Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:58:00 (1318)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar hv. 1. þm. Austurl. vil ég taka fram að hægt er að svara því: Fljótlega. Það er ekki hægt að draga það í margar vikur og fram á næsta ár eins og hann orðaði það að kynna niðurstöðu okkar í þessum efnum. Á hinn bóginn er það líka rétt að við höfum iðulega á liðnum árum lent í því að tilteknar dagsetningar hafa verið næstum því óyfirstíganlegar vegna þess að við þær dagsetningar skyldi eitthvað sérstakt gerast í efnahagslífinu. Stórfelldar hækkanir skyldu koma á laun og annað þess háttar. Við þekkjum þær dagsetningar afskaplega vel, 1. maí, 1. sept. og aðrar slíkar dagsetningar sem hafa sett allt í mikinn hnút. Þær dagsetningar eru ekki á ferðinni núna þó að ég sé ekki að draga neitt úr því að sá vandi sem við er að etja er töluverður. Málshefjandi fer sjálfsagt nærri um það með hvaða hætti fyrirtækin voru skilin eftir þegar hann og hans félagar í fyrrv. ríkisstjórn fóru frá. Þess er ekki langt að bíða að þær tillögur sem ríkisstjórnin kemur sér saman um verði kynntar.