Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um umræður á Alþingi um þyrlukaup

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 16:51:00 (1335)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég get vissulega tekið undir það með hæstv. forsrh. að afar illt er að þurfa að ræða þessi mál í skugga þessa hörmulega slyss. En ég get hins vegar ekki tekið undir neitt annað sem hann hefur um það sagt. Ég vil vekja athygli á því að það er Sjómannafélag Grindavíkur sem kveður til fundar á sunnudagskvöldið, að mjög vel athuguðu máli, og hefur þá umræðuna um þyrlukaupin. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið hv. þm. Ingi Björn Albertsson sem bað um þann fund. Eins og komið hefur fram var það annar þingmaður sem bað um umræðurnar. Ég heyrði ekkert í þessum umræðum sem var ósæmilegt, langt frá því. Vitanlega var þjóðin öll slegin af þessu hörmulega slysi og sannarlega var skiljanlegt að menn vildu taka þetta mál upp, jafnvel við þessar erfiðu aðstæður og fá úr því skorið hvort þyrla verði keypt. Og mér finnst afar ómaklegt, og ég endurtek það, að veitast að hv. þm. Inga Birni Albertssyni sem ekki í tvö ár, eins og ég sagði fyrr í dag, heldur í fjögur ár hefur barist fyrir slíkum þyrlukaupum og hann er hvattur til þess, eins og ég hef sagt, af mörgum, af öllum í landinu nánast, til að taka málið upp og knýja fram svar. Mér þykir afar leitt að heyra svona ummæli eins og hv. forsrh. viðhafði áðan en að sjálfsögðu er það ekki mitt að kenna nýjum herrum mannssiði.