Þingleg meðferð EES-samnings

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 10:38:00 (1339)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra upplýsingar hans. Ég tel að það sé ekki seinna vænna fyrir Stjórnarráðið og raunar Alþingi að taka þessi mál til sérstakrar athugunar með tilliti til formsins og þess tíma sem til ráðstöfunar getur verið. Ég heyri að það er ásetningur hæstv. ráðherra að flytja staðfestingarfrv. varðandi samninginn sjálfan en síðan komi fylgifrv. og það sé ekki enn fullmótuð stefna hvort þau verði lögð fram eins og hann segir í bandormsformi, þ.e. í einum pakka, eða hvort þau verði lögð fram sem sjálfstæð frv. til breytinga á íslenskri löggjöf. Þetta er auðvitað nauðsynlegt að menn meti og ég tel æskilegt að það verði samráð innan þingsins og við Alþingi um það í hvaða formi

þetta gerist því að ég tel einsýnt að þingnefndir, fagnefndir þingsins, þurfi að líta á þessi mál og fjalla um lagabreytingar enda þótt stofnuð yrði sérstök nefnd, eða Evrópustefnunefnd þingsins vakin til lífsins, til þess að fjalla um málið heildstætt. Það þarf athugunar við.
    Hæstv. ráðherra nefndi að það mætti fresta afgreiðslu einstakra frv. fram á haustþing 1992. Þá skil ég hann svo að hann hyggist fá afstöðu þingsins til samningsins á vorþingi og bið hann um að greina frá því hér hvort það er hans stefna. Ég vil að það komi fram að ég tel óeðlilegt að það séu óafgreidd frv., a.m.k. mál sem einhverju skipta, þegar Alþingi er ætlað að taka afstöðu til samningsins í heild, grundvallarafstöðu. Þetta tel ég brýnt að haft sé í huga. Eins þetta sem hæstv. ráðherra nefndi að það gæti verið möguleiki að fresta lagasetningu á sviðum þar sem við höfum aðlögunartíma. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að Alþingi horfi framan í þetta mál í heild sinni, einnig hvað fylgir í formi lagabreytinga þó svo að um tímafrest sé að ræða varðandi gildistöku slíkra breytinga. Menn hljóta að móta afstöðu sína til þessa stóra máls heildstætt og Alþingi ber að hafa markað stefnu varðandi lagabreytingar áður en afstaða er tekin til samningsins í heild.
    Ég þakka annars fyrir það sem fram er komið. Ég er sannfærður um að það er þörf á því að leggja vinnu í þetta mál nú á næstunni til þess að fá skýrar fram en hér kom í máli hæstv. ráðherra hversu umfangsmikið þetta verk er og hvar mörkin liggja á milli reglugerða, tilskipana og annarra reglna Evrópubandalagsins sem þingið þarf að fjalla um af tilefni þessa ráðgerða samnings.