Móttökuskilyrði hljóðvarps og sjónvarps á Vopnafirði

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:16:00 (1356)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Svar mitt við þessari fsp. er svohljóðandi:
    Í Vopnafirði eru endurvarpsstöðvar fyrir útvarp og sjónvarp. Endurvarpsstöðvarnar taka við útsendu merki frá aðalsendum á Gagnheiði. Fjallgarðurinn frá Héraði yfir í Vopnafjörð er mjög slæm radíóleið vegna þess að ekki er bein sjónlína þangað. Bylgjan brotnar á fjallgarðinum og verður fyrir bragðið ekki stöðug. Einnig er um að ræða erlendar truflanir á þeirri tíðni sem notuð er, aðallega vor og haust vegna ástands í háloftunum.
    Tilraunir hafa verið gerðar til að finna viðunandi viðtökustaði til endurvarps Vopnafjarðarmegin en án árangurs. Ríkisútvarpið á í viðræðum við Póst og síma um leigu á flutningsleið í ljósleiðara sem liggur frá Egilsstöðum til Vopnafjarðar. Þessi leið hefur verið farin áður til úrbóta á móttökuskilyrðum á Norðfirði. Þá var farið um Reyðarfjörð, Eskifjörð og út á Norðfjörð.
    Í viðræðum við Póst og síma hefur það komið í ljós að kostnaður við ljósleiðara vegna sjónvarps er 1,6 millj. kr. Kostnaður verður minni vegna útvarpsins. Vonast er til að niðurstaða þessara viðræðna liggi fyrir innan skamms. Af Ríkisútvarpsins hálfu er lögð mikil áhersla á að flýta afgreiðslu þessa máls og koma útsendingum til Vopnafjarðar í lag sem fyrst.