Þingleg meðferð EES-samnings

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 10:40:00 (1340)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég tel nauðsynlegt að áður en ætlast verður til þess að Alþingi taki afstöðu til samnings, sem hugsanlega verður lagður hér fyrir Alþingi, þá verði öll lagafrv. að liggja fyrir þannig að fólk geti gert sér grein fyrir pakkanum í heild. Ég heyrði ekki á svörum hæstv. ráðherra hvort hann liti svo á að inni í þessum pakka væru einnig þessar svokölluðu girðingar sem talað hefur verið um, þessi frv. sem á að setja í íslensk lög sem ráðherrann hefur nefnt girðingar. En það hlýtur að skipta mjög miklu máli hvernig þær eiga að líta út til þess að menn geti þá metið hvort þeir telji þær girðingar nægjanlegar og hvort þeir sætti sig við þau frv. sem eru á því sviði. Það er ekki nóg að leggja fram þau lagafrv. sem eru nauðsynleg vegna samningsins heldur einnig það sem talað hefur verið um að öðru leyti.