Vegrið

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:01:00 (1349)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Vegagerðin hóf notkun vegriða úr stáli fyrir um 20 árum. Var sett upp töluvert af vegriðum meðfram vegunum út frá Reykjavík og austur fyrir fjall þegar þeir vegir voru endurbyggðir upp úr 1970. Síðan hægði verulega á notkun en hefur aukist aftur á síðustu árum. Nú munu vera um 20 km af vegriðum meðfram vegum landsins og eru þá brýr ekki meðtaldar.
    Vegrið eru sett upp til að hindra að ökutæki lendi út af akbraut, ýmist vegna þeirrar hættu sem það hefur í för með sér fyrir þá sem í ökutækinu eru eða fyrir þá sem utan akbrautar eru, t.d. gangandi vegfarendur. Við ákvörðun á því hvort vegrið er sett upp þarf annars vegar að meta kostina sem yfirleitt eru aukið umferðaröryggi og hins vegar ókostina sem m.a. eru snjósöfnun, vandkvæði og kostnaður við snjómokstur, en ætla má að hver metri af uppsettu og frágengnu vegriði kosti um 3.000 kr. Þá verður einnig að hafa í huga að vegriðið sjálft skapar nokkra hættu í umferðinni, einkum á því að rekast á enda þess. Reglur og staðlar um gerð og staðsetningu vegriða taka mið af framangreindum atriðum. Slíkar reglur er að finna í vegstöðlum flestra nágrannaþjóða okkar. Vegagerðin hefur komið sér upp slíkum reglum og taka þær mest mið af norskum stöðlum um sama efni. Í reglum þeim sem notaðar eru hjá Vegagerðinni er bæði að finna ákvæði um staðsetningu og tæknilega útfærslu. Framangreindar reglur um vegrið eru hliðstæðar öðrum reglum um gerð og útbúnað vega. Má þar nefna beygjur, bratta, vegsýn, vegbreidd, lýsingu o.s.frv.
    Við áætlanagerð um vegaframkvæmdir er jafnan reynt að taka mið af öllum þessum þáttum. Við gerð langtímaáætlunar í vegagerð er þannig reynt að meta þörf á einstökum úrbótum sem nauðsynlegt er talið að gera á öllu vegakerfinu og kostnaður við úrbætur þessar metinn. Er í því sambandi höfð hliðsjón af áðurnefndum reglum og stöðlum. Kostnaður við uppsetningu vegriða samkvæmt stöðlum þessum er innifalinn í kostnaðartölum þeim sem notaðar hafa verið við gerð langtímaáætlunar á sama hátt og kostnaður við t.d. breikkun vega, lýsingu o.s.frv. Má á þann hátt segja að áætlun um uppsetningu vegriða sé innifalin í langtímaáætlun og þar með vegáætlun þar eð hún er felld að og tekur mið af langtímaáætlun. Uppsetning vegriða og mat á þörf á þeim er þannig meðhöndluð á sama hátt og aðrar þarfir vegakerfisins og til þessara hluta er veitt fé af vegáætlun ýmist sem hluti stærra verkefnis eða sem sérstakar aðgerðir.
    Auk framangreinds má nefna að á undanförnum árum hefur verið unnið að endurbótum á vegriðum á og við brýr eftir sérstakri áætlun. Samkvæmt áætluninni lýkur uppsetningu vegriða við mjóar brýr á fjölförnum vegum að mestu á næstu fimm árum. Hefur verið veitt fé til þeirra framkvæmda af liðnum Vegmerkingar og öryggisaðgerðir sem er hluti af viðhaldi vega. Af þessum lið er einnig varið fé til úrbóta á öðrum hættulegum stöðum á vegakerfinu þar sem endurbygging vegarins er ekki fyrirsjáanleg. Við ráðstöfun fjárins eru teknir fyrir hættulegustu staðirnir, metnar þær lausnir sem koma til álita í hverju tilviki og sú lausn valin sem best hentar. Nokkuð af vegriðum er sett upp með þessum hætti.
    Þrátt fyrir miklar endurbætur sem gerðar hafa verið á vegakerfi landsins á undanförnum árum skortir enn mjög mikið á að það sé eins og æskilegt væri og uppfylli kröfur staðla þeirra sem notaðir eru til að meta endurbótaþörf. Má í því sambandi nefna vondan vegferil, krappar beygjur og brekkur, mjóa vegi og brýr, vöntun á slitlagi, lélegt burðarþol og vöntun á ýmsum öryggisbúnaði, þar með töldum vegriðum. Tel ég eðlilegt að öllum þessum atriðum verði sinnt innan vegáætlunar og langtímaáætlunar framvegis eins og verið hefur. Vegrið er dýrt, kostar um 3 millj. kr. á hvern km miðað við vegrið á öðrum kanti vegarins. Upphæðin er einungis lítið eitt lægri en kostnaður við bundið slitlag. Þessi mikli kostnaður ásamt þeirri staðreynd að vegakerfi landsins er enn þá mjög ábótavant í mörgu og stenst ekki samanburð við vegakerfi annarra landa veldur því að vegrið eru hér mun sjaldgæfari en víða annars staðar. Hin síðustu ár hefur sérstakur liður innan viðhalds, eins og fram kom í máli mínu áðan, verið ætlaður til öryggisaðgerða og hefur hann m.a. verið notaður til að setja upp vegrið á hættustöðum.
    Með hliðsjón af því sem hér hefur verið nefnt er það skoðun mín að fella beri áætlanir um vegrið inn í vegáætlun og langtímaáætlun eins og aðra þætti tengda vegagerð. Þess utan séu gerðar áætlanir um úrbætur á hættustöðum eins og þegar er byrjað á. Segja má að þál. undirstriki aukna áherslu á slíkar úrbótaáætlanir. Mun Vegagerðin m.a. af þessu tilefni auka þennan þátt. Ljóst má þó vera að slíkar úrbótaáætlanir geta ekki verið tæmandi. Fremur verða þær að skoðast sem áætlun en nokkurra ára átak hverju sinni.