Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:23:00 (1329)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég skil vel að hv. 1. þm. Austurl. sé ekki hlynntur því að ég tali

lengi um fortíðarvandann, en það er hins vegar algjörlega nauðsynlegt ( HÁ: Það er allt í lagi, allt í lagi.) og ég mun ekki hika við það að halda því vel til skila hvernig komið var vegna þess að því var haldið að landsmönnum ( HÁ: Ætlar þú að eyða öllum þínum tíma í það?) að staðan væri miklu betri en í raun reyndist vera. Mér fannst líka gaman að því, virðulegi forseti, að minn ágæti fyrirrennari, einmitt þessi virðulegi og ágæti þingmaður, fyrrv. forsrh., skyldi tala um það að yfirlýsingar mínar væru sérstakt vandamál. Ég býst við að það sé fróðlegt fyrir þjóðina að heyra það úr munni hans. Reyndar var það fyrir fjórum árum sem yfirlýsingar þessa ágæta þingmanns og þá ráðherra voru taldar sérstakt efnahagsvandamál.
    En ég vil nefna eitt atriði sem hann nefndi vegna þess að hann taldi að eitt hafi gerst af okkar völdum --- því að hann var ósammála 1. þm. Austurl. að þetta væri ekki af okkar völdum --- sem hefði nú farið halloka, það væru vextirnir. Hann nefndi vextina sérstaklega. En hv. þm. hefði átt að hlusta betur á ræðu hv. 5. þm. Suðurl. sem skýrði mjög vel hvers vegna vextirnir eru eins og þeir eru og af hverju þeir fóru svona hátt. Hann talaði um það með hvaða hætti ríkisvaldið hefði sölsað undir sig og sótt í allt spariféð í landinu. Hann nefndi með hvaða hætti það væri í ár og þó er það minna en til stóð af hálfu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það eru nefnilega verkin sem tala en ekki yfirlýsingarnar. Og það eru verk hans að sækja svo í sparifé landsmanna sem urðu til þess að vextir eru jafnháir og þeir eru. Það er ekki fyrr en menn ná tökum á því sem vextir lækka á nýjan leik.