Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um umræður á Alþingi um þyrlukaup

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 13:40:00 (1280)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég get vel skilið hv. þm. sem talaði áðan en það er hins vegar stór spurning hvort umræða um þetta mál eigi ekki fremur heima inni í Sjálfstfl. þar sem þeir geta leyst mál sín. Hins vegar er það áhyggjuefni hvernig hæstv. forsrh. talar til þjóðarinnar í fjölmiðlum og inni á þingi og ég á þar ekki síst við þau ummæli sem hann lét falla í gær varðandi stjórn Byggðastofnunar og þá þingmenn sem þar eiga sæti. Ég ætla að leyfa mér að vitna orðrétt í það sem hæstv. forsrh. sagði. Hann hafði haldið því fram að stjórn Byggðastofnunar hefði farið út fyrir lög og hann segir:
    ,,Ég er ekki þar með að segja að það sé um refsiverða hluti að ræða en það hefur verið farið út fyrir þann lagaramma sem Byggðastofnun var settur.``
    Þetta mál var rætt hér í gær og ég kveð mér hljóðs til þess að koma þeirri tillögu á framfæri við hv. allshn. að hún nýti sér nú 26. gr. þingskapalaga, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar. Um slík mál getur nefnd gefið þinginu skýrslu sbr. 31. gr.`` Nú skora ég á hv. allshn. að rannsaka ummæli hæstv. forsrh. og gefa þinginu síðan skýrslu um niðurstöður sínar.