Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:07:00 (1295)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Í gærkvöldi bárust þau alvarlegu tíðindi að hlutir, sem menn hafa gengið út frá í umræðum um drög að samningi varðandi hið Evrópska efnahagssvæði, væru með öðrum hætti en látið hefur verið í veðri vaka undanfarnar vikur og enn fremur skýrast þessi mál af fréttum fjölmiðla og samtaka í sjávarútvegi í dag. Tímans vegna er ekki unnt að gera ítarlega grein fyrir því sem er á ferðinni og ég mun því að mestu leyti nota tíma minn til að beina spurningum til hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. Í grófum dráttum er það að gerast að forsendur þeirra samninga hvað sjávarútveginn snertir, eins og þær hafa verið kynntar af hæstv. utanrrh., virðast ekki standast þar sem Evrópubandalagið hafi í veigamiklum atriðum hafnað því sem hæstv. utanrrh. hefur lagt á borðið sem nánast ígildi samninga hér heima. Þannig segir í fréttatilkynningu frá samtökum atvinnurekenda í sjávarútvegi sem barst nú um hádegisbilið, með leyfi forseta:
    ,,Nú hefur hins vegar komið í ljós að veigamiklar upplýsingar í tengslum við sjávarútvegsmál sem gefnar voru sem forsendur samkomulagsins`` --- ég endurtek: sem gefnar voru sem forsendur samkomulagsins --- ,,eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum.``
    Hér eru mjög alvarlegar fullyrðingar á ferð sem settar eru fram af samstarfsnefnd samtaka sjávarútvegsins eftir að hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. hafa átt með þeim fundi til að upplýsa þá um málið. Niðurstaða þessara samtaka er í stuttu máli sú, eins og segir í samþykktinni frá í dag: ,,Þess vegna verður samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi að falla frá stuðningi við samkomulagið, þ.e. drög að samkomulagi um EES, þangað til allar upplýsingar liggja fyrir í rituðu máli um einstök samningsatriði.``
    Hér eru því mjög alvarleg tíðindi á ferðinni í þessu stóra og afdrifaríka máli og það er óhjákvæmilegt að leggja þegar í stað spurningar fyrir hæstv. ráðherra í því sambandi. Einnig er að mínu mati óhjákvæmilegt að betri tími gefist til að ræða málið mjög fljótlega.
    Ég spyr því í fyrsta lagi hæstv. utanrrh.: Hvernig gat þetta gerst miðað við þá kynningu á málinu sem hann hafði hér á Alþingi bæði 16. okt. og eins 23. okt. þegar hann staðfesti þær upplýsingar sem fyrir höfðu legið frá því í sumar um skipti á veiðiheimildum þar sem 2 / 3 hlutar 3.000 tonna karfaígildiskvóta skyldu vera langhali?
    Í öðru lagi: Er þess að vænta að fleira af þessu tagi geti komið fram á næstunni? Eru líkur á að þvílíkur Viðeyjarfrágangur sé á fleiri hlutum í þessari samningagerð?
    Í þriðja lagi hlýt ég að spyrja bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh.: Breytir þetta áður boðaðri afstöðu ríkisstjórnarinnar? Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins í dag er ágreiningur innan hæstv. ríkisstjórnar um þetta mál þannig að hæstv. sjútvrh. er hikandi gagnvart samkomulaginu í ljósi þessara breytinga en hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. vilja lúffa. (Forseti hringir).
    Ég spyr í fjórða lagi og lýk senn máli mínu, virðulegur forseti: Stendur til enn eins og fullyrt er í fjölmiðlum í morgun að undirrita þetta samkomulag af Íslands hálfu á morgun? Hefur samninganefndarmaður Íslands fengið ótakmarkað umboð frá hæstv. utanrrh. til

að undirrita samningana þrátt fyrir þessi alvarlegu tíðindi og þrátt fyrir það að samtök í sjávarútvegi hafi dregið með formlegum hætti til baka stuðning sinn við samninginn?
    Í fimmta lagi spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvers vegna hefur utanrmn. og Alþingi ekki verið greint frá þessari stöðu í málinu þó samkvæmt fjölmiðlum um nokkurra vikna skeið hafi staðið reiptog um þetta atriði? Þó var þetta dagskrárefni á fundi hv. utanrmn. sl. mánudag. (Forseti hringir.)
    Virðulegur forseti. Tímans vegna get ég ekki rökstutt mál mitt betur en hygg að þessi tilraun mín segi allt sem segja þarf um það hversu óraunhæft það er í raun og veru að ætlast til þess að svona stórt og afdrifaríkt mál sé rætt við þessar aðstæður hér á þinginu.