Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um umræður á Alþingi um þyrlukaup

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 13:45:00 (1283)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt í vana minn að ræða undir liðnum um þingsköp en hér er komið afar óvenjulegt mál. Ég hlýt að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að ég man ekki eftir því í minni löngu setu í ríkisstjórnum að ráðherra hafi nokkurn tíma getað neitað því að verða við ósk þingmanna um umræðu eins og hér er farið fram á nema þá að fyrirspyrjandi hafi dregið beiðni sína til baka sem mér heyrist að sé alls ekki.
    Og ég vil, fyrst ég er staðinn upp, taka undir það sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson sagði áðan. Ég skil vel sárindi hans. Ummæli hæstv. forsrh. í fréttum í gær voru satt að segja afar óvenjuleg. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt annað eins. Ég held að allir viti að hv. þm. hefur lengi barist fyrir þyrlukaupum, a.m.k. ein tvö ár sem ég kannast vel við og alveg sérstaklega á síðasta vetri. Þetta er ekki nýtt hjá honum. Hann hefur barist ötullega fyrir því að þessi öryggistæki væru til í landinu og mér finnst þau tilmæli hv. þm. til forsrh. að hann biðjist fyrirgefningar afar eðlileg og þannig mætti þá leysa málið.