska. Þetta var í sjálfu sér alveg nóg. Það var búið að planta. Ef það er sýndarmennska að fylgja stefnu síns flokks, ef það er sýndarmennska að fylgja sannfæringu sinni, þá er allur málflutningur hv. þm. sýndarmennska vegna þess að ég trúi því að hann mæli fyrir munn síns flokks og eftir hans stefnu og eftir eigin sannfæringu. Ég veit að málflutningur hans er ekki sýndarmennska og ég ber virðingu fyrir þeim þingmanni sem ég er nú að tala við.
    Hér hefur mikið verið kallað eftir því hver stuðningur Sjálfstfl. sé í þessu máli. Það kom fram strax við 1. umr. Aðeins einn þingmaður leggst gegn frv., sá sem hér stendur og allt fjaðrafok í kringum það er bara til þess að slá ryki í augu á fólki.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér umsögn starfsráðs verslunarinnar þar sem enn eitt árið er lagst mjög harkalega gegn þessum skatti. Ég veit ekki hvort vitnað hefur verið í þessa umsögn eða ekki en ég ætla að fá að gera það og gera þau orð að mínum. Þar stendur m.a., með leyfi forseta, ég ætla ekki að lesa alla umsögnina: ,,Þegar skatturinn var lagður á í upphafi árið 1979 var hann einungis hugsaður til eins árs. Raunin hefur hins vegar orðið sú að hann hefur verið framlengdur á hverju ári til eins árs í senn. Skattur þessi sem einungis er lagður á þröngan hóp aðila er hæpinn út frá skattalegum sjónarmiðum og rýrir samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar. Hann á sinn þátt í því að draga verslunina úr landi og kemur óhjákvæmilega fram í verðlagningu.
    Samstarfsráð verslunarinnar mótmælir því einnig að niðurfelling þessa skatts sé nú skilyrt við upptöku nýs skatts á fjármagnstekjur, skatts sem samstarfsráð telur að ekki sé tímabært að taka upp vegna lítils sparnaðar og lélegrar eiginfjárstöðu fyrirtækja.
    Samstarfsráð verslunarinnar skorar á þingmenn og ráðherra að fella skattinn niður við meðferð fjárlagafrv. og einbeita sér frekar að því að draga saman umsvif hins opinbera. Með því móti væri verið að stíga skref í þá átt að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar öllum til heilla.``
    Undir þetta rita fulltrúar Kaupmannasamtaka Íslands, Verslunarráðs Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á það í seinni ræðu sinni að ég hefði ekki kynnt brtt. í efh.- og viðskn. sem er alveg rétt. Og hitt er líka rétt hjá honum að mín andstaða gegn frv. kom mjög skýrt fram.
    Ég vil minna hv. þm. á brtt. sem ég flutti á síðasta þingi við þingskapalögin nýju, þar sem gert var ráð fyrir því að á vissum stigum máls færu brtt. til nefndar og fengju þar umfjöllun. Það held ég enn þann dag í dag að sé rétt að gera og menn eigi að íhuga það með opnum hug hvort það kalli ekki á vandaðri vinnubrögð en ella.
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það að í mínum huga eiga menn og flokkar hvar sem þeir eru að vera ábyrgir orða sinna hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þeir eiga að fylgja þeirri stefnu og þeirri skoðun sem þeir boða hverju sinni.