Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 21:55:00 (1268)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Í seinni ræðu sinni um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði kom 5. þm. Reykv. víða við og talaði sérstaklega til okkar landsbyggðarþingmanna sem hér höfum tekið til máls undir umræðunni um þetta frv. Ég vil taka það skýrt fram að mín afstaða til frv. byggist á nákvæmlega sama grunni og hv. 5. þm. Reykv., þ.e. á því að taka

ekki aðra efnislega afstöðu til málsins í stjórnarandstöðu en í stjórn. Það er svo annað mál að við stjórnarandstæðingar sem skrifuðum undir nál. í efh.- og viðskn. gerðum það með fyrirvara, m.a. þeim fyrirvara að við viljum fá að sjá áform ríkisstjórnarinnar að öðru leyti um skattamál áður en við greiðum þessu atkvæði.
    Ég get farið í gegnum hinn efnislega grunn á bak við þessa skatttöku með hv. 5. þm. Reykv. Hann reyndi að gera það tortryggilegt að ég benti á þá veilu í tillögu hv. 5. þm. Vestf., ef hann ætlaðist til þess að sú tillaga ætti að vera til að létta undir verslun á landsbyggðinni. Ég benti á veilu í tillögunni ef það væri tilgangurinn, annað gerði ég ekki í umræðu um það, þannig að ég vísa því á bug að þar hafi ég verið að því vegna þess að það tengdist minni nágrannabyggð.
    Annað hef ég ekki að segja um þetta mál nema að ég skil ekki viðkvæmni þingmannsins gagnvart því að ég sagði að ég tryði því ekki að hann væri með sýndarmennsku, enda hefði ég ekki reynt hann að því. Það voru mín orð í umræðunni í gær.