Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:09:00 (1296)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Fyrst vil ég taka það skýrt fram að því er varðar kynningu á samningsniðurstöðum í Lúxemborg að það var ljóst að frágangur að því er varðaði þennan tvíhliða samning lá ekki fyrir. Það sem þá lá fyrir var tilboð af Íslendinga hálfu sem hafði staðið lengi. Það er því ekki til að dreifa að upplýsingum hafi verið haldið leyndum. Við vissum það þá að þessi tvíhliða samningur var ófrágenginn. Við vissum hins vegar hvert var tilboð Íslendinga, það hafði löngu verið kynnt og rætt, og við vissum jafnframt á þeim tíma að áður en samkomulagsumræðum lauk var auðheyrt á aðalsamningamönnum EB að þeir höfðu uppi efasemdir að því er varðaði þann þáttinn sem snerti langhala. Þetta kom fram á minnisblaði, sem hæstv. utanrrh. kynnti, þar á meðal hagsmunaaðilum og dags. er 22. okt. Fram undan var þess vegna frá 22. okt. að ganga frá þessum samningi og að sjálfsögðu var ekki hægt að slá neinu föstu um niðurstöður hans fyrir fram.
    Hvað hefur þá breyst? Það hefur ekkert breyst að því er varðar öll meginatriði þess máls, þ.e. það tilboð Íslendinga um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum allt að 3.000 tonn karfaígildi og í staðinn fái Íslendingar allt að 30.000 tonn af loðnu. Ég vil taka það skýrt fram líka, að allt sem varðar útfærsluna á þessu tilboði okkar, svo sem um heimildir til sérstakra skipa, útilokun skipategunda, að veiðarfæri séu samkvæmt íslenskum reglum, eftirlitsmenn um borð á þeirra kostnað o.s.frv., allt er það óbreytt.
    Það eina sem hefur gerst er þetta: Samningamenn EB, og þá sjávarútvegsdeildin sem og auðvitað ,,sjávarútvegslobbí`` einstakra landa, hafa við nánari skoðun sagt: Þið hafið ekki getað fært á það sönnur sem niðurstöður af hafrannsóknum að þessi fiskstofn sé til í veiðanlegu ástandi. Það sem togstreitan stendur því um að því er þetta atriði varðar er að það er krafa frá Evrópubandalaginu um að frá árinu 1993 verði um að ræða karfa en síðan kemur orðalag sem kveður á um að það skuli síðan endurskoðað, því að hér er um að ræða rammasamning sem endurskoðaður er árlega, það skuli síðan endurskoðað í ljósi niðurstaðna slíkra rannsókna. Ég vísa því á bug fyrstu spurningu hv. þm. um það að eitthvað hafi skotist að því er varðar kynningu málsins.
    Að því er varðar spurninguna um hvort vænta megi fleiri breytinga, þá verður þeirri spurningu ekki svarað með afdráttarlausum hætti. Það er verið að vinna að útfærslu á texta samningsins, aðalsamningsins, fylgiskjala og þessa tvíhliða samnings.
    Breytir þetta afstöðu ríkisstjórnarinnar? Svarið við því er nei. Stendur til að undirrita á morgun? Svarið við því er nei. Hefur aðalsamningamaður fengið umboð til undirritunar? Svarið við því er nei. Hann hefur ekki fengið það og staða málsins er núna sú að af hálfu Evrópubandalagsins sjálfs hefur með vísan til þess kafla samningsins sem fjallar um Evrópubandalagsdómstólinn verið efnt til eins konar samráðsfunda milli framkvæmdastjórnar og dómara EB í dómstólnum. Þeim viðræðum lauk á þriðjudag, þeim viðræðum lauk án niðurstöðu þannig að nú eru þær upplýsingar fyrir hendi að það mál verði í umfjöllun innan EB allt fram að 13. des. Með öðrum orðum gefst rýmri tími til að skoða endanlegan texta í þessum málum.