Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:26:00 (1303)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Því miður hefur það komið í ljós að hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórn hafa veitt utanrmn. rangar upplýsingar eða túlkað með röngum hætti veigamikil atriði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Ég get staðfest það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði hér áðan að sú lýsing sem gefin var í utanrmn., m.a. af hæstv. utanrrh. þegar hann kom heim, var allt önnur en sú sem nú er komin á daginn.
    Ég vil einnig láta það koma hér fram að síðustu vikur hefur hæstv. utanrrh. og ríkisstjórn leynt utanrmn. því að alvarlegur hnútur væri kominn í þetta mál. Á fundi utanrmn.

sl. mánudag, fyrir tveimur dögum síðan, var sérstakur dagskrárliður á fundinum um frágang EES-samninganna, hvað fráganginum liði. Utanrrh. sá enga ástæðu til þess undir þeim dagskrárlið að greina utanrmn. frá því að vikum saman hefði verið svo alvarlegur hnútur í þessu máli að nú hafa öll samtök í sjávarútvegi á Íslandi sem eiga aðild að samstarfsnefnd sjávarútvegsins dregið til baka stuðning sinn við EES-samninginn. Það eru satt að segja svo stór tíðindi að ég held að engan hafi grunað, sem hefur setið í utanrmn. né hér í þinginu og sem ekki hefur fengið að vita þessar leynilegu upplýsingar sem okkur var bannað að fá og komið í veg fyrir að við fengum, að slíkt gæti gerst.
    Ég vil líka vekja athygli á því að í yfirlýsingu samtaka í sjávarútvegi kemur fram að það séu ýmis fleiri atriði en karfakrafan sem ekki hafa verið staðfest og ég held að það sé rétt sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði hér áðan að það er líka komið í ljós að ekki liggur fyrir neitt fyrirheit frá Evrópubandalaginu um að fella niður tollana af saltsíldarflökunum. Þar er ekki til neitt skrifað gagnstætt því sem sagt var í upphafi. Þar er bara byggt á einhverju sem utanrrh. sagði að væri skilningur Evrópubandalagsins. En nú er komið í ljós að það er engu að treysta hvað snertir yfirlýsingar ráðherrans um skilning Evrópubandalagsins.
    Ég vil lýsa því yfir hér að það er mjög alvarlegt mál þegar utanrmn., sem er trúnaðarvettvangur þingsins, kemst að raun um það að annars vegar hefur henni verið greint rangt frá og hins vegar hefur veigamiklum upplýsingum verið haldið leyndum fyrir henni. Ég vil óska eftir því að haldinn verði fundur í utanrmn. strax í fyrramálið (Forseti hringir.) og þar fáum við tækifæri til að fara yfir þetta mál. Ég vil einnig óska eftir því að hæstv. utanrrh. lýsi því yfir hér að hann muni ekki beygja sig fyrir kröfum Evrópubandalagsins. Það væri mjög alvarlegt mál ef þessari umræðu lyki án þess að utanrrh. segði okkur það að hann muni ekki beygja sig fyrir kröfum Evrópubandalagsins.