Réttindamál krabbameinssjúkra barna

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:29:00 (1360)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér á Alþingi og jafnframt fagna því að hreyfing skuli vera á þessum málum hvað varðar framfærslu og greiðslu kostnaðar þegar foreldrar annast krabbameinssjúk börn í heimahúsum. Ég tel að hér sé um mikilvægan áfanga að ræða.
    Ég vil jafnframt geta þess að við kvennalistakonur höfum flutt bæði í frumvarpsformi og þáltill. mál er tengjast þessu og sérstaklega fjalla um ferðakostnað og dvalarkostnað foreldra sem eiga sjúk börn. Skemmst er frá því að segja að þau hafa fengið allþokkalegar undirtektir og þar af leiðandi hefur komið nokkur hreyfing á málin. En eins og kom fram í greinargerð þeirri sem hv. fyrirspyrjandi gat um, þá þarf enn að gera betur.