Opinber réttaraðstoð

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:48:00 (1368)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að frv. um þetta efni hefur verið lagt fram í tvígang hér á hinu háa Alþingi án þess að fá brautargengi, m.a. vegna þess að það hefur verið mat þeirra sem skoðað hafa frv. gjörla að það væri býsna opið og mjög óvíst hversu mikinn kostnað það hefði í för með sér. Það er alveg ljóst að hér er um að ræða gífurlegar fjárhæðir og það hlýtur að orka tvímælis, án þess að ég sé að lýsa andstöðu minni gagnvart þeirri hugmynd að í ákveðnum tilvikum njóti efnalítið fólk aðstoðar í þessu efni, að opna lagaheimildir sem gera það að verkum að stór hluti af þessum kostnaði færist yfir á ábyrgð ríkisins því að í þessu efni hljótum við að halda ábyrgð fyrst og fremst að einstaklingunum í þjóðfélaginu sem þurfa úrlausnar við sín í milli. Hér er um kostnaðarvandamál að ræða að þessu leyti.
    Í annan stað vil ég vekja á því athygli að í frv. sem liggur fyrir þessu þingi um meðferð einkamála er kaflinn úr frv. um opinbera réttaraðstoð að því er varðar gjafsókn og gjafvörn tekinn upp svo til óbreyttur. Með þeim reglum sem nú gilda og þeim nýju ákvæðum sem tekin eru upp um þetta efni er tryggð lágmarksaðstoð í þessu efni af opinberri hálfu. Þar er gert ráð fyrir því að sérstök nefnd yfirfari umsóknir um gjafsókn og gjafvörn og heimildir verði ekki veittar nema að fengnu samþykki þessarar nefndar. Hér er um nýmæli að ræða og sérstaklega nauðsynlegt í þessu samhengi að vekja athygli á því að þessi hluti frv. sem ekki hefur hlotið brautargengi hér er nú kominn inn í frv. til meðferðar einkamála og liggur fyrir þinginu.