Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:56:00 (1317)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Það er öllum kunnugt að alvarlegar aðstæður ríkja í efnahagsmálum okkar. Þá ekki síst í sjávarútveginum sem skapar okkur hvað mestar tekjur. Ríkisstjórnin hefur því miður verið með misvísandi ummæli í þessum málaflokki og það hefur skapað verulega óvissu. Það er í fyrsta lagi óvissa um framtíð fiskveiðistjórnunarinnar. Það mál hefur verið sett í nefnd og komið fram að um það er ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Það hefur legið fyrir frá því í september sl. að botnfiskvinnslan og veiðarnar eru reknar með 5--6% tapi. Um miðjan nóvember sl. skipaði hæstv. forsrh. stóra nefnd til að fjalla um þetta alvarlega mál. En auðvitað liggur það alveg ljóst fyrir að sjútvrh. hlýtur að hafa unnið að málinu í sínu ráðuneyti á undanförnum missirum. Enda hefur það nú komið fram að hann hefur lagt fram tillögur í hæstv. ríkisstjórn til að bregðast við þessum mikla vanda. Það kom því nokkuð á óvart og skapaði enn meiri óvissu í sjávarútveginum þegar fram kom í kvöldfréttum í gærkvöldi að haft var eftir hæstv. sjútvrh. að brýnt væri að taka á rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja þegar í stað. En haft er eftir hæstv. forsrh., sem fer með efnahagsmál, að ekkert sérstakt knýi á um skjóta lausn þessa vanda. Þetta eru tilvitnanir úr fréttum útvarps í gærkvöldi.
    Fréttamaðurinn spyr jafnframt forsrh. hæstv.: ,,Þannig að þegar sjútvrh. segir að það

þurfi að gerast á næstu dögum og þú að við höfum vikur er að það sé ekki ágreiningur heldur.`` Hún hafði áður spurt um ágreining. Hæstv. forsrh. svarar: ,,Ekki sem neinu nemur. Eins og ég segi: Það skiptir öllu máli að menn séu búnir að koma sér niður á þá hluti sem þeir ætla að framkvæma en ekki að hlaupa til þess vegna einhverrar tímasetningar. Það hefur verið árátta í íslensku þjóðfélagi að setja sér einhver tímamörk sem eiga sér kannski enga stoð. Ég tek ekki þátt í því.``
    Ég hlýt af þessu tilefni að spyrja hæstv. forsrh.: Er uppi ágreiningur um aðgerðir í þessu alvarlega máli? Telur hæstv. forsrh. að sjávarútvegurinn geti búið við þá óvissu að það liggi í loftinu næstu vikur og fram á næsta ár að það eigi að gera einhverjar aðgerðir? Margt má gera og ég efast ekki um að hæstv. sjútvrh. hefur lagt þar margt gott til en útilokað er að búa við þá óvissu sem forsrh. hefur skapað með ummælum sínum. Því hvet ég hann til að draga þessi orð sín til baka og upplýsa að mjög skammt sé í það að þessar ráðstafanir líti dagsins ljós. Ef svo er ekki þá hvet ég hæstv. sjútvrh. til að upplýsa þingið um það hvað hann hefur lagt til og hvað hann þurfi að gera núna alveg á næstu dögum.