Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:10:00 (1324)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin virðist gjörsamlega ráðalaus eða a.m.k. verður ekkert samkomulag um þau ráð sem menn hafa. Þess vegna gerist ekki neitt. Einu úrræðin sem við höfum séð koma inn í þingið frá þessari ríkisstjórn í sjávarútvegsmálum eru að selja eigi aðgang að þeim afla sem er á vegum Hagræðingarsjóðs. Við bíðum hér, þjóðin bíður öll og sérstaklega landsbyggðin og útgerðin í landinu eftir aðgerðum í efnahagsmálum, þessum aðgerðum sem hafa verið boðaðar að eigi að vera almenns eðlis en þær koma ekki. Menn tala um að ná niður vöxtum en það gerist ekki neitt. Þeir halda áfram að vera svo háir að þeir hafa líklegast ekki verið jafnháir hér í aðra tíð. Fjölmargt annað þarf að gerast gagnvart sjávarútveginum til þess að lagfæra stöðu hans á meðan endurskoðun fiskveiðistefnunnar stendur yfir.     Ég bendi á að draga þarf markvisst úr og, ef þurfa þykir, banna flutning veiðiheimilda á milli byggðarlaga og skipa á meðan það ástand varir sem nú er. Ég bendi á að það er rifist um allt land um tvöföldun línuaflans og að það eigi að afnema krókaleyfin á litlu bátunum. Það er líka mikið byggðamál út um allt land. Það þarf að taka afstöðu til slíkra mála, það þarf að taka afstöðu til þess hvernig eigi að taka á því

að afla er hent í sjóinn og það þarf að stöðva að mínu viti þá þróun sem er í gangi núna að verið er að flytja fiskvinnsluna út á sjó. Við verðum að doka við og bíða með það að hleypa fjölmörgum skipum af stað sem þýðir að atvinnan dregst saman í landi. Það þarf að setja reglugerð um fiskmarkaði og gera fjölmargt annað, en það fyrsta sem verður auðvitað að gerast er að ríkisstjórnin hysji upp um sig buxurnar og komi með aðgerðir í efnahagsmálum.