Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:17:00 (1327)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Það er varla fyrir nokkurn mannlegan mátt að eltast við allar yfirlýsingar hæstv. forsrh. Það gat að vísu gengið í borgarstjórn, en varla þegar þjóðin öll hlustar á og tekur eftir. Það virðist vera alveg sama þó leiðinlegt sé, það er bara endurtekið. Ég ætla að taka upp aðeins eina, reyndar gatslitna, plötu hjá hæstv. forsrh. Hann segir enn einu sinni: Sjáið bara hvernig fyrri ríkisstjórn skildi við atvinnuvegina.
    Veit hæstv. forsrh. hvað sú vaxtahækkun sem hefur orðið, svo ég taki nú það eitt, þýðir fyrir atvinnuvegina? Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands og vaxtasíðu Morgunblaðsins hafa meðalvextir af verðtryggðum skammtímalánum hækkað úr 8% í 10%. Þegar kemur að óverðtryggðum lánum er gert enn betur því að vextir af óverðtryggðum lánum hafa hækkað úr 9,1% í 16,1%. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar þýðir hækkun innlendra vaxta, ef maður tekur þá eina, u.þ.b. 1,5 milljarða í auknum útgjöldum fyrir atvinnulífið í landinu. Hvað ætli séu margir milljarðar sem er um að ræða?
    Ég vil nota tækifærið og taka undir það með hæstv. sjútvrh., þarna þarf sannarlega að hafa handleiðslu, ég held hann hafi kallað það það. Handafl hef ég stundum kallað það, en það þarf sannarlega að hjálpa til til að lækka vextina og það er það langbesta sem hægt er að gera fyrir atvinnulífið.