Seðlabanki Íslands

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 22:12:00 (1272)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Maður verður eiginlega snortinn þegar maður heyrir að það séu hvorki meira né minna en tveir ráðherrar í húsinu. Það er bara stóratburður eins og þetta þróast hér undanfarna dagana. Það er alveg fullnægjandi fyrir mig að þeir séu hér hæstv. viðskrh. og sjútvrh. Ég geri ekki kröfu til þess að hæstv. forsrh. sé hér þar sem ég hef ítrekað reynt að spyrja hann hvort það sé svo í þessari ríkisstjórn að hann sé fyrir efnahagsmálum í þessu ráðuneyti en við því hafa engin svör komið. Að sjálfsögðu væri það ekki óeðlilegt að yfirráðherra efnahagsmála væri viðstaddur umræður um kerfisbreytingar í peningamálum af því tagi sem hér eru á ferðinni. En með vísan til þessa rökstuðnings, að hæstv. forsrh. hefur ekki gefið neitt út á það að hann færi með efnahagsmál í þessari ríkisstjórn, þá sé ég ekki ástæðu til að eiga við hann frekari orðaskipti um þau mál.
    Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um Seðlabanka Íslands. Eru breytingarnar tvenns konar eins og mönnum er væntanlega kunnugt. Í fyrra laginu sakleysisleg orðalagslagsbreyting sem stafar af aðlögun bankalaga að nýsettum lögum um fjárfestingu erlendra aðila, lögum nr. 34 frá þessu ári. Hin breytingin lýtur að því, og það mun ég aðallega gera hér að umtalsefni, að unnt sé að breyta núgildandi fyrirkomulagi á gengisskráningu krónunnar þannig, eins og segir í athugasemdum með frv., með leyfi forseta: ,,að gengi krónunnar geti ráðist í auknum mæli af framboði og eftirspurn á markaði.`` Satt best að segja er sú breyting, þegar það er lesið og samkvæmt orðanna hljóðan, nokkuð sérkennileg því að í 2. gr. frv. segir að 18. gr. laga um Seðlabanka Íslands skuli orðast svo, og ég les upphafið, með leyfi forseta:
    ,,Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið. Heimilt er að ákveða að gengi krónunnar miðist við einn erlendan gjaldmiðil, samsettan gjaldmiðil, eins og ECU eða SDR, eða meðaltal gjaldmiðla, ýmist með eða án fráviksmarka.``
    Þessi stórkostlega setning, þetta mikla bókmenntaafrek sem er 2. málsl. 2. gr. frv. segir á mannamáli í raun og veru að Seðlabankinn eigi að ákveða gengi íslensku krónunnar einhvern veginn og hann hafi fullt frelsi til að gera það eins og honum sýnist. Hann geti tengt það við þessa eða hina myntina, eina sér eða samsetta, með eða án fráviksmarka og ótilgreindar stærðir. Á venjulegri íslensku mundi þetta nú bara hljóða svona: ,,Seðlabankinn skal ákveða gengi íslensku krónunnar einhvern veginn.``
    Í sjálfu sér segir því þetta frv. ekki neitt og minna en ekki neitt um það hvað í vændum kann að vera í þessum efnum. Það er alveg ljóst að verið er að útbúa til handa Seðlabanka og ríkisstjórn galopna heimild til þess að fara með gengismálin hvað þetta snertir, hvað viðmiðanir snertir, eins og mönnum sýnist á þessum bæjum. Nú er ég ekki að segja endilega að það sé óeðlilegt í sjálfu sér að þetta sé svona, að Seðlabankinn, og þá í samráði við ríkisstjórn, sé ekki bundinn af lögum til þess að hafa þetta fyrirkomulag með einum hætti eða öðrum fremur. Það er ekki aðalmálið í mínum huga heldur hitt að það verður að vera ljóst hvað menn ætlast fyrir í þessum efnum og það er mál sem ég held að Alþingi hljóti að vilja láta sig varða, hvernig menn hyggjast gera þá miklu grundvallarbreytingu í peningamálum, peningamálastjórn og í raun og veru í öllu okkar efnahags- og atvinnulífi sem markaðsskráning á gengi krónunnar óumdeilanlega væri ef það er það sem í vændum er.
    Tenging krónunnar, fastbinding krónunnar, þ.e. á því formi að um fast og óumbreytanlegt gengishlutfall milli íslensku krónunnar annars vegar og t.d. veginnar körfu Evrópumynta hins vegar yrði að ræða, er hlutur sem ég tel ekki raunhæfan og ekki líklegan til að vera á dagskrá á næstu árum, jafnvel þó svo að menn séu að gera því skóna að það sé unnt innan fárra ára að hafa íslenska efnahagskerfið tilbúið undir slíka breytingu. En auðvitað er það alveg ljóst að yrði farið út í slíkt, þá væri þar um mjög mikla breytingu að ræða.
    Síðan segir, svo að ég haldi mig við 2. gr. frv., að Seðlabankanum skuli vera heimilt með kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri eða öðrum aðgerðum sem hann telur nauðsynlegar að hlutast til um að gengi krónunnar sé innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða. Og hann skuli síðan einu sinni á dag skrá gengi, sem hann er tilbúinn til að eiga viðskipti á, og það skuli teljast hið opinbera gengi o.s.frv. Þarna er þá komið að því sem hlýtur að vera meginkjarni umræðna um þessa breytingu ef menn á annað borð taka það alvarlega að hér eigi að stíga skref í þessa átt, það er það hlutverk sem Seðlabankanum hlýtur að vera ætlað í hinum nýja heimi, í hinni nýju framtíð, að kaupa eða selja erlendan gjaldeyri eða grípa til annarra aðgerða sem hann telur nauðsynlegar til að hlutast til um að gengi krónunnar sé innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða. Hvað er hér verið að segja? Væntanlega er verið að segja það að Seðlabankinn verði þá að taka upp það verkefni sem seðlabankar annarra landa í stærri hagkerfum hafa með höndum að vera sá stóri jafnvægisstillir á markaði með gengi sem gerir það kleift að halda sæmilega stöðugu gengi og hafi í höndum nægjanlega öflugt tæki, sé sjálfur nægjanlega öflug stofnun til þess að leika þetta hlutverk. Og það er eiginlega það fyrsta sem ég held að sé ástæða til að staldra rækilega við og spyrja sig að áður en ég ræði um það hvort hugmynd eins og fastbinding krónunnar við ECU, sem er þó nefnd í frv., sé raunhæf og þá hvernig yrði að henni staðið og hvaða afleiðingar hún hefði. En það er spurningin um þessa stofnun, Seðlabanka Íslands, sem hæstv. utanrrh. hefur upplýst þjóðina um að menn fáist aðallega við að naga blýanta. Er þessi stofnun, svo gamni sé nú sleppt, í stakk búin til þess eða er eitthvað í vændum sem gerir hana í stakk búna til þess að leika þetta hlutverk, að jafnvægisstilla þannig markað með gjaldeyri á Íslandi að gengi krónunnar geti orðið sæmilega stöðugt? Ég verð að játa að um það hef ég miklar efasemdir. Augljóslega vantar fyrir það fyrsta fyrirkomulagið sjálft þar sem það er ekkert til á Íslandi sem heitir markaður með gengi, kaup og sala í venjulegum skilningi þess orðs, þar sem margir aðilar geta haft áhrif með hreyfingum óháðir hver öðrum innbyrðis á einum og sama deginum. Hér festir Seðlabankinn gengið og skuldbindingur sig til þess að kaupa á sama verði sólarhringinn út. Mér er tjáð að til þess að afstýra óhöppum í því fyrirkomulagi, þá sé í gildi óformlegt samkomulag milli bankanna, viðskiptabankanna og Seðlabankans, sem í reynd þýði það að gjaldeyrisviðskipti fari yfirleitt ekki fram fyrir hádegi hvern dag, til þess að afstýra því að menn geti nýtt sér breytingar sem væru líklegar eða menn mætu líklegt að þýddu óvænta hreyfingu í gengi og þannig gætu einstakir aðilar spilað á þetta kerfi sem við lýði er hér uppi á Íslandi enn þann dag í dag. Væntanlega yrði það þá eitt af fyrstu skrefum að koma upp einhvers konar gengismarkaði hvort sem það yrði í formi millibankamarkaðar til að byrja með eða með einhverjum öðrum hætti. En augljóslega vantar í raun og veru þessi stjórntæki. Það vantar leikvanginn sjálfan ef svo má að orði komast og síðan vantar leikreglurnar. Og það vantar dómara í líki þess seðlabanka sem verður auðvitað að vera til ef svona fyrirkomulag á að geta gengið og nægilega öflugur og stór til þess að hafa þá yfirburðastöðu á þeim markaði sem í hlut á að geta með afli sínu stillt þar jafnvægið þannig

að það sé innan skikkanlegra marka.
    Þá hljótum við að spyrja okkur að því hvernig gengismarkaður á Íslandi yrði að líkindum, a.m.k. svona á fyrstu árum slíks markaðar. Er ekki hætta á því að í fyrsta lagi yrðu of fáir og of tengdir aðilar þar með viðskipti til þess að einhver eðlilegur markaður gæti verið á ferðinni? Forsenda þess að markaðurinn sé í raun og veru brúklegur sem tæki er ekki síst að þar séu þá á ferðinni nægjanlega margir, nægjanlega dreifðir og óskyldir aðilar til þess að eðlileg sjónarmið ríki á markaðnum. Ef slíkt er fyrir hendi, þá getur einn yfirburðasterkur aðili, einn mjög öflugur aðili vissulega haft umtalsverða stjórn á hlutunum með því að beita afli sínu og það gera hinir sterku seðlabankar nágrannaríkjanna. En er Seðlabanki Íslands eitthvað í líkingu við þau tæki eða stendur eitthvað til að breyta honum þá og efla hann í þá veru? Og með hvaða hætti á það þá að gera, hæstv. viðskrh.? Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ekki þurfi einasta að stokka nánast upp þessa stofnun, Seðlabanka Íslands, og gera það með góðum fyrirvara áður en menn svo mikið sem huga að, láta sér detta í hug breytingar af þessu tagi, ég tel að það þurfi líka að endurskipuleggja stjórnkerfi Seðlabankans og það liggur við að ég leyfi mér að segja hér úr þessum ræðustóli að manna hann upp á nýtt.
    Ég held sem sagt að það sé langt í land að við séum hér á Íslandi með á hendi annars vegar þær forsendur fyrir einhverjum markaði og hins vegar þann stóra bróður eða dómara til að skakka leikinn sem er auðvitað óhjákvæmilegt ef eitthvert vit og einhver alvara á að vera í áformum um markað, raunverulegan markað sem ræður gengisskráningu og ég tala nú ekki um, ef einhver aðili á að tryggja það með afli sínu að halda jafnvægi á genginu. Þetta segi ég vegna þess að mér finnst sá misskilningur vaða uppi í þessum efnum að með því einfalda patenti að tengja krónuna við ECU, leysist bara öll vandamál og á Íslandi komist á um aldur og ævi stöðugt gengi, engin verðbólga og alheimssæla.
    En er það nú svo? Er það líklegt? Nei. Staðreyndin er sú að í sjálfu sér breytir tenging við ECU engu um stöðugleika gengisins ef forsendurnar eru ekki fyrir hendi. Það eru hinar efnahagslegar forsendur sem verða að gera stöðugt gengi mögulegt og þá geta menn hnýtt spottann við ECU eða dollar eða eitthvað annað sem þeim býður að binda trúss sitt við. Þess vegna held ég að það sé óhjákvæmilegt áður en menn fara að ræða það að skoða þær forsendur sem fyrst verður að skapa hér uppi á Íslandi til þess að unnt sé að gera þetta.
    Ég held að það væri fróðlegt, af því að ég veit að hæstv. viðskrh. hugsar margt um þessi mál, að hann reifaði kannski aðeins ítarlegar fyrir okkur hvernig menn sjá þetta þá hugsanlega fyrir sér af því að frv. sem hér er á ferðinni, er ákaflega fáort um slíka hluti. Hvernig sér hæstv. viðskrh. fyrir sér markaðinn þróast? Hvernig sér hann fyrir sér breytingar á Seðlabankanum eða þá öðrum stjórntækjum sem í þessu sambandi yrðu nýtt? Og á hve löngum tíma telur hæstv. viðskrh. raunhæft að slík þróun geti orðið ef menn ætla sér ekki út í glannaskap og vitleysu í þessum efnum?
    Ég vil taka til hliðsjónar þau miklu mistök sem að mínu mati voru gerð þegar vöxtum var skyndilega og nánast fyrirvaralaust og án nokkurs umtalsverðs undirbúnings sleppt lausum á Íslandi. Það var að mínu mati ákaflega barnaleg aðgerð og óraunsæ, enda fór illa. Við höfum í raun og veru meira og minna misst tökin á vaxtaþróun í landinu eftir að þær breytingar voru gerðar á árunum 1985--1986 sem íslenska bankakerfið og íslenski peningamarkaðurinn var á engan hátt í stakk búinn til að takast á hendur. Ekki eins og að þeim var staðið, að láta sér detta það bara í hug einn góðan veðurdag að nú væri skynsamlegt að hafa frjálsa vexti, bara svona, og þá væri allt í lagi. Menn töluðu sig upp í hita, hinir rólegustu menn eins og núv. hæstv. sjútvrh., um þá miklu kerfisbreytingu sem þarna væri að eiga sér stað í vaxtamálum á þessum tíma. En hún var ekki mjög skynsamleg, satt

best að segja. Það væri nær lagi, gæti maður hugsað sér, að núna eða á næstu árum værum við að stíga síðustu skrefin í þróun sem hefði verið tekin í áföngum á þeirri braut að losa um miðstýrðar ákvarðanir í vaxtamálum og láta einhvern markað í vaxandi mæli yfirtaka það hlutverk að ráða hér vaxtastiginu. Þá hefðum við e.t.v. sloppið að einhverju leyti við þær kollsteypur í vaxtamálum sem við erum búin að ganga í gegnum síðan þessi mislukkaða og illa undirbúna ákvörðun var tekin 1985--1986. Og því er ég að segja þetta að ég er ekki frá því að það megi finna vissar hliðstæður í þeirri kerfisbreytingu sem hér er til skoðunar, að hverfa frá fastákvörðuðu gengi með þeim hætti sem við höfum búið við, og yfir í eitthvert annað fyrirkomulag. Ég tel óðs manns æði að láta sér detta í hug að það geti gerst með farsælum hætti öðruvísi en þá á löngum tíma og með margvíslegum undirbúningsaðgerðum sem komi á undan en ekki á eftir og þá í skynsamlegum áföngum.
    En svo er ástæða til að gleyma ekki því stóra viðfangsefni í þessu sambandi, hvort svona fast gengi, föst binding krónunnar sé efnahagslega skynsamleg ráðstöfun yfirleitt, ,,überhaupt``, eins og mundi slett vera á þýsku ef maður gripi til þess einu sinni hér í þessum ræðustóli. Það er a.m.k. skárra en mörg önnur tungumál sem stundum fljóta hér með íslenskunni. ( Viðskrh.: Über alles bara.) Viðskrh. er vel að sér á þýðversku þannig að það er óhætt að eiga við hann orðastað að einhverju leyti á því tungumáli, greinilega.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að taka til umræðu og vil gera það af minni hálfu, ekki síst af því að hæstv. sjútvrh. er viðstaddur umræðuna, hvort það eru yfirleitt, a.m.k. nú og í sjáanlegri framtíð á Íslandi, þær efnahagslegu og atvinnulegu aðstæður fyrir hendi að svona breyting, yfir í það t.d. að fastbinda gengi krónunnar við ECU. Eru þær fyrir hendi? Ég hef þess vegna tekið hér með mér upp í ræðustólinn þær skýrslur sem vísar stofnanir hafa verið að birta um þetta efni og mér til mikillar ánægju er hér skýrsla frá Þjóðhagsstofnun, dagsett í september 1991, skýrsla í fallegri rauðri kápu frá Þjóðhagsstofnun til viðskrh. --- og gleður það mig að í ríkisstjórninni skuli ekki vera hættar að koma skýrslur með svona rauðri kápu þó að sá sem hér talar sé ekki þar um þessar mundir, en eins og ég veit að hæstv. viðskrh. man, komu skýrslur í rauðri kápu frá samgrn. á ákveðnu árabili. --- En í þessari skýrslu er margt býsna vel sagt að mínu mati. T.d. segir í helstu niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta, sem ég góðfúslega fæ: ,,Rétt er þó að vekja athygli á því að ef gengisstefnan er trúverðug skiptir í sjálfu sér ekki meginmáli hvort gengi krónunnar er tengt ECU eða einhverri annarri samsetningu viðskiptamynta. Hins vegar eru pólitísku rökin sem felast í því að æskilegt sé að Ísland tengist Evrópu nánari böndum í framtíðinni.``
    Þetta fannst mér mjög athyglisverð setning, í og með vegna þess að hún kemur frá Þjóðhagsstofnun og það er auðvitað nokkuð kúnstugt að Þjóðhagsstofnun skuli vera að færa hér fram hin pólitísku rök í máli af þessu tagi. Að vísu upplýsir Þjóðhagsstofnun réttilega að í sjálfu sér sé þetta rugl um tengingu við ECU eða SDR ekki málið heldur það að gengisstefnan sjálf sé trúverðug og forsendurnar séu fyrir hendi. Þá er það bara tækniatriði hvort menn kjósa að binda tauminn við það mikla skip, ECU, eða SDR-prammann eða eitthvað annað. En það er þetta með pólitísku rökin. Skyldi það valda áhuga miklum sem upp hefur skotið kollinum víða á síðustu mánuðum að rjúka til og tengja aumingja litlu íslensku krónuna við þessa stóru myntheild Evrópu, að menn sjái í því eitthvert pólitískt grand? Þá held ég nú að vissara sé að fara að biðja guð að hjálpa sér, ef menn eru virkilega á þeim brautum að vera að hugsa um slíka hluti, pólitíska hluti, en ekki efnahagslega eða viðskiptalega.
    Ég hlýt því að spyrja --- og er nú ekki skaði að hafa hér fyrrum yfirmann þessarar stofnunar sem er þar vel húsum kunnugur í gervi hæstv. viðskrh.: Hvað er hér verið að fara? Hvað er Þjóðhagsstofnun að gefa í skyn með þessari setningu um hin pólitísku rök?
    En þeir hjá Þjóðhagsstofnun segja að aðalatriðið sé að gengisstefnan sé trúverðug og þeir segja að fastgengisstefna --- sem það er auðvitað að binda krónuna við einingu eins og til að mynda ECU sem væntanlega verður ekki leyft að hreyfast mikið í framtíðinni, það er þar með um leið fastgengisstefna, ekki bara binding við eitthvað heldur felst líka í aðgerðinni nánast að festa gengi íslensku krónunnar --- þeir segja: Fastgengisstefnan verður hins vegar ekki trúverðug nema efnahagsleg skilyrði séu fyrir hendi sem gera kleift að framfylgja henni. Skilyrðin eru einkum þessi --- og síðan er það talið upp í löngu máli að stjórn efnahagsmála þurfi að gjörbreyta. Þar er í raun og veru sagt að það kerfi sem við búum við í ríkisfjármálum og peningamálum og við alla stjórnun efnahagsmála sé á engan hátt undir það búið að taka á sig slíka breytingu. Ég þarf ekki að lesa í gegnum þá röksemdafærslu Þjóðhagsstofnunar, svo sjálfsagt mál er það sem þar stendur að þeirra mati að þeir fullyrða ósköp einfaldlega: Stjórn efnahagsmála þarf að gerbreyta.
    Þeir segja í öðru lagi: Í því skyni að skapa tiltrú á gengisstefnunni er brýnt að breyta fyrirkomulagi gengisskráningarinnar. Hverfa þarf frá því fyrirkomulagi að Seðlabankinn tilkynni einhliða verð hverrar myntar eins og nú er gert og komi á fót markaði með erlendan gjaldeyri, það ræddi ég hér áðan. Og þeir telja að það yrði að vera hlutverk Seðlabankans að sjá til þess með óbeinum aðgerðum, m.a. kaupum og sölu á gjaldeyri og vaxtastefnunni, að gengi krónunnar héldist innan þeirra marka sem stjórnvöld ákveða.
    Þetta má allt telja eðlilegt og í samræmi við þær hugmyndir sem ég var að lýsa hér áðan að hlytu að verða að liggja til grundvallar ef svona kerfisbreyting ætti að verða. En þeir segja fleira hjá Þjóðhagsstofnun. Þeir eru með þriðja punkt í þessum helstu meginforsendum og skilyrðum sem fyrir hendi þurfa að vera og ég ætla að leyfa mér að vekja athygli hv. alþm. dálítið á þeim punkti. Þeir segja: ,,Að baki ákvörðuninni um almenn laun og kjör verður að liggja raunsætt mat á efnahagslegum forsendum. Í þessu felst í stórum dráttum að almennar launabreytingar (í krónum talið)`` --- nú orðið er vissara sem sagt að taka það fram við hvaða gjaldmiðil er átt, þó um laun uppi á Íslandi sé verið að fjalla --- ,,verða að vera í hátt við þróun þeirra í helstu viðskiptalöndunum ef hagvöxtur er svipaður. Þegar skilyrði þjóðarbúsins eru óhagstæð er hins vegar óhjákvæmilegt að almenn laun hækki minna en í viðskiptalöndum og jafnvel lækki í krónum talið ef þjóðarbúið hreppir mikinn andbyr.``
    Ég hlýt að vekja athygli hv. þm. á því sem hér er verið að segja. Það er í raun og veru verið að segja að þetta yrði mjög öflugt tæki, mjög öflug svipa á launamenn í landinu til þess að gæta hófs, svo ekki sé nú meira sagt, í kaupkröfum. Fast gengi og tenging krónunnar við ECU mundi setja nýjan og þrengri ramma utan um kjarasamninga í landinu og ákvarðanir um kaup og kjör heldur en fyrir hendi er í dag.
    Ég veit í sjálfu sér ekki hvað maður á að fara langt út í þessa umræðu, hversu alvarlega maður á að taka þessi skilaboð en þau eru þarna greinilega fyrir hendi og þau hljóta að hafa vakið athygli einhverra fleiri en mín. Það væri til að mynda ástæða til að spyrja að því hvað verkalýðshreyfingin hefur um þennan boðskap að segja og hver hennar afstaða verður til þessara hugmynda m.a., ef þessi skilningur er lagður í þetta, með í bland við hin hreinu peningalegu rök. Og þá er hér komið tvennt inn í myndina til viðbótar gengis- og peningamálunum sjálfum sem ástæða er til að íhuga. Hið fyrra eru hin pólitísku rök um tenginguna við Evrópu og hið síðara eru þeir klafar, sá rammi sem hér yrði að mati höfunda skýrslunnar í raun verið að setja utan um verkalýðshreyfinguna og launafólk í landinu. Með öðrum orðum: Það yrðu launin í landinu sem yrðu þá að taka að sér það hlutverk að jafna þær sveiflur sem peningakerfið og gengisákvarðanakerfið réði ekki

við í hinu nýja fyrirkomulagi. Til þess að hægt yrði að festa gengið og halda því innan settra marka, þegar sveiflur væru í afkomu þjóðarbúsins, yrðu launamenn að gjöra svo vel að taka það á sig að lækka þá alveg sérstaklega hjá sér kaupið umfram verkafólk í nálægum löndum til þess að markmiðin um gengisfestuna næðu fram að ganga.
    Nú kemur viðskrh. sjálfsagt og segir að ég sé ekki mikill spámaður að skilja það ekki að þegar minna er til skiptanna þá verði bara að skipta minna o.s.frv., en það er ekki bara það sem málið snýst hér um, þetta er líka spurningin um það með hvaða hætti sveiflur, áföll eða ávinningar eru tekin á efnahagskerfið í heild sinni og ég get ekki annað séð en hér sé í raun verið að boða að það hljóti að verða launamenn, einir og sjálfir, sem á sínu baki beri þær byrðar.
    Það eru að vísu skemmtilegir kaflar, satt best að segja, hér á bls. 3 þegar kemur svo að trúverðugri gengisstefnu og starfsskilyrðum sjávarútvegsins af því að höfundar skýrslunnar gera sér grein fyrir því að það er ekki trúverðugt að fjalla um þessa hluti mikið hér uppi á Íslandi nema taka eitthvað á því hvernig þetta komi við sjávarútveginn. Reyndar er rétt að vekja athygli á lymskulegri setningu efst á bls. 3 í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar, sem slær eiginlega botninn í það sem ég var að ræða áðan um viðhorf til samninga og kjaramála í tengslum við fastgengi, en þar segir berum orðum, með leyfi forseta, og vísar til alls þess sem á undan er gengið um vinnumarkaðinn og gengi krónunnar:
    ,,Af þessu má sjá að mun meira raunsæis yrði að gæta á vinnumarkaði en við óbreytta stefnu.``
    Það er nefnilega það. Það eru alveg skýr skilaboðin og boðskapurinn sem í þessu felst. Kaupið hefur verið allt of hátt á köflum, það er vandamálið og menn hafa verið óraunsæir og því verða menn að semja um lægra kaup, þá væntanlega í sjávarútveginum og er kannski verið að segja það að starfsfólk í fiskvinnslu hafi haft of hátt kaup á köflum undanfarin ár og þess vegna hafi í raun og veru ekki verið hinar réttu fræðilegu forsendur fyrir föstu gengi.
    Ég hverf þá að sjávarútveginum og fastgenginu og segi, eins og í skýrslunni, að augljóst er að þetta mundi þýða miklar breytingar á starfsskilyrðum sjávarútvegsins. Í raun og veru segja höfundar skýrslu Þjóðhagsstofnunar að trúverðug gengisstefna gjörbreyti starfsskilyrðum sjávarútvegsins þannig að ekki yrði unnt að taka tillit til afkomu í sjávarútvegi, hvort hún væri góð eða miður góð, hvort afli væri að vaxa eða minnka, hvernig okkur vegnaði á mörkuðum. Allt yrði það að berast uppi með öðrum hætti en þeim að breyta gengi krónunnar.
    Síðan er farið mörgum orðum um það hversu ógæfulega til hafi tekist á undanförnum árum, að menn hafi jafnan gripið til þess ráðs að fella gengið þegar illa hafi gengið. Síðan ef afurðaverð og afli hafi aukist og tekjur hafi aukist, þá hafi kostnaðarhækkanir innan lands yfirleitt elt uppi þann bata í sjávarútveginum. Og þegar svo aftur hafi syrt í álinn hafi menn ekki mátt við neinu, gengið hafi orðið að fella á ný o.s.frv. Þetta finnst mér að vísu vera dálítið einfölduð söguskoðun. Ég tel út af fyrir sig að það megi vel skoða ákveðin tímabil í sögu liðinna ára og þá ekki síst undangenginna ára þar sem mönnum hefur einmitt tekist að komast þó nokkuð upp úr þessu fari og ég nefni að sjálfsögðu síðari hluta árs 1989 og allt árið 1990. Þá voru að vísu hagstæð ytri skilyrði. Þá var búið að laga raungengið til. En það sem mönnum tókst þá fyrst og fremst var að þetta síðasta gerðist ekki sem Þjóðhagsstofnun talar um. Innlendu kostnaðarhækkanirnar eltu ekki uppi batann um alllangt skeið og raungengi krónunnar hélst af þeim ástæðum svipað í alllangan tíma, a.m.k. á árinu 1990.
    En svo kemur nú aðalspekin í skýrslunni hvað sjávarútveginn snertir og þá er alveg sérstaklega æskilegt að hæstv. sjútvrh. leggi eyrun við því að þeir höfundarnir eru með það á hreinu hvað þurfi að gerast í íslenskum sjávarútvegi áður en þessi mikla kerfisbreyting geti gengið í gegn. Sem sagt: ,,Ljóst er að sjávarútvegur þarf að vera undir það búinn að taka á sig miklar sveiflur í afkomuskilyrðum verði gengi krónunnar fest. Þetta kemur skýrt fram í athugunum Þjóðhagsstofnunar sem gerð er grein fyrir í viðauka hér á eftir. Því er líklegt að beita verði sveiflujöfnunarsjóðum og skattalögum til að gera greininni kleift að taka á sig þessar sveiflur. Jafnframt verður hagstjórn að sjálfsögðu að miða að sama marki.``
    Þeir segja síðan í áframhaldi, þessir snillingar, að til þess að þetta allt saman megi verða, þá sé alveg nauðsynlegt að reka sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar með góðum hagnaði í sæmilegu árferði þannig að greinarnar geti myndað þær innstæður, þá sjóði, það eigið fé sem til þurfi til að bera uppi sveiflurnar og komast yfir lægðirnar þegar þær ganga í garð. Öll getum við sjálfsagt verið sammála um að þetta sé hið æskilega, að sjávarútvegurinn og útflutningsgreinarnar fái tímabil þar sem þær eru reknar með góðum hagnaði um alllangt skeið og verði þannig í stakk búnar til þess að þola þessar sveiflur. Og þá er alveg sjálfsagt mál að skoða það og spyrja: Hvernig stendur sjávarútvegur á Íslandi í dag í þessu sambandi? Er hann í góðum færum til þess að mynda sjóði, hagnað og taka á sig það sem til þarf til næstu missira litið? Svarið er nei. Það er hann ekki. Sjálfsagt er enginn sá aðili sem mest þyrfti á því að halda í raun fær um það, þ.e. þær atvinnugreinar sem yrðu verulega háðar, að breyttu breytanda, sveiflum af því tagi sem sjávarútvegurinn býr við eða þá aðrar greinar sem mæta kostnaðarsveiflum af öðrum tilefnum, t.d. ferðaþjónusta sem að sjálfsögðu er líka háð því hvernig gengi krónunnar er skráð.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. ekki síður en hæstv. viðskrh. gefi eitthvað upp um áform ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi áður en frv. með galopnum heimildum til handa Seðlabanka og ríkisstjórn til að gera það sem þessum aðilum sýnist, þess vegna þegar á næsta ári eða hinu þar næsta, fer hér í gegnum þingið. Ég segi a.m.k. fyrir mitt leyti að ég vil gjarnan vita hvort mönnum dettur það í hug, eins og í raun og veru er boðað hér í skýrslunni að kæmi til greina, að gera þessa breytingu strax að einu til tveimur árum liðnum. Að vísu er það niðurstaða skýrslunnar hvað hina nánustu framtíð snertir, eins og sagt er á bls. 4, að flest rök hníga því að því --- eins og þetta er fallega orðað á íslensku --- ,,flest rök hníga því að því að ekki sé tímabært að tengja íslensku krónuna við ECU.`` Svo segir: ,,Þótt þannig megi draga í efa að ECU tenging krónunnar sé tímabær virðist margt mæla með því að gengisstefnan verði við það miðuð að slík tenging verði möguleg innan eins til tveggja ára, sé það talið æskilegt af ,,pólitískum`` [innan gæsalappa sem ég setti í mitt eintak] og efnahagslegum ástæðum.``
    Aftur skýtur pólitíkin upp kollinum í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun. Og ég spyr nú bara: Er Þjóðhagsstofnun orðin einhver ,,politburó`` hjá ríkisstjórninni? Hvað er hún að skipta sér af pólitík? Hvað eru pólitísk ákvörðunaratriði og álitamál að þvælast inn í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun? Var hún beðin að leggja pólitískt mat á það hvort það væri fyrir sjávarútveginn annars vegar og hins vegar gengismálin og varðandi Evrópusambúðina, skynsamlegt að festa gengi krónunnar og þá tengja það jafnvel við ECU? Ég vil fá að vita hvað hér er á ferðinni. Hvaða pólitík er þetta sem þarna er verið að tala um? Hvaða pólitísku rök eru það sem eru talin á undan hinum efnahagslegu sem gera það að verkum að höfundar skýrslu Þjóðhagsstofnunar eru að velta því fyrir sér að til greina geti komið að fastbinda og tengja gengi íslensku krónunnar við ECU? Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Er þetta hans pólitík, hæstv. sjútvrh.? Er það kannski eitthvað sem við megum vænta að komi upp úr endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, að þessar breytingar verði gerðar á starfsskilyrðum íslensks sjávarútvegs? Vildi hæstv. sjútvrh. vera svo vinsamlegur að svara því hér í umræðunum hvenær hann telur líklegt að íslenskur sjávarútvegur verði þannig á sig kominn að hann fullnægi þeim skilyrðum sem höfundar skýrslu Þjóðhagsstofnunar telja að hann þurfi að gera áður en hægt sé að tala um að festa gengi krónunnar?
    Ég er svo, hæstv. forseti, nokkurn veginn búinn að rökstyðja það nægjanlega, held ég, í mínu máli og með mínum spurningum að það er mín afstaða og mitt sjónarmið að það sé með öllu ótímabært og vægast sagt óskynsamlegt að slá nokkru föstu um það að kerfisbreyting af þessu tagi geti komið til sögunnar á næstu árum. Það vantar því miður --- því miður segi ég --- nánast allar forsendurnar til þess sem taldar eru upp. Samt gera menn gælur við að þetta geti gerst á einu til tveimur árum. Ætla menn að koma hérna upp virkum samkeppnismarkaði þar sem gengi er selt og keypt? Ætla menn að gerbreyta Seðlabankanum, endurskipuleggja hann og endurmanna? Ætla menn að láta sjávarútveginn hagnast þannig að hann eigi digra sjóði, sé orðinn stöndugur, eigi mikið eigið fé og þoli, ef því er að skipta, djúpar sveiflur í afkomu á einu til tveimur árum? Ja, guð láti gott á vita, en sýnið þið mér fram á það hvernig það á að gerast á svona skömmum tíma. Ef það er ekki raunsætt og líklegt að slíkt gæti orðið, þá eiga menn ekki að vera að gera gælur við þessa hluti með þeim hætti sem a.m.k. hér er verið að gera. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld tali mjög skýrt í þessum efnum því að hér eru mjög mikil og viðkvæm hagsmunamál á ferðinni sem geta haft afgerandi áhrif á ákvarðanir stjórnenda fyrirtækja og áætlanagerð og ákvarðanatöku í heilum atvinnugreinum og það er ekki hægt að vera með jafnafdrifaríka hluti og fyrirkomulag á gengisskráningu krónunnar í einhverri loftkastalagerð og gera gælur við það að gjörbreyta þar tilhögun mála, jafnvel bara í næstu framtíð.
    Af því að ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur ágætar tilhneigingar til raunsæis þá vænti ég ekki síður góðs af svörum hans í þessum efnum og ég held að það væri öllum fyrir bestu áður en þessi mál komast lengra að ríkisstjórnin gerði okkur skýra grein fyrir viðhorfum sínum og áformum í þessum efnum af því að þetta frv. er eins úr garði gert og raun ber vitni að í því er verið að veita galopnar heimildir til þess að fara með þessi gengisskráningarmál nánast eins og fara gerist.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, tímans vegna, af því að ég vil ekki lengja umræður meira en óhjákvæmilegt er, að fara ítarlega yfir í skýrslu Seðlabankans sem er allmikil að vöxtum um þetta sama efni frá sama tíma nánast, septembermánuði. En þar er að mörgu leyti að finna svipuð viðhorf í þessum efnum og sett eru fram í hinni rauðu skýrslu Þjóðhagstofnunar og hún varð mér meira að yrkisefni af því að hún er öllu skýrar fram sett og á samþjappaðra máli og niðurstöðurnar dregnar saman í styttri og skýrari texta heldur en er kannski í þessu mikla lesmáli Seðlabankans. Meginniðurstaðan er þó sú sama, ef ég hef lesið mig rétt í gegnum þessa pappíra, að tenging af því tagi sem menn hafa verið með milli tannanna undanfarnar vikur og mánuði sé tæpast raunhæf að óbreyttu, núna eða á næstunni. Út af fyrir sig er ekki nokkur deila um það af minni hálfu við þessa spekinga enda væri það nú skárri hofmóðurinn ef ég leyfði mér að standa í ágreiningi við þá um það að til þess eru ekki forsendur að taka slíka ákvörðun nú. Þess vegna vil ég fyrst og fremst spyrja um hvað menn ætlast fyrir í þessum efnum og hvaða tíma menn sjá fyrir sér.
    Nú er enn ein óvissan hangandi yfir oss eða var a.m.k. þangað til kl. 7 í kvöld nema ef vera skyldi að loftið hafi hreinsast vegna kvöldfréttanna um uppákomurnar í Evrópska efnahagssvæðinu. Það er auðvitað sú staðreynd sem við yrðum að taka mið af ef það er ætlunin að keyra okkur inn í það með góðu eða illu. Þá mun auðvitað margt breytast í þessum efnum og við neyðast til þess, nauðugir viljugir, að gera hér ýmsar ráðstafanir vegna þess frelsis í fjármagnsviðskiptum og hreyfingum og fjárfestingum sem þar með kæmi yfir oss og mundi að sjálfsögðu líka óhjákvæmilega hafa margvísleg áhrif á skipan gengismála.

    En ég tel að við eigum að reyna eftir því sem kostur er að skoða þessa hluti og ræða sjálfstætt á okkar forsendum og það hef ég verið að reyna að gera. Bara eins og við sem sjálfstæð þjóð séum á okkar eigin sjálfstæðu forsendum að taka ákvarðanir um það hvernig við ætlum að haga þessum málum á næstu árum. Ég tek það fram að lokum til að fyrirbyggja allan misskilning ef einhverjum dettur það í hug að ég sé talsmaður algerlega óbreytts ástands í þessum efnum um aldur og ævi. Ég er ekki að flytja þann málstað hér. Ég tel að sjálfsögðu að við þurfum að huga að því með hvaða hætti við aðlögum okkar viðskiptakerfi á þessu sviði jafnframt öðrum að nýjum tímum og breyttum háttum. Við eigum að reyna að fylgja eftir í frjálsræðisátt og í átt til þeirra breytinga sem eru að verða í viðskiptakerfum umhverfis okkur en við Íslendingar verðum samt sem áður að muna eftir og vera raunsæ gagnvart því hver við erum, hvar við erum og hvers konar sérhæft lítið hagkerfi og atvinnulíf við þurfum hér að halda utan um. Þess vegna held ég að það sé í raun og veru geysilega stór og afdrifarík ákvörðun, sérstaklega hvað útflutningsatvinnuvegina snertir sem hér er til umræðu, og alveg nauðsynlegt að hún einkennist af raunsæi og ábyrgð en menn geri ekki gælur við einhverjar fínar formúleringar utan úr heimi um frjálst gengi og markað og ECU-tengingar eða hvað það nú er sem menn fá inn í höfuðið. Heldur horfi menn á þetta raunsætt og fyrst og fremst út frá okkar eigin hagsmunum.
    Ég vil sem sagt hafa allan fyrirvara á um áform ríkisstjórnarinnar gagnvart bæði aðferðum og tímasetningum í þessu efni, einkum og sér í lagi ártalinu 1993. Bæði vegna þeirrar stöðu sem uppi er í Evrópusamningamálunum og hefði verið ástæða til ef hæstv. utanrrh. er hér einhvers staðar í nágrenni við landsteinana að hann kæmi sem fyrst til þings þannig að við gætum fengið upplýsingar frá honum sjálfum og fréttir um þá atburði sem þar virðast hafa átt sér stað í samningunum og gætu svo sannarlega haft hér áhrif eftir því á hvern veginn fer með samningana um hið Evrópska efnahagssvæði og aðild okkar Íslendinga að þeim.
    Herra forseti. Ég held að ég sé þá nokkurn veginn búinn að tæma það sem ég vildi ræða. Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra og minni á þá sem lýtur að hinu skringilega orðalagi 2. málsl. 2. gr. og spyr hæstv. viðskrh. hvort orðhagir menn á hans heimili, vinnumenn hans í viðskrn., geti ekki reynt að koma sér saman um skiljanlegra orðalag heldur en í þessari setingu: ,,Heimilt er að ákveða að gengi krónunnar miðist við einn erlendan gjaldmiðil, samsettan gjaldmiðil, eins og ECU eða SDR, eða meðaltal gjaldmiðla, ýmist með eða án fráviksmarka.`` Forseti, ég hef lokið máli mínu.