Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:22:00 (1301)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Þetta er nú eflaust ekki síðasta umræðan sem verður af tilefni

svipuðu og hér er komið upp. Rangar upplýsingar og blekkingar sem eru viðhafðar til þess að reyna að koma því á framfæri við þjóðina að hér hafi fengist allt fyrir ekkert í þessum samningi.
    Menn gagnrýna eðlilega það sem hér kemur fram varðandi úrslitakosti Evrópubandalagsins, eins og fréttamiðlar segja, fyrir því að staðfesta þennan samning. En það er fleira en spurningin um samsetningu þessara 3.000 tonna af karfaígildum sem snertir fiskimálasamninginn, tvíhliða samninginn, og það er spurningin um loðnuna. Þetta eru kallaðar gagnkvæmar veiðiheimildir, skipti á veiðiheimildum þar sem Íslendingar ætla að framselja 3.000 tonn af karfaígildum fyrir 30.000 tonn af loðnu. En það vill bara svo til að þessa loðnu hefur Evrópubandalagið aldrei veitt síðan samningur var gerður 1989 um skipti á loðnustofninum og þessi loðna hefur fallið í hlut Íslendinga án þess að þurft hafi að borga þar fyrir. Þetta hef ég áður dregið hér fram í þinginu og ég vil nefna tölur.
    Á síðustu þremur vertíðum hefur meðalhlutur Íslendinga í veiðum af úthlutuðum loðnustofni verið 88%. Á vertíðinni 1988--1989 var hlutfallið 88,8%. 1989--1990 82,4% og 1990--1991 91,2% --- á meðan Ísland átti að fá í sinn hlut 78% af stofninum. Við keyptum svolítið af loðnukvóta af Grænlendingum á þessu tímabili en á tveimur vertíðum var ekkert veitt og á þeirri seinni eitthvað um 6.000 tonn eða rösklega það sem fyrirtæki Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík keypti.
    Hvers konar skipti eru það sem hér er um að ræða, hæstv. utanrrh.? Matreiðslan á þessu máli er með slíkum fádæmum að það væri ástæða til þess, virðulegur forseti, að ræða það við aðrar aðstæður en hér bjóðast og þeir möguleikar verða vafalaust og tilefnin fyrr en seinna.