Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:13:00 (1325)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég nefndi fyrr í dag yfirlýsingar hæstv. forsrh. sem ég tel ekki vera sæmandi þeim sem leiðir ríkisstjórn íslenska lýðveldisins. Í gær er haft eftir hæstv. sjútvrh. í fréttum að brýnt sé að taka á rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja. Í sama fréttatíma segir hæstv. forsrh. að ekkert sérstakt knýi á um skjóta lausn vandans. Ég hygg að í þeim ummælum sé að leita skýringa á því ástandi sem við búum við í þinginu þar sem hvorki gengur né rekur. Það takast á tveir armar í Sjálfstfl. sem koma sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut. En ég hlýt að taka undir með hæstv. sjútvrh. að mjög brýnt er að taka á þeim vanda sem blasir við í þjóðfélaginu og snertir atvinnulífið, ekki eingöngu sjávarútvegsfyrirtækin heldur vinnu fólks í landinu. Ég óttast að með aðgerðum og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sé verið að setja af stað keðjuverkun samdráttar sem á eftir að koma illa niður á vinnandi fólki í landinu. Ég vil ítreka og koma til skila til hæstv. ríkisstjórnar þeirri tillögu sem við kvennalistakonur lögðum til á nýliðnum landsfundi okkar um það að ríkisstjórnin notfæri sér þá lántökuheimild sem Landsvirkjun þarf ekki að nota og beiti sér fyrir arðvænlegum opinberum framkvæmdum á vegum ríkis eða sveitarfélaga eða jafnvel annarra aðila til að skapa vinnu í landinu og halda uppi eftirspurn. Það verður að grípa til ráða ella kann illa að fara.