Afnot Ríkisútvarpsins af ljósleiðara

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 10:54:00 (1345)

     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að ég væri nú ekki að öllu leyti ánægður með það. Ég geri ráð fyrir því að svarið sé undirbúið hjá Pósti og síma og mér fannst að þeir sem svarið undirbjuggu gerðu litla tilraun til þess að svara þeim spurningum sem settar eru fram, þ.e. hver er raunverulegur kostnaður Pósts og síma í þessu tilviki.
    Ég tel að í þessu tilviki sé ekki hægt að líta á Ríkisútvarpið sem einhvern venjulegan viðskiptavin Pósts og síma. Ég held að það verði að skoða þetta mál út frá svolítið vinsamlegra sjónarmiði en lýsti sér í svarinu við þessari fsp. og að sú skylda hvíli á Pósti og síma að reyna að koma til móts við Ríkisútvarpið í þessu máli, hugsanlega að bjóða verulegan afslátt. Það er lágmarkskrafa að um verulegan afslátt geti verið ræða þannig að viðskipti milli þessara tveggja stofnana ríkisins á þessu sviði gætu orðið öllum landsmönnum til góða. Mér finnst það fyrir neðan virðingu þessara tveggja stofnana að standa í illdeilum með ósveigjanlegri afstöðu sem leiðir til þess að landsmenn njóta ekki þessarar miklu tækninýjunar sem gæti leyst svo mörg vandamál fyrir okkur víðs vegar um land. Ég vil í framhaldi af þessari umræðu skora á hæstv. menntmrh. að taka þetta mál upp og reyna að greiða fyrir því að samvinna milli Ríkisútvarpsins og Pósts og síma geti átt sér stað þannig að hægt verði að bæta útsendingu Ríkisútvarpsins um land allt.