Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um umræður á Alþingi um þyrlukaup

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 13:57:00 (1286)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Að mörgu leyti er þetta heldur dapurleg umræða sem fram fer. Að því er varðar þyrlukaupamálin sérstaklega held ég að eðlilegast væri auðvitað að forustumenn flokkanna á Alþingi tækju sig saman um að taka á því máli og leysa það núna. Um það á ekki að þurfa að ræða frekar. Ég skora á leiðtoga stjórnmálaflokkanna, sem hér eiga fulltrúa, að taka sig saman um það mál nú þegar. Ég vil einnig segja að ég skil vel sárindi hv. 5. þm. Reykv. sem hefur barist fyrir þessu máli um langt skeið. Ekki meira um það.
    Hitt, virðulegi forseti, sem ég vil nefna, er að hér er að eiga sér stað atburður að því er varðar túlkun á þingsköpum sem er mjög alvarlegur og mjög óvenjulegur, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi sá að samkvæmt þingsköpum á þingmaður rétt á því að taka fyrir mál utan dagskrár í hálftíma ef hann svo kýs og tilkynnir með réttum fyrirvara. Það getur enginn tekið þann rétt af þingmanni. Og ég segi: Það er beinlínis hættulegt fyrir þingsköpin, framkvæmd þeirra og þingræðið, að þingmanni sé neitað að taka upp mál utan dagskrár með þessum hætti ef hann óskar eftir því og gerir það með réttum formlegum hætti. Ég tel mjög alvarlegt að neita slíku. Hitt, sem ég tel alvarlegt og hættulegt fordæmi, er að forsetinn taki að sér að hafa milligöngu um samtal við viðkomandi ráðherra. Það kannast ég ekki við að hafi gerst þann tíma sem ég gegndi ráðherraembætti og ég geri ekki ráð fyrir að það hafi gerst. Yfirleitt ganga hlutirnir fyrir sig með þeim hætti að viðkomandi þingmaður talar við viðkomandi ráðherra. Það er hin eðlilega boðleið.
    Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta, hvort ekki er hugsanlegt að gert verði hlé á þingstörfum í nokkrar mínútur til að skapa möguleika á því að ná samstöðu um fundahöldin í dag og gefa forseta þannig kost á að endurskoða afstöðu sína. Ég leyfi mér að gera það, ég fer fram á það persónulega í mínu nafni, sem þingmaður hér, við forseta að forsetinn setjist niður ásamt forustumönnum þingflokkanna og þessi mál verði skoðuð aðeins. Þessar tvær túlkanir ganga ekki, þær eru brot á venjum og þær eru hættulegt fordæmi, því miður, virðulegi forseti, ef þær fá að standa. Ég heiti því á okkar góða forseta að taka þessa bón til athugunar nú þegar.