Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:30:00 (1304)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Ég er satt að segja orðinn dálítið þreyttur á því að hv. 1. þm. Austurl. komi hér upp og geri mér upp orð og skoðanir. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann gerir það og eins og ég sagði þá er ég orðinn þreyttur á því. Hann lét svo um mælt að ég hefði í umræðum um gagnkvæmar veiðiheimildir farið svo orðum um þau skipti sem ég taldi þau vera á 2.600 tonnum af karfaígildi af langhala annars vegar og hins vegar 30.000 tonnum af loðnu og að ég hefði þar sagt að þar fengjum við allt fyrir ekkert. Þetta er á misskilningi byggt eins og svo margt annað í málflutningi þingmannsins. Staðreyndin er sú, eins og er skráð í þingtíðindi, að ég lét svo um mælt að við værum þarna að fá eitthvað fyrir ekkert. Á þessu er nokkur munur.
    Staðreyndin er líka sú að við erum þarna í samningum komin í nokkrar ógöngur vegna þess að upp er komin sú staða að viðsemjendur okkar hafa komist að því að langhalinn er algjörlega órannsökuð tegund hérna. Þessu vakti ég líka athygli á í umræðunum sem fram fóru í fyrri mánuði. Ég verð satt að segja að koma þeirri skoðun á framfæri að það er hálfhlálegt að heyra fyrrv. sjútvrh., sem var í því embætti fyrir örfáum mánuðum, koma og spyrja núv. sjútvrh. um stöðu rannsókna á langhala. Mér finnst þetta mjög skrýtið. Staðreyndin er auðvitað sú að þær rannsóknir sem hefði fyrir löngu átt að vera búið að gera á þessum stofni og mörgum öðrum ónýttum fiskstofnum hefðu auðvitað átt að fara af stað undir forustu fyrrv. sjútvrh. Mér finnst þetta skrýtið, ég verð að segja það.
    Ég vil að öðru leyti eingöngu koma þeirri skoðun á framfæri að menn skuli fara varlega áður en þeir gefa of stórar yfirlýsingar í þessu máli. Hér er um mikið hagsmunamál fyrir Ísland að ræða. Auðvitað eiga menn að feta slóðina varlega.
    Vegna orða sem hafa fallið í þessum umræðum, þar sem menn hafa verið að draga

úr gildi þessara samninga fyrir íslenskan sjávarútveg, langar mig til að láta þá skoðun koma fram að ég tel að í þeim felist, einkum á sviði ferskra afurða, einhver mestu sóknarfæri sem þessi atvinnugrein hefur fengið um áratuga skeið.