Þingleg meðferð EES-samnings

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 10:43:00 (1342)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir þessa gagnlegu og málefnalegu umræðu. Ég sé ástæðu til þess að geta eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi. Þau frv., sem kölluð hafa verið girðingafrv., tel ég að eigi að leggja fram hið fyrsta. Ég er sammála því sjónarmiði. Þá á ég við annars vegar breytingar á innlendri löggjöf á forræði landbrn. og eins boðaða löggjöf í hvítbók ríkisstjórnar um að kveða skýrt á um eignarrétt á orkulindum og almenningum utan bújarða.
    Í annan stað er þess að geta að staðfestingarfrv. verður að sjálfsögðu ekki lagt fram nema fyrir liggi ,,sérprótókoll`` eða fylgisamningur um sjávarútvegsmálið sem ég geri ráð fyrir að verði lokið á næstunni. Hann er einfaldlega ein af forsendunum þannig að hann mun liggja fyrir áður sem og tvíhliða samningurinn. Það liggur í hlutarins eðli.
    Í þriðja lagi er spurt um frumvörp á þeim sviðum þar sem við höfum lengri aðlögunartíma, þ.e. þriggja ára aðlögunartíma til 1996. Að fráskildu því sem ég hef þegar nefnt um girðingafrv., þá kann það að vera álitamál í hverju tilviki hver nauðsyn er á því að þau verði lögð fram áður en samningurinn kæmi til framkvæmda og í hvaða tilvikum það væri viðunandi þótt þau yrðu afgreidd síðar.