Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:36:00 (1306)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Það er auðvitað alveg ljóst að hæstv. utanrrh. er á ömurlegum flótta í þessu máli. Nú er það upplýst að í þessu viðamikla hagsmunaatriði sem og mörgum fleirum geti örlög Íslendinga ráðist eingöngu af því hvort hið mikla Evrópubandalag kýs að mótmæla eða ekki. Frágangurinn er ekki traustari en það að detti þeim í hug þarna úti í Brussel að mótmæla fjúka hagsmunir Íslands fyrir borð og 2.400 tonn af langhala breytast í karfa á einni nóttu. Það er auðvitað annað mál sem er mjög alvarlegt í þessu sambandi öllu saman og það er sá vítaverði málflutningur sem hæstv. utanrrh. og formaður þingflokks Alþfl., sem skreiddist hér út úr salnum áðan, hafa haldið uppi í þessu máli. Hér reynir þessi stjórnmálamaður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, með svipuðum hætti og á frægum fundi í Háskólabíói og sjónvarpinu síðar, að afneita eigin orðum. Hann hefur lítið lært á því sem lengst hefur aðferð hans í stjórnmálum síðan þá því hv. þm. sagði 16. okt. úr þessum ræðustóli, fyrir tugi vitna og þingtíðindin, með leyfi forseta:
    ,,Það var verið að ræða um að við munum skipta á annars vegar 30.000 tonnum af loðnu og hins vegar langhala að ígildi 2.600 þorsktonnum. Þið hafið vafalaust aldrei séð langhala. Ég hef einu sinni borðað hann og hann er góður. En ég tel hins vegar að þó lítið sé vitað um þessa fisktegund sé auðvitað alveg ljóst að þetta er tegund sem við erum ekki að nýta þannig að við erum þarna að fá eitthvað fyrir ekkert.``
    Það skilja allir íslensku sem hér eru inni og þarf ekki að hafa frekari orð um þennan ömurlega undanslátt hv. þm.
    Hæstv. forseti. Það er einnig óhjákvæmilegt að fordæma sjálfshólsleiðangur hæstv. utanrrh. um landið undanfarnar vikur í ljósi þess sem hér er að koma fram. Þar hefur málið verið fegrað með vítaverðum hætti þannig að þjóðin hefur ekki haft hlutlægar forsendur til að mynda sér skoðun í málinu. Hagsmunaaðilar sjávarútvegsins hafa fengið meiri upplýsingar en almenningur og reyndar meiri upplýsingar en sjálf hæstv. utanrmn. Það segir sitt að þessir menn, sem nú eru best upplýstir í landinu um stöðu málsins, draga til baka stuðning sinn við samninginn. Það er óhjákvæmilegt að Alþingi taki slík tíðindi alvarlega. Þess vegna verður utanrmn. að koma strax saman og ræða þessa nýju stöðu og það er óhjákvæmilegt að Alþingi geri það einnig. Það er ekki hægt fyrir hæstv. utanrrh. að skjóta sér á bak við það að Evrópudómstóllinn tefji undirritun samningsins. Ég spurði um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanrrh., ekki Evrópudómstólsins. Ef Evrópudómstóllinn gefur samningnum grænt ljós á morgun, verður þá undirritað hinn daginn? Það er mín spurning og ég vil fá svör.
    Því miður verð ég að segja að það var dapurlegt að heyra hæstv. sjútvrh. koma hér upp, beygðan mann, og þetta er því miður rangt hjá Morgunblaðinu, þeir eru ofan á, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., og hafa greinilega beygt hæstv. sjútvrh.