Vegrið

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:10:00 (1353)

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
     Hæstv. forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og einnig innlegg annarra hv. alþm. Ég tek alveg undir það að þessi þáttur mála eigi að falla inn undir vegáætlun í heild sinni en þáltill. sem slík fjallaði um það að gerð yrði sérstök áætlun um þennan þátt mála sem síðar má fella inn í vegáætlun. Mér finnst það grundvallaratriði að sú ályktun, sem samþykkt var sl. vor, verði virt og síðan fari hún inn í vegáætlun.
    Það er alveg rétt sem kom fram hér hjá einum hv. þm. að því miður hafa verið brögð að því að vegrið hafi ekki verið sett upp fyrr en slys hafa orðið og eru fleiri dæmi til um það en það sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni en ég ætla ekki að nefna. Hins vegar erum við aðallega með í huga vegi þar sem eru brattar hlíðar hvort sem það er niður í sjó eða niður með fjöllum, að þar megi setja upp vegrið og koma í veg fyrir slys. Á þessum vegum er yfirleitt ekki um langa kafla að ræða. Þetta eru kannski einhverjir tugir metra þannig að kostnaðurinn er í sjálfu sér ekki ýkja mikill. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að leggja nú fram þessa áætlun en jafnframt að hún verði síðan felld inn í vegáætlun í heild.