Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:25:00 (1302)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hve dæmalaus samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er í raun og veru. Samningurinn er ótækur vegna annarra atriða en sjávarútvegshagsmuna en ekki batnar hann eftir því sem meira er farið ofan í saumana á þeim þætti málsins. Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi hafa líka lýst því yfir að þeir hafi dregið stuðning sinn við aðild Íslands að EES til baka. Menn hafa áttað sig á að það sem hæstv. utanrrh. bar á borð fyrir þjóðina eftir ,,sigurinn mikla`` 22. okt. var ekki alveg eins hrukkulaust og hann vildi vera láta. Það er raunar ámælisvert að hæstv. utanrrh. komi þannig fram við þjóðina. Hafi menn gengið að því gruflandi að EB hafi tögl og hagldir í þessu máli eru menn vonandi búnir að átta sig á að EB ætlar að sækja sinn rétt og slá ekkert af.
    Það er að koma í ljós hve rangt það var af íslenskum stjórnvöldum að samþykkja að hleypa EB-flotanum inn í landhelgina gegn aðgangi að mörkuðum EB. Það hefði aldrei átt að ljá máls á slíku. Auðvitað verður að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún láti ekki beygja sig í þessu máli. Það er hægt að láta reyna á það hvort Davíð og Jón hafi nokkuð að segja í Golíat.